ma ritgerð³hann... · 1 Útdráttur tónlist tónlistarinnar vegna - heimildarmynd um off venue...

104
MA ritgerð Hagnýt menningarmiðlun Tónlist tónlistarinnar vegna Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves Jóhann Ágúst Jóhannsson Leiðbeinandi Halla Kristín Einarsdóttir Október 2019

Upload: others

Post on 27-Feb-2021

2 views

Category:

Documents


0 download

TRANSCRIPT

Page 1: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

MA ritgerð

Hagnýt menningarmiðlun

Tónlist tónlistarinnar vegna

Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves

Jóhann Ágúst Jóhannsson

Leiðbeinandi Halla Kristín Einarsdóttir

Október 2019

Page 2: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

Háskóli Íslands

Hugvísindasvið

Hagnýt menningarmiðlun

Tónlist tónlistarinnar vegna

Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves

Ritgerð til M.A.-prófs

Jóhann Ágúst Jóhannsson

Kt.: 250173-5559

Leiðbeinandi: Halla Kristín Einarsdóttir

Október 2019

Page 3: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

1

Útdráttur

Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er

meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar vegna og tekur

fyrir gerð og efni heimildarmyndar í hagnýtri menningarmiðlun um hliðardagskrá

stærstu og þekktustu tónlistarhátíðar Íslands.

Leitast er við að gefa greinargóða yfirsýn á gerð heimildarmyndarinnar, hún staðsett

innan fræðilegrar umfjöllunar um heimildarmyndir, efnistök og aðferðir sem eiga við

Off Venue – Tónlist tónlistarinnar vegna útskýrð og fjallað um markmið með

framleiðslu myndarinnar og greining gerð á efninu. Rætt verður um hlutverk

tónlistarviðburða út frá sjónarhorni viðburðarstjórnunar og menningarfræða og skoðað

hvort og hvernig Off Venue á Iceland Airwaves eykur heildarupplifun þátttakenda og

áhrif á tónlistarlífið í tónlistarborginni Reykjavík. Með verkefninu er leitast við að finna

svör við tvíþættri rannsóknarspurningu sem liggur til grundvallar um gildi og mikilvægi

Off Venue fyrir tónlistarlífið:

a) Er Off Venue mikilvægt og hvernig þá?

b) Er þörf fyrir þennan hliðarvettvang og hverjum þjónar hann?

Efni heimildarmyndarinnar er útskýrt, tónlistarviðburðir og mikilvægi þeirra fyrir

ferðamennsku og borgarlíf sett í samhengi við rannsóknir á tónlistarviðburðum og

viðburðarfræði. Markmið myndarinnar og greining á efninu sem ritgerðin fjallar um er

að varpa ljósi á það mikilvæga hlutverk sem Off Venue gegnir fyrir tónlistarfólk,

Reykjavík og tónleikagesti á Iceland Airwaves hátíðinni. Hvað fólgið er í því að vera

vettvangur fyrir þá miklu grósku sem býr í íslensku tónlistarlífi og veita fólki fleiri

tækifæri til að upplifa tónlist á hinum ýmsu stöðum meðan á Iceland Airwaves stendur

yfir.

Þeir þættir sem hér eru til umfjöllunar snúa að hliðardagskrá Iceland Airwaves

2016 og þeim sem að henni koma. Í niðurstöðum er rannsóknarspurningum svarað og

reynt að greina áhrif dagskrárinnar en einnig er fjallað um breyttar áherslur með

aðkomu nýrra rekstraraðila að Iceland Airwaves.

Lykilorð: Iceland Airwaves, Off Venue, heimildarmynd, hliðardagskrá, Ísland, tónlist,

tónlistarfólk, tónlistariðnaður, menning, miðlun, viðburðarstjórnun, menningarfræði,

Reykjavík, skipulag, tónleikahald, tónleikastaðir, tónlistarfræði, menningarstjórnun.

Page 4: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

2

Abstract

This dissertation presents a study of the Off-Venue section of Iceland Airwaves, and

addresses the role of this musical event in the heart of Reykjavík. It covers the topic and

the making of the documentary Off Venue – Tónlist tónlistarinnar vegna1, which

presents and debates the relationship between the Off Venue at Iceland Airwaves, the

country’s most famous music festival.

The aim of this study is to provide as a good perspective as possible on the making

of Off Venue – Space of Music, and to place the film within academic discourse of

documentaries. The importance of music events will also be discussed from the

disciplines of event management and cultural studies. The researcher tries to find the

real value and meaning of the Off-Venue events for music life in Reykjavík by

conducting interviews with various stakeholders within the festival, such as organizers,

event planners, industry employees, and musicians. The aim is to answer the following

questions:

a) Is the Off Venue important, and if so how?

b) Is there a need for the Off Venue and whom does it serve?

The film and this thesis will hopefully connect the dots and show the scope of the

Off-Venue, what it is about, and identify what, if any, importance and meaning the Off-

Venue brings to the table for artists, people coming to shows, the businesses opening

their doors to music lovers during the day, and the music scene in Reykjavík.

Key words: Iceland Airwaves, Off Venue, documentary, Iceland, music, musicians, music

industry, culture, media, event management, cultural studies, Reykjavík, concerts and live

music, music venues, cultural management.

1 In English the film is titled Off Venue – Space of Music

Page 5: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

3

Formáli Þessi greinargerð fylgir heimildarmyndinni Off Venue - Tónlist tónlistarinnar vegna

sem fjallar um hliðardagskrá tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves og er 30 eininga

(ECTS) lokaverkefni til MA prófs í hagnýtri menningarmiðlun á Hugvísindasviði við

Háskóla Íslands.

Ég vil þakka leiðbeinanda mínum Höllu Kristínu Einarsdóttur fyrir að hafa haft trú

á verkefninu og fyrir gott samstarf meðan á vinnuferlinu stóð. Ég vil líka þakka

Ármanni Gunnarssyni fyrir aðstoð við undirbúning fyrir tökur myndarinnar og

Sumarliða Ísleifssyni fyrir hjálp og stuðning við frágang greinargerðarinnar.

Þessi mynd hefði aldrei orðið jafn ítarleg og efnismikil án dyggrar aðstoðar og því

vil ég sérstaklega þakka þeim Viðari Garðarssyni, Sigríði Rut Marrow og Atla Tý

Ægissyni sem veittu mér ómælda aðstoð við tökur myndarinnar, án þeirra hefði ég ekki

komist í gegnum heila viku af tökum frá morgni til kvölds.

Ég vil þakka 12 Tónum, Lucky Records, KEX Hostel, Bíó Paradís og Elliheimilinu

Grund fyrir að opna fyrir mér dyrnar og gefa mér færi á að taka upp þá listamenn sem

komu þar fram. Ég vil þakka öllum þeim listamönnum sem koma fram í þessari mynd í

tónum og tali. Án þeirra væri þessi mynd ekkert. Útvarpsstöðin KEXP fær þakkir fyrir

að senda mér hljóðupptökur til að nota við lokafrágang myndarinnar.

Ég vil þakka öllum þeim sem veittu mér viðtöl og alveg sérstaklega þeim Grími

Atlasyni og Lucy Hill hjá Iceland Airwaves fyrir að veita mér góða innsýn inn í hið

mikla og flókna ferli sem býr að baki öllum undirbúningi hátíðarinnar.

Sérstakar þakkir fá allir þeir sem lögðu hönd á plóginn og komu að gerð

myndarinnar, og þá sérstaklega samnemendur mínir í Hagnýtri menningarmiðlun og

kennarar. Framleiðsla og gerð þessarar heimildarmyndar er eitt erfiðasta og mest

krefjandi verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur og án góðrar aðstoðar hefði þetta

verið óyfirstíganlegt.

Að lokum vil ég þakka fjölskyldu minn, Eddu Rún Ólafsdóttur, Nönnu Júlíu

Jóhannsdóttur og Atla Hrafni Jóhannssyni fyrir stuðninginn og þolinmæðina þann langa

tíma sem þetta verk hefur verið í framkvæmd. Ég vil einnig þakka systur minni,

Berglindi Jóhannsdóttur fyrir að hjálpa til við framleiðslu myndarinnar og veita

verkefninu ómetanlega innspýtingu í þessari löngu og lærdómsríku vegferð en þetta er

búið að vera magnað ferðlag!

Page 6: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

4

Efnisyfirlit

1. Inngangur .................................................................................................................. 5

2. Kynning á ritgerð og heimildarmynd ....................................................................... 8

2.1 Efniságrip myndarinnar .................................................................................... 9

2.2 Aðferðafræði: Markmið með mynd og ritgerð ............................................... 13

3. Hugmynd kviknar og heimildarmynd verður til ..................................................... 18

3.1 Handrit og uppbygging ................................................................................... 22

3.2 Gerð myndar: Undirbúningur, framkvæmd og eftirvinnsla............................ 24

3.3 Markhópur og markaðssetning myndarinnar .................................................. 30

4. Heimildarmyndir: Greining á stíl og stefnu ............................................................ 31

4.1 Heimildarmynd sem miðlunarleið .................................................................. 33

4.2 Raddir heimildarmynda .................................................................................. 34

4.3 Rockumentary ................................................................................................. 39

4.4 Hvernig mynd? ............................................................................................... 40

5. Iceland Airwaves í stuttu mál ................................................................................. 44

5.1 Markmið, markaðssetning og markhópar Iceland Airwaves .......................... 49

6. Off Venue: Mikilvægi og breyttar áherslur ............................................................ 52

7. Fræðilegur þáttur .................................................................................................... 61

8. Niðurstöður ............................................................................................................. 72

9. Lokaorð ................................................................................................................... 74

Frá höfundi ..................................................................................................................... 77

Heimildaskrá ................................................................................................................... 78

Aðrar heimildir ............................................................................................................... 84

Viðaukar ......................................................................................................................... 85

Page 7: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

5

1. Inngangur

Even the most perfect reproduction of a work of art is lacking in one element: its presence in time

and space, its unique existence at the place where it happens to be.

-Walter Benjamin, (1999, 220)

Iceland Airwaves 2016 fór fram dagana 2. til 6. nóvember, eða öllu heldur hin formlega

aðaldagskrá hátíðarinnar. Hliðardagskráin, Off Venue Iceland Airwaves, hófst

mánudaginn 31. október og stóð í heila viku, eða allt fram á sunnudaginn 6. nóvember.

Heimildarmyndin Off Venue – Tónlist tónlistarinnar vegna var tekin upp í tengslum

við þessa dagskrá og fellur í flokk heimildarmynda sem fjalla um tónlist og tengd

málefni og er því tónlistarheimildarmynd (e. Rockumentary). Viðfangsefnið er hátíðin

innan hátíðarinnar, allir þeir fjölmörgu tónleikar sem eiga sér stað á mörgum stöðum

sem taka þátt í tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves en eru þó ekki tónleikastaðir í

hefðbundnum skilningi heldur verslanir, veitingastaðir, opinber rými eða stofnanir.

Óhætt er að segja það hér strax í upphafi að verkefnið varð viðameira og stærra heldur

en reiknað var með í upphafi en myndin birtir sýn kvikmyndagerðarmannsins og

upplifun þeirra sem koma að hliðardagskránni.

Off Venue - Tónlist tónlistarinnar vegna er tekin upp á vettvangi en byggir einnig á

viðtalsforminu. Markmiðið með myndinni er að varpa ljósi á þann tilgang sem Off

Venue þjónar en þar erum við komin að kjarna ritgerðarinnar og myndarinnar. Myndin

inniheldur mörg viðtöl sem voru tekin meðan á Airwaves stóð, bæði við íslenskt og

erlent tónlistarfólk sem og fólk úr tónlistarlífinu. Myndin veitir áhorfendum fræðandi

innsýn inn í þann orkumikla og töfrandi heim sem hliðardagskrá tónlistarhátíðarinnar

Iceland Airwaves hefur að geyma. Hér er á ferðinni lifandi heimild um þetta mikilvæga

hliðarsjálf sem fylgt hefur hátíðinni lengi. Off Venue er spennandi vettvangur sem

býður upp á tónlist á óhefðbundnum tónleikastöðum og eykur umfang og sérstöðu.

Hliðardagskráin, sem oftast er bara kölluð Off Venue í daglegu tali, gefur

tónleikagestum tækifæri til að upplifa tónlist að degi til í verslunum, kaffihúsum og

öðrum skemmtilegum rýmum þar sem hægt er að vera í meira návígi við tónlistarfólkið

sér að kostnaðarlausu.2

Heimildarmyndin sem og þessi ritgerð fjalla á opinn og einlægan hátt um Off

Venue á Airwaves. Fræðilegi þátturinn er líka til staðar en ég vil líta á myndina sem

2 Í ritgerðinni verður ýmist notast við Off Venue eða hliðardagskrá.

Page 8: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

6

lifandi rannsóknarplagg sem skapar vitnisburð um þetta merkilega fyrirbæri sem Off

Venue 2016 var einmitt á þeim tímapunkti sem dagskráin var sem umfangsmest.

Markmiðið er að sýna hvort og hvernig Off Venue er mikilvægt fyrir listafólk og lífið í

borginni á þeim tíma sem Iceland Airwaves fer fram. Að fjalla um tilgang og eðli Off

Venue dagskrár á Iceland Airwaves hátíðinni sem er án nokkurs vafa stærsta og

þekktasta tónlistarhátíð landsins.

Á þessum síðum mun ég fjalla um gerð myndarinnar. Ég mun fjalla um viðburðinn,

sögu hans og benda á þann eðlislæga mun sem er að finna á aðaldagskrá og Off Venue,

en í stuttu máli er um að ræða tónleika í verslunum, öldurhúsum, bókasöfnum sem og

öðrum rýmum sem bjóða dagsdaglega ekki upp á tónlistaratriði. Sá fjöldi tónleika sem

fór fram á Off Venue 2016 er lýsandi dæmi um þann fjölbreytileika sem einkennir

íslenskt tónlistarlíf og sýnir Reykjavík í skýru ljósi sem vettvang sem býður upp á

einstaka upplifun.

Off Venue hefur verið ómissandi þáttur Iceland Airwaves hátíðarinnar undanfarin

ár og er frábær vettvangur fyrir listafólk til að koma sér á framfæri. Hér er einnig

einstakt tækifæri fyrir þá sem eiga ekki miða á hátíðina til að upplifa íslenska tónlist og

ferðamönnum býðst hér sértækur vettvangur til að nýta tímann sinn frá morgni til

kvölds til að sjá og heyra tónlist og upplifa nýja hlið á Reykjavík. Off Venue er þegar

öllu er á botninn hvolft mikilvægur hluti af þeirri upplifun sem fylgir þessari

gróskumiklu hátíð og endurspeglar vel kraftinn í íslensku tónlistarlífi.

Uppbygging ritgerðarinnar er með þeim hætti að í öðrum kafla er efnið kynnt

ýtarlega og tekið er fyrir efniságrip myndarinnar og aðferðafræðilegir þættir.

Þriðji kafli fjallar um verkefnið og hugmyndina, handritagerðina og uppbyggingu

Off Venue – Tónlist tónlistarinnar vegna og svo gerð myndarinnar og eftirvinnslu.

Fjórði kafli fjallar um miðlunarleiðina, heimildarmyndaformið, raddir

heimildarmynda út frá kennisetningum og greiningu Bill Nichols á því frásagnarformi

sem myndin styðst við. Þar staðset ég Off Venue – Tónlist tónlistarinnar vegna innan

formsins. Miðlun útskýrð og rædd í fræðilegu ljósi.

Í fimmta kafla verður farið stuttlega í gegnum sögu Iceland Airwaves og sagt frá

stöðu hátíðarinnar og þeirra áhrifa sem hún hefur á íslenskt tónlistarlíf.

Sjötti kafli tekur fyrir áhrif og mikilvægi Off Venue og breytingar á áherslum milli

ára eru ræddar.

Page 9: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

7

Sjöundi kafli fjallar um efnið út frá fræðilegum forsendum viðburðarstjórnunar- og

menningarfræða þar sem rætt er um viðburði og skapandi greinar. Í áttunda kafla er

rannsóknarspurningum svarað og fjallað um þær. Fræðilegur hluti ritgerðarinnar tekur

fyrir miðlunarleiðina þar sem farið verður í gegnum hlutverk og gerðir heimildarmynda

á fræðilegan hátt. Menningarfræðilegur þáttur tónlistarhátíða og hlutverk verða skoðuð

og sett í samhengi við hagræn áhrif skapandi greina með tilliti til framtíðar og breytinga

á stöðu Off Venue á Iceland Airwaves.

Í lokahluta ritgerðarinnar dreg ég saman efnið og framkvæmdina. Þar mun ég

einnig ræða þær breytingar sem hafa orðið á rekstri hátíðarinnar. Myndin varpar ljósi á

gildi og fjölbreytni íslenskrar tónlistar og veltir upp hvers virði það er að hafa

kraftmikla Off Venue dagskrá meðfram hefðbundinni dagskrá en með nýjum

rekstraraðilum hefur þessi dagskrárliður verið endurskilgreindur og honum breytt.

Page 10: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

8

2. Kynning á ritgerð og heimildarmynd

Í þessari ritgerð er gerð heimildarmyndarinnar Off Venue – Tónlist tónlistarinnar vegna

til umfjöllunar. Rætt er um markmiðið með framleiðslu myndarinnar, fjallað um

miðlunarleiðina og efnið greint út frá fræðilegu sjónarhorni. Sagt er frá hugmyndinni að

baki myndinni, efnið krufið og fjallað um undirbúning, gerð og eftirvinnslu

myndarinnar. Vinnu við handritið er lýst auk þess sem ég ræði þá sýn sem lagt var upp

með við gerð myndarinnar, þá afurð sem eftir stendur og það sem á eftir að gera til að

fullklára myndina sem og framtíðaráform.

Þau meginmarkmið og rannsóknarspurningar sem leitast er eftir að svara í

ritgerðinni og koma einnig fram í myndinni, veita áhorfendum innsýn inn í þennan kima

tónlistarlífsins. Í myndinni má heyra raddir þátttakenda ræða um Off Venue, áhrif þess

og menningarlegt mikilvægi fyrir hlutaðeigandi aðila (skipuleggjendur,

Reykjavíkurborg og tónlistargeirann) og á hvaða hátt það er þeim mikilvægt að taka þátt

í hliðardagskránni.

Á þessum síðum er farið yfir þau markmið sem lagt var upp með, að skoða Off

Venue á Iceland Airwaves, að fjalla um það sem liggur þar að baki og hvernig það

eykur heildarupplifun þátttakenda, ásamt því að ræða hvort tekist hafi að finna svör við

tvíþættri rannsóknarspurningunni sem liggur til grundvallar um gildi og mikilvægi Off

Venue fyrir tónlistarlífið:

a) Er Off Venue mikilvægt og hvernig þá?

b) Er þörf fyrir þennan hliðarvettvang og hverjum þjónar hann?

Til að svara þessum spurningum nýti ég mér viðtöl sem ég tók við gerð

myndarinnar auk þess sem ég styðst við ýmsar heimildir og eigin reynslu. Rætt var við

handvalinn hóp viðmælenda til að heyra álit þeirra á hliðardagskránni og aðkomu þeirra.

Viðtölin voru opin en stuðst var við spurningalista í ákveðnum tilvikum. Viðtölin við

þátttakendur varpa ákveðnu ljósi á stöðuna en í sjálfri myndinni koma aðeins fyrir

stuttar klippur úr þeim enda ekki ætlast til að myndin sem slík svari þessum

spurningum. Tilgangur myndarinnar, líkt og komið hefur fram, er að vera lifandi

heimild um vettvanginn og tónlistina, veita innsýn inn í þennan hliðarsal Airwaves, árið

sem hliðardagskráin flaug sem hæst, og sýna spennandi listafólk koma fram á

hliðardagskrá tónlistarhátíðar sem leggur metnað sinn í að vera í fremstu röð.

Page 11: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

9

2.1 Efniságrip myndarinnar

Í stuttu máli er tilgangur með gerð myndarinnar Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

vegna að gera kvikmynd um ákveðinn kima tónlistarlífsins á Íslandi. Veita áhorfendum

innsýn í þennan heim sem stendur öllum opinn og dreifist um alla borgina á meðan

tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fer fram. Markmiðið er að sýna fjölbreytt íslenskt

tónlistarlíf, kraftinn og samheldnina í senunni sem einkennir hliðardagskrá Iceland

Airwaves og í leiðinni útskýra hvernig fyrirbærið Off Venue er mikilvægt tónlistarfólki

og tónlistarsenunni.

Myndin sýnir að einhverju leyti gróskuna í íslensku tónlistarlífi á Iceland Airwaves

2016 og er heimild um íslenska tónlist eins og hún birtist höfundi á þeirri stundu sem

myndin er tekin. Viðmælendur er hægt að flokka í þrjá hópa en rætt er við

tónlistarfólkið sem kemur fram, skipuleggjendur hátíðarinnar og Off Venue-viðburða,

og að lokum sérfræðinga í tónlistartengdum málefnum, bæði innlenda og erlenda. Ljósi

er þannig varpað á hina ólgandi deiglu sem Off Venue er og þá fjölbreyttu tónlist sem

þar má heyra og upplifa í mikilli nálægð við þá sem hana flytja.

Skipta má myndinni gróflega upp í þrjá hluta:

1. Upphaf: Efnið kynnt, viðtöl við Grím og Lucy og sýnt frá Pylsuvagninum, Grund

og Smekkleysu.

2. Miðja: Farið er inn á þá staði sem eru í brennidepli en það eru 12 Tónar, KEX

Hostel, og Lucky Records. Sýnt er frá tónleikum og rætt við tónlistarfólk, tengiliði

þessara staða og tónlistarsérfræðinga.

3. Lokakafli: Viðtöl og tónlist úr Bíó Paradís. Efnið er dregið saman þar sem klippt

eru saman stutt svör frá viðmælendum sem áður hafa birst í myndinni og svo er

endað á því að sýna umfang dagskrárinnar myndrænt undir hressum tónum.

Ítarlegt efniságrip myndarinnar í sjö hlutum:

i. Í upphafi myndarinnar er sýnt frá Bæjarins bestu pylsum og rætt við

staðarhaldara, Skúla Þórðarson um hvað sé þar að gerast. Þarna er sleginn

tónninn fyrir því hversu óvenjulegt Off Venue getur verið og hversu mikinn svip

það setur á bæjarlífið en á meðan rætt er við Skúla má heyra óminn frá

Page 12: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

10

Karlakórnum Esju syngja af hjartans list. Það var í raun algjör tilviljun að þetta

skemmtilega augnablik með kórnum náðist á filmu og að Skúli hafi verið á

staðnum en hann var virkilega góður viðmælandi, skýr og skemmtilegur.

ii. Þessu er svo fylgt eftir með viðtali við Grím Atlason, sem gegndi stöðu

framkvæmdarstjóra Iceland Airwaves frá 2010 til 2018 (Kolbeinn Tumi

Daðason, 2018a). Grímur færir áhorfendum haldbærar upplýsingar um þetta

fyrirbæri sem er til umfjöllunar á greinargóðan hátt og nær að lýsa í fáum orðum

hversu viðamikil og stór þessi hliðardagskrá er orðin.

iii. Næst er farið inn á elliheimilið Grund og fylgst með töfrandi augnabliki þegar

Soffía Björg og Boogie Trouble leika fyrir heimilisfólkið ásamt gestum sem

koma víða að og meðal annars frá einum af leikskólum borgarinnar. Þar er rætt

við æskulýðsfulltrúa elliheimilisins, Sr. Pétur Þorsteinsson, sem segir frá því

hvernig þetta kom til og bendir á að þarna sé tónninn sleginn fyrir því sem koma

skal á fjölbreyttu Off Venue Iceland Airwaves.

iv. Næst tekur til máls Lucy Hill sem er sá starfsmaður Airwaves sem var ábyrgur

fyrir skipulagi og framkvæmd Off Venue-dagskrár hátíðarinnar. Viðtalið teygist

inn á okkar næsta vettvang sem er Smekkleysa Plötubúð þar sem hljómsveitin

Andy Svarthol leikur fyrir gesti. Sveitin var ansi ný af nálinni þarna um haustið

og lék þrenna Off Venue tónleika en kom ekki fram á aðaldagskrá hátíðarinnar.

Viðtal við David Fricke fylgir þar fast á eftir og er það stór þáttur í myndinni

enda um að ræða þungavigtarmann í tónlistarumfjöllun í heiminum í dag og

aðila sem hefur átt stóran þátt í að kynna íslenska tónlist á erlendri grundu. Þegar

því viðtali lýkur færumst við yfir í 12 Tóna og þá er fyrsta hluta myndarinnar

lokið.

v. Miðhluti frásagnarinnar er tengdur 12 Tónum, Kex Hostel, og Lucky Records.

Hér er að finna mikið af tónlist og mörg viðtöl. Mannfræði vettvangsrannsóknin

og ethnógrafíu vínkillinn er áberandi og nálægð kvikmyndagerðarmannsins er

augljós. Tónlistin spilar stórt hlutverk í þessum hluta, hún er fjölbreytt og gefur

innsýn inn í gróskumikið og iðandi tónlistarlíf. Hér má heyra allt frá hreinasta

poppi Hildar, rokk að hætti Mammút, blúsrokk og þjóðlagatónlist The Barr

Brothers, nýbylgjurokk, pönk og til hávaðarokks að hætti ROHT.

Page 13: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

11

Í miðhlutanum eru viðtöl við Lárus Jóhannesson eiganda 12 Tóna sem veitir

áhorfendum innsýn inn í sögu verslunarinnar sem þátttakanda á Off Venue

Airwaves. Í 12 Tónum er líka rætt við Arnar Eggert Thoroddsen

tónlistarblaðamann sem fer aðeins yfir sögu hátíðarinnar og Off Venue. Einnig

er rætt við Hildi, Justin West eiganda Secret City Records frá Kanada, Juliette

Devert starfsmann Secret City Records og The Barr Brothers (Andrew Gilmore

Barr og Philip Bradford) sem eru á mála hjá Secret City Records og komu fram

á tíu ára afmæli útgáfunnar sem haldið var í 12 Tónum.

Frá 12 Tónum er haldið á Kex Hostel sem er tvímælalaust einn vinsælasti

Off Venue staðurinn en þar er rætt við Benedikt Reynisson sem þá var

viðburðastjórnandi á Kex. Einnig er rætt við Alexöndru Baldursdóttur og

Katrínu Mogensen úr Mammút sem léku í beinni útsendingu hjá KEXP sem

sendir út frá Kex Hostel. Einnig er rætt við Cheryl Waters sem er

dagskrárgerðarmaður hjá KEXP og Moji Abiola úr Moji & The Midnight Sons.

Næst er farið yfir í Lucky Records þar sem fylgst er með Epic Rain, ROHT,

Börnum, Drekka og Saktmóðigi. Þarna er viðtal við Dr. Gunna (Gunnar

Hjálmarsson) sem þekkir Airwaves vel, bæði sem tónlistarmaður, blaðamaður

og rithöfundur og svo einnig sem starfsmaður hátíðarinnar en auk þess er rætt

við Ingvar Geirsson eiganda Lucky, Þóri Georg og Júlíu Aradóttur úr ROHT,

Jóhannes Birgi Pálmason úr Epic Rain og Michael Anderson úr Drekka.

vi. Loka hlutinn hefur að geyma efni frá Bíó Paradís. Rætt er við Loja Höskuldsson

úr hljómsveitinni WESEN og sýnt frá tónleikum með þeim og Mikeal Lind.

Einnig er rætt við Thomas Morr, útgefanda og eiganda Morr Music. Þarna koma

líka margir af viðmælendunum aftur fyrir með eitt gott lokasvar eða

skemmtilega athugasemd áður en botninn er sleginn í myndina.

vii. Á þessum tímapunkti hef ég ákveðið að gera nokkuð stílhreinan endi. Margar

hugmyndir hafa kviknað í vinnsluferlinu en í dag trúi ég því að þessi leið passi

best við það upplegg sem ég hef nú þegar klippt og lýsi hér að framan. Lengi

hafði ég hugsað mér að segja frá breytingunum á rekstri hátíðarinnar á

textaskiltum í afar stuttu máli en ég tel að það sé skemmtilegra að enda myndina

bara á jákvæðum nótum og flækja ekki hlutina, hafa þetta mynd sem gerist 2016.

Page 14: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

12

Tekið skal fram að ekki var leitast eftir því að fá inn sjónarhorn þeirra sem kunna

að vera andsnúnir þessum fylgifisk hátíðarinnar né voru viðtöl við áhorfendur notuð

sem lýstu þeirra upplifun eða skoðun á hliðardagskránni. Það var vissulega skoðað, og

prófað að ræða við áhorfendur en það efni þjónaði ekki þeim markmiðum sem lagt var

upp með við gerð myndarinnar.

Að lokum er rétt að slá smá fyrirvara. Hér er að sjálfsögðu ekki að finna að nokkru

leyti tæmandi úttekt á öllum þeim stílum og allri þeirri fjölbreytni sem er að finna í

íslensku tónlistarsenunni. Vissulega er sýnt frá flottu listafólki en það er bara brotabrot

af öllum þeim sem komu fram á þeim fjölmörgu stöðum sem tóku þátt í

hliðardagskránni. Það er engu að síður mín von að úrtakið gefi innsýn í þennan heim og

það sem er svo heillandi við hann.

Page 15: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

13

2.2 Aðferðafræði: Markmið með mynd og ritgerð

Að gera heimildarmynd á vettvangi krefst undirbúnings og aga, ásamt þekkingu á

aðstæðum. Rannsóknaraðferðin og nálgun byggir sumpart á aðferðafræði mannfræði,

sagnfræði og vettvangsrannsókna. Réttmæti rannsóknar sem beitir fyrir sér verkfærum

eigindlegra rannsókna við gagnaöflun er oft flókið að meta en það er þó nauðsynlegt að

hafa í huga og leggja mat á slíkt því það vill oft gleymast.

Þessi kafli fer yfir þá þætti sem snúa að framkvæmd og öflun gagna á vettvangi.

Greint verður frá rannsóknaraðferð og heimildaöflun. Þar sem viðtalsforminu er beitt

flokkast rannsóknin undir eigindlega rannsókn sem er alveg sérstök leið til að skilja

heiminn út frá upplifun einstaklinga, út frá þeirra eigin reynslu og faglegu þekkingu

(Kvale, 2010).

Viðmælendur voru fengnir til að taka þátt í verkefninu með ýmsum hætti; hringt var

í fólk, sendir voru tölvupóstar auk þess sem viðmælendur voru heimsóttir og útskýrt

fyrir þeim hvað stæði til. Flestir þeir tónlistarmenn sem rætt er við voru fangaðir á

vettvangi í hita leiksins en það reyndist auðvelt að fá fólk til að taka þátt í verkefninu.

Hentugleikaaðferð var beitt við val á viðmælendum. Viðmælendur koma úr tveimur

hópum eða þýðum sem hægt er að nefna, „íslenskur tónlistarmarkaður“ og „erlendur

tónlistarmarkaður“.

Í leit að svari varðandi mikilvægi Off Venue á Iceland Airwaves fyrir tónlistarfólk,

lífið í borginni og nær umhverfi ræddi ég við fólk sem ýmist var undirbúið undir að ég

myndi ræða viðfangsefnið við það eða ekki. Það gerðist oft að viðtöl voru tekin með

litlum fyrirvara en það átti sérstaklega við þegar álits var leitað hjá listamönnum sem

voru kvikmyndaðir á sviði og rætt við þá eftir tónleika. Þessir einstaklingar voru

óundirbúnir fyrir viðtal en fengu ávallt stutta kynningu á umræðuefninu áður en viðtalið

hófst og það er gaman frá því að segja að engin skoraðist undan því að taka þátt eftir að

hafa fengið að heyra um hvað átti að ræða.

Áreiðanleiki og traust á aðferðum rannsakanda þarf að hafa að leiðarljósi og sem

eitt af markmiðum til að rannsókn geti talist réttmæt. Það verður að vera hægt að

endurtaka rannsóknina með sömu fræðasýn, í sömu aðstæðum og út frá sömu gögnum

og blæbrigði hennar þurfa að vera skýr. Tryggja þarf áreiðanleika og framsetningu þess

efnis sem leiðir til niðurstöðu til að koma í veg fyrir innbyggða skekkju (Sigríður

Halldórsdóttir og Sigurlína Davísdóttir, 2016). Þessir þættir sem hér eru tíundaðir eiga

jafnvel við heimildarmyndir og réttmæti þeirra upplýsinga sem þar koma fram og

Page 16: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

14

rannsóknarniðurstöður í samhengi rannsókna. Heimildagerðarmenn verða að virða þessa

hugmyndafræði ef markmið þeirra er að endurspegla sannleikann og vera trúir því sem

gerist á vettvangi og þeim skoðunum viðmælenda sem þeim er trúað fyrir.

Sigríður og Sigurlína benda á í grein sinni í Handbók um aðferðafræði (2016) á

fimm grundvallarspurningar Eisenhart og Howe sem nýtast vel til að leggja mat á gæði

og hlutleysi í eigindlegum rannsókn en þær eru í megindráttum:

1. Að leggja mat á hversu gott samræmi sé á milli rannsóknarspurningar,

greiningar og gagnaöflunaraðferðar.

2. Að leggja mat á gagnasöfnun og gagnagreiningu.

3. Greina fyrirliggjandi þekkingu á sviðinu og hvað sé nýtt þekkingarframlag í

þessari rannsókn.

4. Hversu mikilvæg er rannsóknin fyrir viðkomandi svið og hversu vel er að henni

staðið siðferðislega?

5. Hversu góð er rannsóknin í heild sinni?

Þetta eru góð verkfæri til að hafa við höndina enda nauðsynlegt að hafa þessa hluti í

huga til að tryggja trúverðugleika verkefna og innra réttmæti. Til viðbótar má nefna

aðferðir Lincoln og Guba til að auka trúverðugleika sem þær Sigríður og Sigurlína gefa

líka gaum. Þar er meðal annars nefnt mikilvægi þess að gefa sér góðan tíma til að ræða

við fólk og hlusta vel, viðhafa ítarlega athugun á vettvangi, samþætta

rannsóknaraðferðir, leita álits hjá öðrum fræðimönnum og fá samþykki þátttakenda

(Sigríður og Sigurlína, 2016).

Rannsakandi þarf einnig að hafa í huga aðrar aðferðir til að styðja við réttmæti

verkefnis eins og það að halda rannsóknardagbók til að leita í síðar, leggja meðvitað mat

á þátttakendur svo úrtak verði ekki of einsleitt, skoða andstæður og önnur sjónarmið.

Áhrif rannsakandans þarf að þekkja og sér í lagi ef hann kann að hafa sterkar skoðanir á

efninu því þá er líklegt að viðhorf hans hafi áhrif (Sigríður og Sigurlína, 2016) en í

þeirri heimildarmynd sem hér er til umræðu fylgi ég sem kvikmyndagerðarmaður minni

sannfæringu og leyfi höfundareinkennum mínum og sjónarmiðum að hafa áhrif.

Ýmislegt þarf að hafa í huga þegar viðtölum er beitt til að afla gagna. Þátttakendur

og rannsakandi þurfa að hafa sameiginlegan skilning á því sem fer fram og samþykki

þarf að liggja fyrir viðtali og upptökum. Það var tryggt að allir þeir sem rætt var við og

koma fram sem viðmælendur mínir í myndinni veittu skriflegt samþykki fyrir viðtali,

Page 17: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

15

upptöku á því og eftirvinnslu til notkunar í myndinni en upp á ensku nefnist þetta

„Personal Apperance Release“.3

Annað sem rannsakandi þarf að hafa ofarlega í huga eru spyrlaáhrif, lesa úr tjáningu

viðmælanda, hlusta með opnum huga og sýna hluttekningu og áhuga á viðmælandanum.

Hlutverk rannsakandans ber að þekkja, eða í tilfelli heimildarmyndarinnar, hlutverk

spyrjandans og leikstjórans. Hver er hann, hvar liggur reynsla hans, getur hann beitt

viðtalstækni og nýtt sem mælitæki, þekkir hann rannsóknarefnið og hugsar hann

fræðilega (Sigríður og Sigurlína, 2016; Kvale, 2010).

Í tilfelli myndarinnar þá þurfti ég að tjá viðmælendum það að ég ætlaði mér ekki að

láta rödd mína heyrast í viðtölum, að það væri ekki meiningin að spurningar heyrðust í

myndinni nema í undantekningartilfellum. Með þetta í huga þurfti ég að gefa

viðmælendum mínum ákveðnar leiðbeiningar varðandi hvernig svör væru formuð, að ef

hægt væri að koma því við þá væri gott að heyra spurningu umorðaða eða endurtekna í

svari viðmælenda. Þetta gekk stundum upp en oft gleymdist þetta í hita leiksins þegar

samræður voru komnar á flug. Oftar en ekki kom það ekki að sök í eftirvinnslunni þar

sem mér tókst að klippa svörin til. Vissulega voru líka dæmi um hið gagnstæða og efni

varð ónothæft því samhengi vantaði á milli svars og spurningar en það er greinilegt

þegar horft er á myndina að viðmælendur eru að svara spurningum

kvikmyndagerðarmannsins þó svo að áhorfandinn heyri þær oftast ekki bornar fram.

Spurningum er svarað á afslappaðan hátt og það má lesa úr þessu að viðmælendur beri

traust til spyrilsins og viðurkenni návist hans í þessu umhverfi.

Að lokum er gott að koma að því að eigindlegar rannsóknir sem byggja á fámennum

úrtökum eru ekki síður marktækar svo lengi sem þar liggi að baki ákveðin breidd, gæði

gagna sé gott, gagnsöfnun sé skýr og í samræmi við úrtakið til að rannsóknarspurningu

sé svarað trúverðuglega. Bent er á að úrtak þurfi að ná mettun, þ.e. að rannsakandi hætti

að heyra eitthvað nýtt varðandi það sem er verið að rannsaka og í vettvangsrannsóknum

þurfi að jafnaði sex þátttakendur til að því sé náð. Á móti ber rannsakanda að vara sig á

skekkjum sem gætu falist í eftirfarandi atriðum. Úrtakið verði of einsleitt og það

endurspegli ekki þýðið nægilega vel og valdi þar með skekkju eða að hin faglega

fjarlægð bjagast. Skekkja getur einnig myndast ef þægileg fjarlægð á milli rannsakanda

og viðmælenda hverfur. Hætta er á þessu ef rannsakandi þróar of djúpa samkennd með

þeim sem rætt er við í stað þess að viðhalda faglegri fjarlægð sem einkennist af virðingu

3 Sýnishorn má finna í viðauka

Page 18: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

16

og virkri hlustun en á þessu er virkileg hætta í gerð heimildarmynda. Samkennd með

viðfanginu þarf þó ekki að koma að sök í heimildarmynd ef áhrif

kvikmyndagerðarmannsins á umhverfið og rannsóknarefnið eru þegar viðurkennd.

Þegar öllu er á botninn hvolft byggist trúverðugleikinn á getu rannsakandans

(kvikmyndagerðarmannsins) til að setja fram niðurstöður sínar og á gæðum þeirra

röksemdarfærslna (framvinda myndar) sem þar búa að baki (Sigríður og Sigurlína,

2016; Nichols, 2001).

Vettvangsrannsóknir eru mikið nýttar í mannfræðirannsóknum, félagsfræðilegu –

og menningarlegu samhengi, og þær krefjast gjarnan mikils undirbúnings og reyna

mikið á þá sem þær stunda. Þessi aðferð veitir gjarnan djúpa innsýn í reynsluheim þeirra

sem eru til skoðunar og á samhjóm með heimildarmyndagerð. Samskipti rannsakanda

og viðfangsins þurfa að vera góð, skilningur þarf að ríkja á líðan og starfi fólks sem er

verið að rannsaka. Álitamál geta komið upp er varða siðferði og rannsakandi þarf að

þróa með sér færni til að aðskilja persónu sína frá rannsókninni en vettvangsrannsóknir

byggja oft á þátttöku í lífi þeirra sem fylgst er með og er það í raun bæði styrkleiki og

veikleiki aðferðarinnar. Vettvangsrannsóknir eru einnig oft kallaðar etnógrafískar

vettvangsrannsóknir sem vísar til samsetningar úr orðunum menningarhópur (ethno) og

skrifa (graphy). Þær fela í sér mikil tengsl á milli þess sem rannsakar og viðfangsefnis

rannsóknarinnar, þátttöku í ákveðnu samfélagi til að skilja afstöðu þeirra sem fjallað er

um en aðferðin felur í sér heildræna nálgun með skráningu og túlkun á niðurstöðum

(Kristín Loftsdóttir, 2016).

Að endingu vil ég koma inn á persónu mína og persónulega reynslu af því sem er

hér til umfjöllunar. Myndin, sem og þessi greinargerð miðla sýn minni á efninu sem ég

þekki vel í gegnum störf mín í tónlistargeiranum á Íslandi sem ná allt frá árinu 1992 til

dagsins í dag. Ég hef unnið í plötuverslunum, útgáfufyrirtækjum, starfað sem

umboðsmaður, haldið tónlistarhátíðir og unnið hjá Iceland Airwaves. Ég hef aldrei misst

af hátíð frá því að Iceland Airwaves var haldin fyrst í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli

árið 1999 (Iceland Airwaves, 2019). Þar sem ég bý yfir mikilli reynslu úr tónlistarlífinu

og þekki bransann vel og þátttakendur var mér vel tekið þegar ég leitaði eftir viðtölum

og líka þegar ég leitaði eftir samþykki fyrir því að taka upp efni á hinum ýmsu stöðum.

Sú nálgun sem beitt er í myndinni byggir á nærveru minni og að mín persónulega

reynsla, nálægð og þekking skipti máli og sé efninu mikilvæg stoð í því að framleiða

þekkingu og ákveðna sýn á efninu.

Page 19: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

17

Það er mitt mat að mikilvægt traust hafi verið til staðar á milli mín og viðmælenda

minna þar sem við deilum sameiginlegum reynsluheimi og að viðmælendur vissu oftast

hver ég var að fyrra bragði. Aðkoma persónu minnar og reynslu sem rannsakanda á í

þessu samhengi líka margt sameiginlegt með einkennum femínískra rannsókna þar sem

reynsla, upplifun og eigin rödd mynda rannsóknarhefð sem er valkostur við hefðbundna,

tilfinningalausa og ópersónulega rannsóknarhefð sem einkennir hefðbundnar

vísindarannsóknir (Rannveig Traustadóttir, 2016). Spyrlar þurfa að vera forvitnir um þá

sem rætt er við en þeir þurfa líka að vera nærgætnir og vera gagnrýnir á sitt eigið atgervi

og ályktanir (Kvale, 2010). Til að ná fram þeim upplýsingum sem leitast er eftir þurfa

spyrlar að fá viðmælendur til að opna sig, treysta og svara spurningum á afslappaðan

hátt en til þess þarf traust og einlæg samskipti sem byggja á jafningja grunni þar sem

tveir einstaklingar hittast og eiga í upplýstum samskiptum (Kvale, 2010).

Viðmælendur voru allir tengdir við hljóðnema, myndavélinni stillt upp og því næst

voru þeir spurðir að 10 til 15 spurningum en nokkrar spurninganna voru í mörgum

liðum. Öll viðtöl sem nýtt eru hér í ritgerðinni voru skrifuð upp.

Eins og gjarnan þegar vettvangsrannsóknir eiga í hlut þá byggja formleg viðtöl

oftast á opnum spurningum þar sem rannsakandi hefur til taks margar hugsanlegar

spurningar sem hann ætlar sér að leggja fyrir viðmælandann en það getur haft þær

afleiðingar í för með sér að viðtalið fer í gagnstæða átt eða skilar öðrum svörum, en

stefnt var að í upphafi. Val á viðmælendum er hér líka mikilvæg breyta og eins og

Kristín Loftsdóttir bendir á í kafla sínum um vettvangsrannsóknir í Handbók um

aðferðafræði þá velja sumir viðmælendur sig sjálfir með því að gefa frekar færi á

upplýsingum en annað fólk (Kristín Loftsdóttir, 2016). Að lokum er gott að hafa orð á

því að eigindlegar rannsóknir geta aldrei verið fullkomnar en virða þarf þá kröfu um að

vísindalegt framlag sé til staðar, að efninu séu gerð sönn og góð skil (Kvale, 2010).

Page 20: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

18

3. Hugmynd kviknar og heimildarmynd verður til

Það var í ágúst 2016 sem hugmyndin kviknaði um að gera heimildarmynd um Off

Venue á Iceland Airwaves. Ég var heillaður af hugmyndinni og byrjaði strax að leita

leiða til að fanga efnið. Ég hef lengi verið viðriðinn íslenska tónlist á einn eða annan

hátt eins og áður hefur komið fram, en mig hefur langað að breyta aðkomu minni að

tónlistarlífinu og því hóf ég meðal annars nám í hagnýtri menningarmiðlun.

Í þessu umfjöllunarefni kom ég auga á kima sem ég þekki vel en hefur lítið verið

fjallað um í öðru samhengi en í stuttum fréttum af hátíðinni. Hliðardagskráin hafði hins

vegar verið ört stækkandi þáttur af Airwaves sem þjónaði bæði mikilvægum og

margvíslegum tilgangi fyrir tónlistarfólk og gesti hátíðarinnar sem og Reykjavíkurborg.

Grímur Atlason (2016) bendir á að Off Venue sé í stuttu máli hliðardagskrá hátíðarinnar

sem á sér stað á daginn og fram á kvöld í Airwaves-vikunni. Dagskrá sem á sér oftar en

ekki stað á óhefðbundnum stöðum, eins og í verslunum, minni börum sem ekki taka þátt

í aðaldagskrá og jafnvel á elliheimilum (eins og sjá má í myndinni).

Árið 2016 var slegið met í framboði á tónleikum á Off Venue en tónleikar voru 821

talsins, frá mánudegi til sunnudags, en tónleikar á sjálfri hátíðinni voru í kringum 260

frá miðvikudegi til sunnudags.4 Á þessum fjölda viðburða má greina mikinn uppgang í

tónlistarlífinu en þessi hluti af dagskrá hátíðarinnar er í huga margra orðinn ómissandi

þáttur af upplifuninni sem fylgir þessari gróskumiklu hátíð (Lárus Jóhannesson, 2016;

Lucy Hill, 2016).

Aðkoma mín og áhugi á verkefninu er í raun þríþættur. Í fyrsta lagi vildi ég gera

efninu skil sem lokaverkefni í námi mínu í hagnýtri menningarmiðlun. Þarna fannst mér

ég hafa einstakt tækifæri til að fjalla um áhugavert efni í formi heimildarmyndar og

beita til þess þeim tækjum, tækni og tólum sem ég hafði aðgang að í náminu. Í öðru lagi

kem ég að efninu sem einlægur tónlistaraðdáandi sem þekkir vel til tónlistarlífsins á

Íslandi og hefur fylgst með íslensku tónlistarsenunni um árabil. Ég fann mikinn

samhljóm í orðum Dr. Christina Ballico sem er ástralskur tónlistarfræðimaður en hún

segir tónlistaraðdáendur vel í stakk búna til að gera sögum tónlistarfólks skil og þannig

uppfylla þeir vel þau skilyrði og hlutverk tónlistarheimildarmynda um að segja frá því

sérstaka og fágæta í tónlistarlífinu (Ballico, 2012).

4 Sjá viðauka – Dagskrá Off Venue 2016

Page 21: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

19

Í þriðja lagi hef ég yfir 25 ára reynslu úr tónlistargeiranum á Íslandi sem er

einstakur kostur. Ég bý yfir góðum samböndum sem gerði mig vel í stakk búinn til að fá

viðtöl við tónlistarfólk og fá leyfi til að taka upp á þeim stöðum sem sýnt er frá í

myndinni. Staða mín sem innherji og áhugi sem tónlistaraðdáandi veitti mér góða

innsýn auk þess sem ég bjó að reynslu í gegnum störf hjá Iceland Airwaves árið 2010

sem tengiliður við íslenska listamenn, og sem útgáfu- og kynningarstjóri hjá 12 Tónum

þar sem undirbúningur og skipulagning Off Venue-tónleika var meðal verkefna minna.

Þegar lagt var af stað í tökur var hugmyndin vel mótuð og markmið nokkuð skýr.

Ég gat undirbúið mig og hópinn minn sem var mér til halds og trausts vel og ákveðið

verklag okkar á milli. Aðstoðarfólkið mitt, sem samanstóð af þremur samnemendum

mínum úr menningarmiðlun, vissi þannig hvað átti að gera á hverjum stað og eftir

hverju ég var að leita. Dagsplanið var ávallt nokkuð vel undirbúið en það átti það til að

breytast þegar á hólminn var komið en það var alltaf á hreinu hvar við ætluðum að vera,

hvað átti að taka upp á hverjum stað og við hverja var stefnt að ræða en viðtöl á

tónleikum voru oftast bókuð jafnóðum, annað hvort fyrir eða eftir að tónleikum lauk.

Í fyrstu drögum sem ég lagði fyrir leiðbeinanda minn langaði mig að hafa

sögumann og hafði uppi hugmyndir um að velja í hlutverkið Lucy Hill, starfsmann

Iceland Airwaves og umsjónarmanns Off Venue-dagskránnar. Eftir að hafa átt fund með

Lucy sá ég að hún hentaði ekki til að miðla þeirri sýn sem mig langaði að draga fram og

þar að auki þótti mér erfitt að hafa myndina alla á ensku en Lucy er frá Englandi. Ég

settist því niður og dró upp nýtt skipulag fyrir framvindu myndarinnar. Í eitt augnablik

var ég kominn í hlutverk sögumannsins en nokkrar ástæður eru fyrir því að ég gat ekki

sætt mig við þá leið og varð hún því ekki fyrir valinu. Í fyrsta lagi fannst mér rödd mín

leiða myndina of mikið í átt að minni persónu og verða þar með of hlutdræg og

einskorðast við mína sýn. Vissulega er þetta mín mynd og mín sýn en það er ekki jafn

augljóst þegar ég er ekki líka að mata áhorfendur með upplýsingum sem rödd guðs um

það sem fyrir augu ber. Í öðru lagi var það óöryggi og feimni sem fældi mig frá því að

taka af skarið og stíga fram sem sögumaður og því fór ég allt aðra leið.

Eftir smá umhugsun ákvað ég að leyfa sögunni að heyrast og hreyfast í gegnum

raddir viðmælenda, að tengja söguna í gegnum vel valda staði sem ég ætlaði að leggja

áherslu á og heimsækja. Ég ákvað þannig að byggja myndina upp sem viðtalsmynd og

leiða söguna í gegnum staðina sem væru þarna í brennidepli, staði sem héldu öflugt og

Page 22: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

20

sérstakt Off Venue. Myndin myndi því kynna Off Venue hluta Iceland Airwaves í

gegnum raddir tónlistarfólks, aðila úr tónlistarbransanum og svo talsmenn þessara staða.

Ég valdi að taka ýtarleg viðtöl við Grím Atlason, framkvæmdastjóra Iceland

Airwaves, og Lucy Hill, skipulags- og verkefnastjóra Off Venue, og nýtti þau ásamt

viðtölum við annað reynslumikið fólk úr tónlistarbransanum til að veita áhorfendum

innsýn inn í þennan Airwaves-heim og út á hvað hann gengur. Ég ákvað að ræða því

næst við tónlistarfólkið um aðkomu sína að dagskránni, hvernig þetta fyrirbæri blasir

við þeim. Að lokum er rætt við skipuleggjendur dagskrár á hverjum vettvangi fyrir sig

um aðkomu þeirra að Off Venue. Þarna sá ég fyrir mér að fjölbreytt sjónarmið myndu

fléttast saman og ég næði að fanga upplýsingar um fyrirbærið Off Venue úr mörgum

áttum og að saga Off Venue á Iceland Airwaves myndi opinberast í gegnum

viðmælendurna og staðina sem fylgst væri með.

Í lok október var ég komin með drög að handriti að heimildarmynd sem færi í flokk

rokktónlistarheimildarmynda (e. Rockumentary) en samkvæmt flokkunarkerfi

kvikmyndafræðingsins Bill Nichols (2001) myndi hún í grunninn flokkast undir það að

vera athugunar- og þátttökuheimildarmynd (e. Observational/Participatory).

Athugunarmynd þar sem fylgst er með því sem á sér stað á vettvangi eins og fluga á

vegg án þess að hafa áhrif á það sem á sér stað, umhverfi rannsakað á hlutlægan hátt.

Þátttökumynd þar sem ég er staddur á vettvangi og leitast þar eftir upplýsingum og

útskýringum hjá þeim sem þekkja og framkvæma með því að taka viðtöl (Nichols,

2001). Þannig flakkar myndin frá einum stað til annars þar sem sýnt er frá

tónlistarflutningi, myndavélin fangar augnablikið, en svo er klippt inn á samtöl við

sérfræðinga, tónlistarfólk og skipuleggjendur sem segja áhorfendum frá sinni þátttöku

og reynslu.

Í upphafi var ekki ákveðið hverjir yrðu viðmælendur úr flokki sérfræðinga né úr

röðum tónlistarfólks þar sem ég fékk ekki dagskrá Off Venue í hendur fyrr en um

miðjan október og ég vissi að ég myndi þurfa að velja þetta fólk á staðnum. Ég valdi

aftur á móti strax viðmælendur eins og Grím Atlason og Lucy Hill hjá Iceland Airwaves

úr röðum sérfræðinga og ég hafði fengið vilyrði fyrir viðtölum við Lárus Jóhannesson

hjá 12 Tónum, Benedikt Reynisson hjá Kex Hostel og Ingvar Geirsson úr Lucky

Records á sama tíma og þessir aðilar höfðu samþykkt ósk mína um að fá að taka upp hjá

þeim og hafa þeirra staði í brennidepli. Ég sótti þar að auki um leyfi til að taka upp hjá

dvalarheimilinu Grund með góðum fyrirvara.

Page 23: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

21

Varðandi 12 Tóna og Kex Hostel var tvennt sem ég var ákveðinn í að fjalla um í

myndinni. Í tilfelli 12 Tóna voru það tíu ára afmælistónleikar kanadísku útgáfunnar

Secret City Records sem halda átti í versluninni en ég var einmitt tengdur komu Patrick

Watson sem var á mála hjá útgáfunni árið 2006 og spilaði vel heppnaða tónleika í 12

Tónum og á Airwaves það árið. Ég þekkti því vel til útgáfunnar og var meðvitaður um

hversu mikilvægur þessi viðburður var fyrir bæði 12 Tóna og Secret City Records.

Þarna vissi ég að mér gæfist tækifæri til að taka upp eitthvað sérstakt og ræða í

framhaldinu við aðila með sterka tengingu við hátíðina. Ég setti mig því tímanlega í

samband við framkvæmdastjóra Secret City Records, Justin West, og óskaði eftir

viðtölum fyrir myndina og lýsti því sem ég var að gera.

Ég vissi að sama skapi með góðum fyrirvara í gegnum samskipti mín við Benedikt

Reynisson sem starfaði þá hjá Kex Hostel að útvarpsstöðin KEXP frá Seattle yrði með

beinar útsendingar og dagskrárvald á Off Venue Kex Hostel líkt og fyrri ár. KEXP er

vinsæl útvarpsstöð og er með hlustendur úti um allan heim en að auki með mikið áhorf

á beinar útsendingar sínar á samfélagsmiðlum. Þessu til viðbótar fullvinnur stöðin

sérstakar tónleikaupptökur með tónlistarfólki og sýnir á YouTube. Framlag KEXP til

tónlistarlífsins á Íslandi sem og víða annarsstaðar er gríðarlega mikilvægt en sjö árum

eftir að útsendingar frá Kex Hostel hófust 2011 hefur KEXP gert í kringum 1200

myndbönd með íslenskri tónlist upp úr 250 tónleikum og þeim hefur verið streymt oftar

en 85 milljón sinnum. Einnig má benda á þá staðreynd að frægðarsól Of Monsters and

Men hóf sig á loft með hjálp KEXP eftir að stöðin tók upp og sendi út herbergistónleika

þeirra árið 2010 (Rogers, 2018).

Ég þekki orðið ágætlega fólkið sem vinnur hjá KEXP í gegnum mín fyrri störf en

þetta er samheldur hópur sem kemur hingað árlega. Ég var staðráðinn í að ná viðtali við

einhvern af þeirra ágæta dagskrárgerðarfólki til að veita mér álit sitt á þessum þætti

hátíðarinnar sem KEXP á líka svo stóran þátt í að skapa. Ég sendi tölvupóst á Jim

Beckmann sem sér um myndefni og myndvinnslu og óskaði eftir viðtali auk þess sem

ég sagði honum að ég myndi vera á Kex Hostel að taka upp einhverja daga sem hátíðin

færi fram.

Næsta skref var að setja upp spurningalista5 til að fylgja eftir í grófum dráttum og

setjast svo yfir dagskrána fyrir Off Venue en hún var gerð opinber um miðjan október

2016. Á þeim tímapunkti var fjöldi tónleika 821 talsins á 63 stöðum sem var met (Lucy

5 Spurningalistann má finna sem viðauka

Page 24: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

22

Hill, 2016). Það var því ljóst að þetta væri rosalega stór og viðamikil dagskrá og Off

Venue orðið „...hátíð innan hátíðarinnar.“ eins og Lárus Jóhannesson (2016) í 12

Tónum komst að orði.

Í viðauka við handritið voru hugmyndir sem ég vildi gjarnan fylgja eftir ef það

reyndist mögulegt. Dæmi um slíkar hugmyndir voru aðrir staðir til að heimsækja og

taka upp á til að sýna meiri breidd en einnig hugmyndir um aðra viðmælendur sem

gaman væri að ná tali við. Sem dæmi um slíkar hugmyndir má nefna Kaffibarinn og

Smekkleysu og svo var það algjör draumur í mínum huga ef mér tækist að grípa David

Fricke aðstoðarritstjóra hjá The Rolling Stones í viðtal. Aðrir góðir á listanum voru

Gunnar Hjálmarsson og Arnar Eggert Thoroddsen og svo vel tókst til að allir mættu þeir

í viðtal en það var algjör lukka að rekast á David Fricke í Smekkleysu þegar við

mættum þangað og hann var til í viðtal þó svo að stutt væri í að hann ætti að mæta í

móttöku hjá forseta Íslands. Ferlið var því ansi lífrænt og það var margt sem var

ákveðið með stuttum fyrirvara. Þó að það væri ákveðið í upphafi hvar átti að taka upp

var það aldrei fullkomlega ljóst hvert efnið myndi fara að lokum, hvaða tökur væru

nýtanlegar og hvernig viðtöl myndu heppnast og því reyndist það mjög flókið verk að

sauma efnið saman í heildstæða mynd en meira um það síðar.

3.1 Handrit og uppbygging

Þegar kom að handriti myndarinnar þá vissi ég að þrátt fyrir góðan undirbúning þá yrði

það að vera laust í reipunum. Ég gat í raun aldrei verið alveg viss um hvað ég væri að

fara fá af nothæfum upptökum og olli það mér smá áhyggjum upp á eftirvinnsluna en

það var líka spennandi þáttur. Ég lagði því ákveðnar línur hafandi lært það að

heimildarmyndir sem teknar eru upp á vettvangi bjóða upp á óvissu og hið óvænta.

Aðstæður á vettvangi geta breyst skyndilega og tækifæri gefast sem grípa verður á

ljóshraða.

Eins og tekið hefur verið fram koma þeir sem rætt er við í myndinni úr þremur

áttum: Tónlistarfólk, skipuleggjendur og bransafólk (tónlistarblaðamenn eða

útgefendur). Í myndinni er sagan rakin útfrá sjónarhorni fólks sem þekkir hátíðina vel

auk þess sem rætt er við tónlistarfólk sem er að koma fram á Off Venue.

Í myndinni koma fram listamenn sem ég kann að meta, voru að gera spennandi

hluti og endurspegla á sinn hátt þá grósku og sköpunarkraft sem býr í íslensku

Page 25: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

23

tónlistarlífi. Það má til dæmis benda á þá staðreynd að tveimur árum eftir að ROHT stóð

að skipulagningu sunnudagsdagskrár Off Venue í Lucky Records, auk þess að koma þar

fram, þá var fyrsta breiðskífa ROHT valin sem rokkplata ársins í Morgunblaðinu 2018

og var sett á Kraumslistann 2018 yfir sex bestu plötur ársins.

Vinnan við handritið var annars tvíþætt. Í fyrsta lagi var um að ræða frumhugmynd

sem fól í sér undirbúning, tökuplan og uppbyggingu sem og yfirlit yfir þá staði sem átti

að fylgjast með og óskalista yfir það fólk sem átti að ræða við og lýst hefur verið hér í

kaflanum að framan. Seinni hluti handritsgerðarinnar átti sér staði í eftirvinnslunni

þegar efnið var flokkað og metið í klippingu þar sem efnið þurfti að mynda heild, miðla

sögu og sýn. Sú vinna var vægast sagt gríðarlega erfið og tímafrek en hún fól í sér mikla

yfirsetu og greiningu á því efni sem tekið hafði verið upp. Myndefnið fyllti nokkra

harða diska og taldi um þrjú terabæti enda fór ég ásamt tökuliði út í tökur á hverjum

degi alla Airwaves-vikuna auk þess sem ég tók upp viðtöl bæði fyrir og eftir hátíðina.

Ég hafði gert spurningalista mér til halds og trausts í viðtölum en ég ákvað láta rödd

mína heyrast sem minnst í myndinni. Helsta ástæðan fyrir því að höfundur fjarlægir sig

úr ramma myndarinnar og hljóðrás við tökur var tæknileg auk þess sem ég vildi ekki

beina athyglinni að mér. Uppsetning hefði þar að auki orðið flóknari, tímafrekari og

kostað meira ef ég hefði kosið að leyfa rödd minni að heyrast en myndin var gerð við

nauman kost og með dyggri aðstoð sjálfboðaliða.

Aðkoma mín vafðist fyrir mér í langan tíma en mér var það ljóst að persónuleg

viðvera mín væri sterk, tengsl við tónlistarfólkið og aðra viðmælendur myndarinnar

mikil því ég var lykill að því að fá viðmælendur til að taka þátt, fá aðgengi að

tónleikastöðum og leyfi til að mynda það sem þar fór fram. Það var því ljóst að nærvera

mín væri ávallt til staðar og þessu þurfti ég að vinna út frá í eftirvinnslunni. Það var í

sjálfri klippingunni sem ákveðið var hvernig endanleg uppröðun á efninu yrði, að það

væru staðirnir sem yrðu fókusinn, að þeir myndu skipta myndinni upp í kafla og þar

með ramma myndina inn með viðtölum. Þegar tökum lauk var búið að taka 27 viðtöl

fyrir myndina en lista yfir viðmælendur má finna í viðauka.6

Tónlistaratriðin í myndinni eru mörg og koma úr ýmsum áttum. Við handritagerð

og undirbúning var ég mikið að velta fyrir mér þeirri tónlist og tónlistarfólki sem að

lokum myndi verða í myndinni. Ég var alveg ákveðinn í því að taka upp tíu ára afmæli

Secret City í 12 Tónum auk þess sem ég ætlaði að taka upp eitthvað fleira sem þar

6 Á lista yfir viðmælendur er að finna nafn viðmælenda, dagsetningu og stað sem viðtalið fór fram.

Page 26: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

24

myndi vera í boði. Það var því ákvörðun mín að elta ekki uppi ákveðin bönd eða

tónlistarstefnur heldur fara á þá staði sem hentuðu best miðað við dagskrá og setja upp

tökubúnað en við þurftum alltaf að mæta mjög tímalega til að ná góðu plássi fyrir

myndavélarnar og annan búnað enda oft þéttsetinn bekkurinn.7

Í upphafi hafði ég einnig hugmyndir um að fjalla um þá gagnrýni sem Off Venue

hefur hlotið frá ýmsum tónlistarmönnum en hún hefur að mestu leyti snúist um greiðslur

sem hafa staðið listafólki til boða frá rekstraraðilum verslana og veitingahúsa. Ég hafði

mikinn áhuga á þessu sjónarhorni sem snýr að því að menningin sé metin að verðleikum

en tónlistarmaðurinn Pétur Ben skrifaði fræga grein í Grapevine um þessi mál sem hafði

mikil áhrif og hristi upp í hlutunum (Pétur Ben, 2014; Iceland Monitor, 2014). Því

miður náði ég ekki að bæta þessu við efni myndarinnar og í raun hefði það getað verið

sjálfstæð mynd. Ég reyndi þó að bóka viðtal við Pétur Ben en við náðum ekki saman og

því lét ég alveg eiga sig að setja þennan vinkil inn í myndina. Ég ræddi þó þessi mál við

Grím, Lucy og Lárus hjá 12 Tónum en að lokum fann ég þessu efni ekki stað í

myndinni.

3.2 Gerð myndar: Undirbúningur, framkvæmd og eftirvinnsla

Vinnuferlið hófst í ágúst, strax eftir að fengin var blessun fyrir framkvæmdinni hjá

leiðbeinanda verkefnisins Höllu Kristínu Einarsdóttur. Fyrstu drög að handriti kynnti ég

í byrjun ágúst en það átti eftir að breytast fljótt þegar nær dró hátíð og ég gerði mér

betur grein fyrir umfanginu og því hvernig ég vildi nálgast verkefnið og hverju ég vildi

ná fram með gerð myndarinnar.

Ég hafði uppi metnaðarfullar hugmyndir um tökur og gerð myndarinnar og setti

mig strax í samband við Grím Atlason sem þá var framkvæmdastjóri Iceland Airwaves

en hann gaf mér leyfi til að gera myndina, veitti mér greinargóðar upplýsingar og kynnti

mig fyrir Lucy Hill sem hafði það hlutverk að sjá um Off Venue-dagskrá hátíðarinnar.

Ég bókaði viðtöl við þau sem ég svo tók í fyrstu viku október eftir að hafa heimsótt þau

einu sinni áður og tekið upp efni á skrifstofu hátíðarinnar og rætt stuttlega við þau um

undirbúninginn.

7 Listi yfir tónlistaratriði og listamenn sem voru kvikmyndaðir er í viðauka.

Page 27: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

25

Fyrstu drög að hugmynd, stutt lýsing á verkefninu sem lögð var fram í upphafi:

Heimildarmynd sem fjallar um upplifun og mikilvægi tónleika sem eiga sér stað á Off

Venue dagskrá Iceland Airwaves dagana sem hátíðin fer fram. Umfjöllun um það

gríðarlega framboð af skemmtilegum tónleikum og grósku tónlistar sem boðið er upp á

og þá upplifun sem á sér stað á utandagskrá hátíðarinnar í Reykjavík. Off Venue er

ómissandi þáttur hátíðarinnar og mikilvægur hluti af þeirri upplifun sem fylgir þessari

gróskumiklu hátíð sem fer fram í Reykjavík dagana 2. til 6. nóvember.

Fylgst er með því hvernig dagskráin tekur á sig mynd meðfram undirbúningi

hátíðarinnar, skipulagningu dagskrár og utanumhald skipuleggjenda, bókun listafólks í

verslanir og önnur rými og svo skipulag og undirbúning tónlistarfólksins sjálfs.

Sýnt er hvernig listamenn og aðdáendur upplifa sig í þessu umhverfi, mikilvægi slíkra

tónleika sem hér um ræðir fyrir verslunareigendur, veitingasala og aðdáendur. Reynt að

varpa ljósi á það hvernig utandagskrá þjónar ímynd hátíðarinnar og Reykjavíkur sem

tónlistarborgar og eftirfarandi spurningum svarað:

- Mikilvægi (virði) þessarar dagskrár fyrir þá sem þar koma fram?

- Hvers vegna að bjóða upp á Off Venue viðburði?

- Upplifun og sýn þeirra sem sækja þessa tónleika?

- Er mikill munur á upplifun listamannsins og svo aðdáanda?

- Sýn bransafólks á Off Venue.

Eins kemur fram hér í kaflanum um handrit og uppbyggingu hætti ég við þá

hugmynd að fara of náið ofan í undirbúning og skipulag innan skrifstofu Iceland

Airwaves. Það var að lokum niðurstaða mín að nálgast efnið í gegnum tónleikastaðina.

Ég ákvað að fylgjast með og segja frá hliðardagskránni í gegnum nokkra áhugaverða

staði sem tækju þar þátt og fékk leyfi til að taka upp. Þetta voru 12 Tónar, Kex Hostel,

Dvalar og hjúkrunarheimilið Grund og Lucky Records.

Það sem réð valinu var persónulegt mat mitt á mikilvægi þessara staða í

tónlistarlegu samhengi, að staðirnir væru spennandi og að dagskráin á þessum stöðum

myndi vera áhugaverð og að það yrði gott að athafna sig á þeim. Síðast en ekki síst var

sú mikilvæga forsenda að rekstraraðilar þeirra væru vel með á nótunum í tónlistarlífinu

og skemmtilegir viðmælendur.

Forsvarsmenn þeirra staða sem fylgst var með skrifuðu undir leyfissamning sem ég

kom með sem veitti mér leyfi til að taka þar upp efni og nota í myndinni líkt og allir

viðmælendur mínir gerðu.

Page 28: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

26

Næsta skref undirbúnings var að huga að framkvæmdinni á vettvangi en ég gerði

mér fyllilega grein fyrir því að þetta myndi vera óyfirstíganlegt verkefni án góðrar

hjálpar. Það var í upphafi haustannar sem ég leitaði til þriggja samnemenda minna í

Hagnýtri menningarmiðlun sem ég hafði kynnst í náminu og unnið með að verkefnum í

öðrum námskeiðum.

Það voru þau Sigríður Rut Marrow, Viðar Snær Garðarsson og Atli Týr Ægisson

sem komu til aðstoðar og lögðu afl sitt á vogarskálarnar svo um munaði. Þau tóku þátt í

því að gera verkefnið að veruleika en vinnu sína lögðu þau af mörkum án þess að þiggja

önnur laun fyrir en mat, drykk og miða á Iceland Airwaves. Alla Airwaves-vikuna

mættu þau Sigríður og Viðar í tökur á hverjum degi og hjálpuðu við framkvæmdina frá

morgni til kvölds en dagarnir voru oft langir og strangir. Hjálp þeirra þriggja var í einu

orði ómetanleg og að hafa þau sér við hlið í tökum var gríðarlega mikilvægt því öll

vorum við nýgræðingar í kvikmyndalistinni ef svo má að orði komast og því var gott að

leita ráða hjá þeim þegar svo bar undir.

Sigríður, Viðar og Atli komu að gríðarlega mörgum þáttum við tökur og gerð

myndarinnar og má þar nefna: Aðstoð við tæknileg atriði, uppstillingu myndavéla,

stillingu á hljóði, möguleiki á mörgum sjónarhornum með því að manna myndavélar og

gera mér líka kleyft að taka upp með mörgum myndavélum. Þau stýrðu myndavélum í

viðtölum og gerðu mér þannig auðveldara um vik að einbeita mér að viðmælandanum

og viðtalinu, hjálpuðu við að finna sjónarhorn og aðstoðuðu við flutninga á tækjabúnaði

milli staða enda mikið af dóti sem þurfti að bera á milli tökustaða eins og sjá má í stuttu

yfirlit yfir tækjabúnað í næsta kafla. Það reyndist þar að auki mjög mikilvægt að hafa

Sigríði til að setja hljóðnema á viðmælendur og stilla þá en á meðan gat ég undirbúið

viðtalið, valið skot og haldið mér í smá fjarlægð frá viðmælandanum á viðkvæmum

tíma rétt áður en viðtal hófst. Í stuttu máli hefði ég ekki getað framkvæmt verkefnið án

þeirra aðkomu.

Ekki má gleyma að nefna aðkomu Ármanns Gunnarssonar kennara úr Hagnýtri

menningarmiðlun. Ármann var mér innan handar með tækjabúnað og kennslu á hann og

sá til þess að ég hefði góðan aðgang að öllum helstu og bestu tækjum sem deildin gat

boðið upp á. Ármann sýndi verkefninu mikinn stuðning og einlægan áhuga og þegar

upp kom sú staða miðvikudaginn 2. nóvember að ég þyrfti að taka upp á tveimur

stöðum á sama tíma samkvæmt plani, að vera bæði í 12 Tónum og Kex Hostel, þá tók

Page 29: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

27

Ármann það að sér að mæta á Kex Hostel og taka upp tónleika með Singapore Sling

sem fóru þar fram.

Það voru helst viðtölin við sérfræðingana sem settu strik í vinnuferlið því þeim var

oft frestað eða þau færð til en þetta hafði ekki mikil áhrif á samstarfsfólkið mitt því

mörg viðtalanna hafði ég tekið upp áður en hátíðin hófst og þrjú viðtöl skaut ég eftir að

hátíðinni lauk. Án þess að fara of djúpt í það hvernig dagarnir gengu fyrir sig þá vil ég

segja það að tökur gengu yfir höfuð vel. Efnið sem við tókum upp var oftast mjög gott

en það gat verið misjafnt og stundum var ákveðin byrjendabragur á því. Ég gat engu að

síður oftast fundið leiðir til að nýta það efni sem var myndinni mikilvægt og laga það

sem þurfti að laga í klippiherberginu.

Tökudagarnir voru oft ansi langir þar sem við reyndum alltaf að vera komin á

staðinn mun fyrr en auglýstir tónleikar áttu að hefjast. Það gerðum við bæði til að hafa

tíma til að koma okkur fyrir, ná góðum stað og nægu plássi til að stilla upp vélum og

svo ná tali af tónlistarfólkinu og biðja um viðtöl að tónleikum loknum. Í lok hvers dags

var farið yfir plan næsta dags, hverjir gátu tekið þátt í verkefnum morgundagsins og svo

lauk deginum með því að ég fór heim og afritaði allt efnið sem myndað hafði verið yfir

daginn af geymslukortum tökuvélanna inn á flakkara og setti allar rafhlöður í hleðslu til

að hafa tilbúnar fyrir næsta dag. Það gat tekið hátt undir klukkustund að tæma öll

minniskortin enda margar vélar í notkun og mörg kort sem þurfti að hafa tilbúin fyrir

tökur næsta dag.

Þann 29. október stofnaði ég Facebook-hóp utan um samstarfshópinn þar sem ég

miðlaði upplýsingum til þeirra sem tóku þátt í verkefninu um það sem var á döfinni,

yfirlit yfir dagskrá, minnispunkta og fleira tilfallandi eins og myndir frá vettvangi. Eitt

það fyrsta sem ég setti þar inn var skjal sem hafði að geyma tökuplan yfir alla daga en á

því kom fram hvar við áttum að vera, klukkan hvað og til að taka upp hvað –

tónlistaratriði og/eða viðtöl.8 Þar kom einnig fram hverjir úr hópnum gáfu kost á sér til

að mæta í tökur auk þess sem skjalið hafði að geyma lista yfir vinnustundir mínar,

fjármál, þakkarlista og yfirlit yfir tækjabúnað en á næstu síðu má sjá mynd úr þessu

skjali.

Í viðauka ritgerðarinnar má finna lista yfir þau tónlistaratriði og viðtöl sem tekin

voru upp fyrir myndina. Þar er að finna dagsetningar og hvar viðtal eða tónlistaratriði

var tekið upp. Allt í allt eru þetta 27 viðtöl sem ég tók og flest eru nýtt í myndinni.

8 Hluta af þessu google-skjali má sjá í viðauka

Page 30: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

28

Tónlistaratriðin sem tekin voru upp 2016 voru einnig 27 talsins en árið 2017 fór ég aftur

á stúfana á ný til að taka upp aukaefni með listamönnum þar sem þeir eru að koma fram

á formlegri dagskrá Iceland Airwaves. Ég tók upp þrjú tónlistaratriði 2017 (HAM,

ROHT og Mammút) en þetta efni var ekki notað í myndina.

Tímafjöldi höfundar við gerð myndar

Undirbúningur: 15 klukkustundir

Viðtöl fyrir og eftir Airwaves: 30 klukkustundir

Tökur 2016: 110 klukkustundir

Tökur 2017: 10 klukkustundir

Eftirvinnsla: 450 klukkustundir

Ýmis störf varðandi framleiðslu: 24 klukkustundir

Tímafjöldi aðstoðarfólks

Tökur 2016: Yfir 100 klukkustundir

Viðtöl eftir Airwaves: 3 klukkustundir

Listi yfir tækjabúnað sem notaður var við tökur myndarinnar:

Sony PXW-Z150 4K XDCAM – 4K

Sony Video PXW-X70 – HD

Canon EOS 5D SLR

YI 4K Action Camera

Zoom H4n Pro

Tveir Þrífætur undir Sonyvélar

Standur fyrir Zoom upptökutæki

Jafnvægisgrind fyrir Canon myndavél

Sony vélarnar tvær voru notaðar jöfnum höndum en önnur þeirra bauð upp á

möguleikann á að taka upp í 4K sem þá var nýr. Ég notaði 4K-vélina sem aðalvél og tók

upp efni á hana í 4K-gæðum en þegar ég fór að vinna myndina og blanda saman efni úr

vélum þá ákvað ég að hafa tímalínuna mína í klippingunni í 1080HD þar sem það

auðveldaði alla eftirvinnslu og gerði hana hraðvirkari. Við klippingu myndarinnar

notaði ég aðallega efni úr Sony-vélunum.

Page 31: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

29

Listi yfir tækjabúnað fyrir eftirvinnslu:

iMac með 27 tommu skjá

Final Cut Pro X

5x flakkarar - 10 terabæt samtals.

Tækjabúnaður til eftirvinnslu er allt búnaðar sem ég fjárfesti í sjálfur til að geta

unnið að gerð myndarinnar heima fyrir. Klipping myndarinnar hefur reynst mjög

tímafrek og krafist mikillar yfirsetu en vegna fjölskylduaðstæðna þurfi ég að taka

rúmlega árs hlé frá allri eftirvinnslu. Myndin tók nokkrum breytingum í

klippiherberginu þar sem ég gat betur vegið og metið kosti og galla frásagnarinnar sem

ég hafði valið. Ég fékk góð ráð frá leiðbeinanda mínum, Höllu Kristínu Einarsdóttur í

byrjun árs 2019 sem skerpti vel á efnistökum myndarinnar og framvindu sögunnar.

Breytingin fól í sér töluverða enduruppbyggingu og styttingu á efninu auk þess að

minnka flakk á milli tónleikastaða. Þannig næst að skerpa fókus sögunnar þar sem hver

staður sem ég fylgist með á skýrari kafla og skilaboð þeirra sem rætt er við ná betur í

gegn til áhorfenda.

Það er langt í frá einfalt mál að gera heimildarmynd en að gera heimildarmynd þar

sem tónlist leikur lykilhlutverk er þrautinni þyngri. Þar munar mest um þá staðreynd að

verið er að vinna með tónlist sem er höfundarvarin og til þess að nota hana þarf leyfi frá

þeim sem á réttinn af henni, er höfundur eða fer með réttindi fyrir höfund tónlistarinnar.

Staða mín var mér í hag þar sem ég er þekktur innan tónlistarsenunnar, með traust og

góð sambönd. Ég leitaði upplýsinga um rétthafa hjá STEF, og því næst hafði ég

samband við fólk til að fá leyfi til að nýta tónlist viðkomandi aðila í myndinni að

ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þar sem þetta eru mörg tónlistaratriði sem eru sýnd í

myndinni voru þetta margir aðilar sem ég þurfti að ræða við, þetta voru því margir

tölvupóstar og oft flókin leið að lenda samstarfi, sér í lagi þegar erlendir rétthafar áttu í

hlut. Ferllið var því afar tímafrekt og krafist umfangsmikilla samskipta við listamenn,

höfundarréttarsambönd og útgefendur bæði hér heima og erlendis. Útskýra þurfti fyrir

viðkomandi rétthafa hvað ég sem leyfishafi ætla mér að gera við myndina, hvort ég

muni til að mynda hafa af henni tekjur og hvar ég mun sýna myndina. Það er gaman að

segja frá því að það gekk með besta móti að sækja um leyfi og allir listamenn tóku mér

opnum örmum og voru spenntir fyrir myndinni.

Það er stefna mín að klára myndina veturinn 2019/2020. Nú þegar ég hef tilbúið

lokaklipp af myndinni er það mitt næsta skref að fá fagmenn til að yfirfara og laga

Page 32: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

30

hljóðið í henni með það að markmiði að hljóðjafna hljóðrásina enda um tónlistarmynd

að ræða. Því næst vil ég fá aðstoð sérfræðinga til að litgreina myndina. Þessi atriði koma

til með fela í sér kostnað sem ég þarf að finna leið til að standa straum af og hef ég lagst

yfir nokkrar hugmyndir um fjármögnun en fer ekki dýpra í þau mál hér.

3.3 Markhópur og markaðssetning myndarinnar

Markhópur myndarinnar rúmar alla þá sem hafa áhuga á tónlist, tónlistartengdri

ferðamennsku, Íslandi og umfjöllun um menningu. Þeir sem sótt hafa tónlistarhátíðina

Iceland Airwaves eða hafa hug á því að gera slíkt eru einnig í markhópnum enda mjög

líklegir til að hafa áhuga á efni myndarinnar og því sem þar kemur fram.

Leiðir til að koma myndinni á framfæri og ná til markhópsins eru nokkrar en þær

krefjast allar samstarfs og samvinnu við sýningar því ekki er stefnt að því að sýna

myndina á netinu í opnu aðgengi. Einföld ástæða er fyrir því af hverju myndin verður

ekki gerð aðgengileg almenningi á internetinu en hún snýr að höfundarrétti þeirrar

tónlistar sem leikin er í myndinni. Eins og kemur fram hér í greinargerðinni er leyfi

fengið hjá höfundum fyrir skilyrtri notkun og snýr til eftirtalinna dreifileiða:

1. Sýningar á kvikmyndahátíðum

2. Viðburðir í tengslum við Iceland Airwaves í samvinnu við t.d. ÚTÓN

3. Samvinna við sjónvarpsstöðvar sem myndu þá greiða gjald sem rynni til rétthafa

tónlistarinnar í gegnum aðild rétthafafélögum á borð við STEF.

Þegar kemur að frumsýningu myndarinnar er mikilvægt að nýta sér tækifærið og

kynna afurðina vel. Segja frá sögu myndarinnar, frá markmiðinu með myndinni,

hugmyndinni um að varðveita og miðla sögunni, sýna þann sköpunarkraft sem býr í Off

Venue og að lokum að þakka fyrir alla þá aðstoð sem verkefnið hefur hlotið.

Leiðir til kynningar eru margar en óbein markaðssetning er eitthvað sem gæti

hentað vel og felur ekki í sér mikinn kostnað. Sú leið fæli í sér útvarps- og blaðaviðtöl

sem og herferð á samfélagsmiðlun sem væri studd beinum auglýsingum til að styðja við

pósta. Myndin hefur átt sína eigin Facebook-síðu síðan árið 2016 en hún hefur verið

misvirk eftir tímabilum. Þegar myndin er tilbúin er stefnan að blása í síðuna lífi til að

miðla skilaboðum til markhópsins.

Page 33: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

31

4. Heimildarmyndir: Greining á stíl og stefnu

Documentary is a form in which the public construction of history takes over from living memory

even as it incorporates it, but which, as it does so, also enlarges the space of public memory both in

the present and in the archive of the future. Here, the screen memory may achieve the opposite of

the psychoanalytic sense: instead of screening memories off, it may invoke them.

- Michael Chanan (2001, 75)

Hér verður fjallaðu um heimildarmyndaformið. Efnistök og aðferðir verða útskýrðar

sem eiga við heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar vegna og rætt verður

um hvers vegna þessi miðlunarleið var valinn og hvað það er sem heillar mig við

formið.

Ég er mikið fyrir heimildarmyndir og er sérstaklega áhugasamur um þær sem fjalla

um tónlist. Það má segja að áhuginn hafi kviknað árið 1983 þegar ég sá í fyrsta sinn

kvikmyndina Rokk í Reykjavík, þá 10 ára gamall. Réttur staður til að byrja ef svo má að

orði komast. Það er skoðun mín að nota megi heimildarmyndina mun meira hér á landi

sem gagnrýna leið til að segja frá samfélaginu, rannsaka viðfangsefni og greina

umhverfið í fræðilegum tilgangi og til að miðla niðurstöðum vísinda. Myndrænt efni

ásamt hljóðupptöku, töluðu máli sem og tónlist, gefur greinagóða og skýra mynd af

viðfangi. Efni sem síðan er hægt að miðla til almennings á auðveldari máta en áður með

aðstoð internetsins og stafrænnar tækni. Myndræn miðlun rannsókna af ýmsu tagi á

greiðari leið til almennings og út yfir veggi háskólanna heldur en rannsóknir og

niðurstöður þeirra sem aðeins má finna sem texta (Wood, Martin og Salovaara, Perttu

og Marti, Laurent, 2018). Hafa ber þó í huga að kvikmyndir þurfa að halda athygli

áhorfenda og tímaramminn er knappur, nauðsynlegt er að vera meðvitaður um

gildishlaðin mátt miðilsins en nýta hann á skilvirkan máta til að setja fram upplýsingar á

lifandi og áhrifaríkan hátt og um leið hvetja til gagnrýnnar og upplýstrar umræðu (Halla

Kristín Einarsdóttir, 2015).

Heimildarmynd er ávallt verk þess sem leikstýrir og leggur línuna. Hún er

framsetning á veruleikanum eins og hann kemur kvikmyndagerðarmanninum fyrir

sjónir og eins og hann vill að áhorfandinn upplifi það sem verið er að fjalla um.

Áhorfendur jafnt sem kvikmyndagerðarfólk þurfa að hafa í huga hvers vegna einhver

setur einhvern og eitthvað í mynd. Það að geta svarað því er farsælt skref í vinnu þeirra

sem gera heimildarmyndir og er mikilvægt til að skilja það sem fyrir augu ber á

gagnrýnan hátt. Hafa ber í huga að heimildarmyndin er í eðli sínu frjálst listform sem

Page 34: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

32

miðlar bæði á huglægan og hlutdrægan hátt en hlutverk og tilgangur myndar getur aldrei

verið hlutlaus og stýrist af því hverjir standa á bakvið myndavélina og þeim tilgangi að

miðla þeirri sögu sem verið er að segja. Sjónarhornið sem valið er, viðmælendur sem

rætt er við og spurningar sem lagðar eru fyrir eru mótandi fyrir þá söguslóð sem fetuð er

og birtist áhorfandanum en það verður að hafa það hugfast að þetta er sprottið undan

rifjum kvikmyndagerðarmannsins/leikstjórans (Nichols, 2001).

Þetta fær mann til að leiða hugann að því hvort heimildargerðarmaðurinn geti

nokkurn tímann verið hlutlaus áhorfandi og skrásett það sem fyrir augu ber án þess að

mark hans sjáist? Getur hann valsað um sviðið án þess að hafa áhrif á það sem á sér

stað? Þetta eru mikilvægar spurningar og í sjálfu sér markast svarið af viðfangsefninu

og framsetningu kvikmyndagerðarmannsins. Sá raunveruleiki sem áhorfandinn upplifir

og horfir á er að einhverju leyti tilbúinn/búinn til. Sjónarhornið er valið af

kvikmyndagerðarmanninum, mynd og hljóð klippt saman, og efnið sýnt á þann hátt sem

þjónar þeirri framsetningu og áhrifum sem leitast er eftir við gerð myndarinnar. Það er

mikið til í því sem Bill Nichols segir í grein sinni Rödd heimildarmynda (The Voice of

the Documentary, 1983) og birtist í íslenskri þýðingu í bókinni Áfangar í

kvikmyndagerð í ritstjórn Guðna Elíssonar (2003), að raunveruleikinn sé ávallt

matreiddur og borinn fram af höfundum heimildarmynda. Framsetning er sjónarhorn

kvikmyndagerðarfólksins sem á sinn þátt í að skapa merkingu ásamt viðfangi

myndarinnar með því að skapa söguna, spyrja spurninga, hljóðsetja og beita

myndavélinni, klippa efnið til á tiltekinn máta og velja myndefni sem hæfir sögunni.

Þannig er kvikmyndagerðarmaðurinn ekki hlutlaus né fullkominn boðberi sannleikans

sem miðlar honum óbreyttum til áhorfenda.

Ímynd viðfangsefnis getur verið þekkt eða óþekkt í hugum fólks en ávallt eru

einhverjir sem þekkja þá kima sem verið er að skoða. Aldrei má gleyma því að

umfjöllun um efni og það fólk sem því tengist hefur áhrif á líf þeirra sem fjallað er um

og sérstöðu þeirra í samfélaginu. Athygli og áhugi á umfjöllunarefni kann að færast í

vöxt og í framhaldi valda þeim sem fjallað er um óþægindum vegna aukinnar gagnrýni

og fordóma sem var ekki að finna áður en kvikmyndin var gerð. Ábyrgð

heimildargerðarmannsins er því mikil, bæði gagnvart áhorfendum og viðfangsefninu en

ekki má gleyma því að hann verður fyrst og fremst að vera trúr sjálfum sér og listinni.

Page 35: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

33

4.1 Heimildarmynd sem miðlunarleið

Íslensk heimildarmyndagerð er sífellt að sækja í sig veðrið, bæði hvað varðar fjölda

framleiddra mynda á ári og fjölbreytni í efnistökum. Til marks um það nægir að nefna

sérstaka heimildarmyndahátíð sem haldin er árlega á Patreksfirði, Skjaldborg – Hátíð

íslenskra heimildarmynda, og hóf göngu sína árið 2007 (Skjaldborg, e.d.) og svo aukinn

fjölda heimildarmynda sem rata inn á kvikmyndahátíðir eins og Stockfish Film Festival

og RIFF – Reykjavík International Film Festival.

Tilkoma bókar bandaríska kvikmyndafræðingsins Bill Nichols, Representing

Reality (1991), markaði ákveðin vatnaskil í allri umfjöllun um heimildarmyndir. Þar er

heimildarmyndinni lyft upp á hærra plan í allri fræðilegri umræðu en áður hafði þekkst

og öll umfjöllun um heimildarmyndir varð uppfrá því bæði ítarlegri og taktfastari (Björn

Ægir Norðfjörð, 2008).

Hér í lok þessa kafla vil ég rifja upp vangaveltur Sigurjóns Hafsteins Baldurssonar

og Böðvars Bjarka Péturssonar í viðtalsgreininni Ný sýn (1998) þar sem þeir ræða um

hinstu rök heimildarmynda en ég vil taka undir sjónarmið þeirra sem þar koma fram og

gera að mínum til að rökstyðja val mitt á miðlunarleið.

Heimildarmyndir eiga að bregða nýju ljósi á veröldina. Það er hlutverk þeirra að

veita mótvægi við hina raunverulegu frásögn sem birtist okkur dagsdaglega í

fréttatímum sjónvarpsins því þær mega og eiga að vera öðruvísi. Heimildarmyndin á að

skoða heiminn á nýjan hátt og þarf ekki að vera fullkomin, hún má vera meira abstrakt,

rannsaka fyrirbæri út frá fræðilegum grunni, skoða málin frá meiri dýpt, innsæi og

tilfinningu. Ekki má gleyma þeirri mikilvægu staðreynd að heimildarmyndir

endurspegla sýn höfunda sinna þó svo að þær séu líka að miðla sannleikanum á réttlátan

hátt, huglægt eða hlutlægt, eða eins og Böðvar Bjarki segir í greininni, að í

heimildarmynd þá er alltaf verið að fjalla um raunveruleikann (Sigurjón Baldur

Hafsteinsson og Böðvar Bjarki Pétursson, 1998).

Heimildarmyndir sýna raunverulegt fólk, raunverulega atburði eða fyrirbæri eins

og þau gerðust. Myndavélin fangar augnablikið sem er svo meðhöndlað af

kvikmyndagerðarmanninum. Augnablikið er því ekki hlaðið sömu merkingu og þegar

það átti sér stað því hin endanleg nálgun er kvikmyndagerðarmannsins og því öðlast það

nýja merkingu, verður minning um atburð og táknar tilbúinn sannleika sem allir eigi að

sammælast um að sé réttur samkvæmt hans meðhöndlun. Túlkun á atburðum og

sannleikanum ef svo er að skipta er hér bæði í höndum þeirra sem vinna efnið til

Page 36: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

34

sýningar fyrir áhorfendur og svo í höndum áhorfenda sem leggja sitt mat á það sem þeir

sjá. Allt er þetta bundið tækninni og möguleikanum á að hagræða sannleikanum og svo

sýn manna á því sem telst satt og rétt.

Eitt atriði nefna þeir Sigurjón og Böðvar í viðbót sem ég vil koma inn á og snýr að

heimildarmyndum sem teknar eru upp á vettvangi. Þeir benda á að þær eru vissulega

ólíkar leiknum kvikmyndum þar sem þeir sem fram í þeim koma eru fulltrúar sjálfs síns

en það er einmitt það sem gerir heimildarmyndir margradda og í leiðinni lýðræðislega

frásagnarleið. Ekki má heldur gleyma þeirri mikilvægu staðreynd að persónur

myndarinnar eru þar vegna ákvarðana kvikmyndagerðarmannsins og þjóna að endingu

sýn hans (Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Böðvar Bjarki Pétursson, 1998).

4.2 Raddir heimildarmynda

Hér verður fjallað um miðlunarleið verkefnisins og rýnt í heimildarmyndarformið.

Útskýrt verður hvaða stíl myndin tilheyrir eftir að fjallað er um þau frásagnarform sem

beitt er innan sviðsins. Stuðst verður við greiningaraðferð Bill Nichols úr Introduction

to documentary (2001) og henni brugðið á Off Venue – Tónlist tónlistarinnar vegna en

þar fjallar hann um sex raddir heimildarmynda en einnig vitnað í grein hans Rödd

heimildarmynda (e. The Voice of the Documentary, 1983) sem birtist í í Áfangar í

kvikmyndafræðum árið 2003. Nichols telur til og greinir sex meginstíla heimildarmynda,

eða raddir eins og hann kallar það einnig, og lýsir því hvernig þeim er beitt í

heimildarmyndum. Þessar raddir hafa allar sína sérstöðu, og hugmyndafræðilegu kosti.

Hver rödd hefur sinn stíll og sína kosti til að miðla veruleikanum verða áherslur þeirra

útskýrðar hér á efir í stuttu máli og að lokum verður Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

vegna staðsett innan þeirra.

Einnig verður fjallað um sérflokk sem tónlistarheimildarmyndir hafa eignast sem

nefnist upp á ensku rockumentary en efni myndarinnar sem hér um ræðir passar vel inn

í þá flokkun en auk þess verður myndinni Off Venue – tónlist tónlistarinnar fundinn

vettvangur innan þessarar greiningar Nichols og útskýrt hvers vegna þær raddir eiga við.

Í byrjun voru flokkar Nichols fjórir en seinna meir átti hann eftir að fjölga

flokkunum til að ná betur utan um nýjar gerðir heimildarmynda en Björn Ægir bendir á í

Page 37: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

35

grein sinni að hver ný gerð leysi þá eldri af hólmi, bæti úr annmörkum þeirra sem fyrir

voru komnar (Björn Ægir Norðfjörð, 2008) og að endingu verða raddirnar sex: 9

Sex raddir Bill Nichols eru (2001):

1. Ljóðrænar heimildarmyndir (Poetic).

2. Skýringarmyndir (Expository).

3. Athugunarmyndir (Observational), einnig nefnt direct cinema og cinéma vérité.

4. Þátttökumyndir (Participatory).

5. Íhugunarmyndir (Reflexive), einnig nefnd sjálfhverfa heimildarmyndin.

6. Gjörningamyndir (Performative).

Hver rödd býr yfir sínu eðli sem felur í sér ákveðna styrkleika og takmarkanir við

að koma skilaboðum, merkingu og hinum eiginlega sannleika til skila. Það er mikilvægt

að hafa það í huga að þessar sex raddir geta þar að auki samtvinnast og blandast saman í

einni og sömu heimildarmyndinni og gott er að taka það fram að raddirnar eiga allar

sinn tilverurétt þegar þeim er beitt við að miðla efninu til áhorfendans (Nichols, 2001).

Hin ljóðræna heimildarmynd leyfir sér óhefðbundnar leiðir til að miðla efninu og

má þar nefna klippingu sem er ekki í tímaröð, það er flakkað um í tíma og rúmi, miðlun

þekkingar er ekki megin markmið með gerð myndarinnar og öll vinnsla getur verið

framúrstefnuleg (e. avant-garde). Þekking er afstæð og engin ein rétt leið er til að miðla

þekkingu og frásögn en þessar myndir bera sterk höfundareinkenni sem varpar ljósi á

viðhorf höfunda og sýn þeirra á söguna (Nichols, 2001).

Skýringarmyndin byggir á hinni réttu hlutlægu og fræðilegu frásögn. Hér fær „rödd

guðs“ oft að óma en hún talar beint til áhorfandans af mikilli þekkingu og visku. Rödd

guðs er oft rödd þekktra leikara og sögumaður sést í mörgum tilfellum ekki í mynd. Það

einkennir skýringarmyndir að sjónarmið þess sem talar er erfitt að véfengja og

sjónarhornið er hárbeitt og rétt. Hérna eru lagðar til staðreyndir og sannanir á borð

áhorfenda og röddin, sem er oftar en ekki karlmannsrödd og æfð í heimi leikhússins,

talar af mikilli sannfæringu. Framvindan fylgir þræði og sögumanni en stundum er

einnig flakkað um í tíma ef það þjónar efninu enda oft hægt að velja efni frá ýmsum

tímum til að styðja við efnið. Hlutlægni og vel ígrunduð röksemdarfærsla er mikilvægur

þáttur í myndum sem þessum enda gerðar til að miðla „hinum almenna sannleika“

(Nichols, 2001).

9 Þýðing á meginstílum/röddum heimildarmynda fengin úr kennsluglærum Höllu Kristínar Einarsdóttur

Page 38: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

36

Athugunarmyndin fylgir í kjölfarið en þar stendur kvikmyndagerðarmaðurinn nærri

viðfangi sínu og fylgist með daglegu lífi fólks. Þessum stíl er oft líkt við að vera sem

fluga á vegg en hér er fylgst með viðfanginu af nákvæmni án þess að hafa áhrif á það

sem er að gerast. Markmiðið er bara að vera á staðnum og fylgjast með viðfangsefninu.

Hér fær milliliðalaust afdráttarleysi að njóta sín þegar við speglum raunverulega atburði

úr hversdagsleikanum, oft á kostnað sögulegs samhengis. Athugunarmyndin fékk byr

undir báða vængi upp úr seinna stríði þegar tækjabúnaður varð meðfærilegri og þá

leituðust kvikmyndagerðarmenn við að sýna raunverleikann og stíllinn varð gagnsærri. Í

hreinræktaðri mynd af þessu tagi á ekki að þurfa að útskýra neitt fyrir áhorfandanum en

hann á að geta dregið sína eigin ályktanir útfrá því sem hann sér. Efnið er tekið upp um

leið og atburðirnir gerast og það er sýnt ómeðhöndlað (eða það á áhorfandinn að halda í

það minnsta). Hér er ekki um að ræða uppstillt og æfð atriði, og ef um hreinræktaða

mynd af þessu tagi er að ræða þá er ekki bætt við „rödd guðs“ né tónlist eða

hljóðbrellum og heldur engum viðtölum (Nichols, 2001).

Vert er að benda á að nokkrar siðferðislegar spurningar geta vaknað við gerð

athugunarmynda enda auðvelt að fara yfir persónuleg mörk einstaklinga sem þora ekki

að andmæla þar sem auga myndavélarinnar er áhrifaríkt og valdið mikið. Nærvera

kvikmyndagerðarfólksins á það líka til að hafa áhrif á hegðun þeirra sem fylgst er með,

það er að segja, hegðun getur orðið í samræmi við það sem viðfangið heldur að ætlast sé

til af því. Styrkur athugunarmynda liggur í lýsingu atburða á meðan þeir gerast, þar sem

þeir gerast og hægt er að blanda þeim saman við aðrar raddir með ágætis árangri. Að

lokum er vert að geta þess að athugunarmyndin sker sig úr hópi hinna þar sem gerð

hennar byggir ekki á niður njörvuðu handriti (Nichols, 2003; 2001).

Þátttökumyndin er fjórði stíllinn sem Nichols fjallar um en það sem einkennir hann

er hversu nærri rannsóknarhefð mannfræðinnar hann stendur þegar kemur að

rannsóknum á lifnaðarháttum og hegðun fólks á vettvangi. Þátttökumyndir fjalla um

veröldina og margbreytileiki hennar er rannsakaður með þátttöku og viðtölum auk

nýtingu annarra gagna til að fá svör við hinum ýmsu spurningum og til að nálgast og

sýna viðfangsefnin á greinagóðan hátt. Hér situr kvikmyndagerðarmaðurinn í stól

rannsakandans eða er þátttakandi í atburðarrásinni á meðan sagan er sögð en oft eru

þátttökumyndir sagðar í fyrstu persónu til að undirstrika nærveru

kvikmyndagerðarmannsins í atburðarrásinni og til að grípa athygli áhorfenda.

Þátttökumyndir eru gerðar á vettvangi og þar reynir kvikmyndagerðarfólkið að taka upp

Page 39: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

37

myndefni sem sýnir viðfangsefnið í raunverulegu ljósi og í réttum kringumstæðum, án

utanaðkomandi áhrifa, reynt er að fylgjast með og samlagast umhverfinu sem

umfjöllunarefnið tilheyrir. Sögumaðurinn er kvikmyndagerðarmaðurinn sem er

augljóslega sjálfur hluti af þeim aðstæðum sem myndin gerist í og sýnir frá. Hér er

ábyrgð heimildarmyndagerðarfólks mikil enda krefst það trausts að fá að taka þátt í

aðstæðum fólks og nálgast það á þeirra heimavelli (Nichols, 2001).

Mikil nálægð og sterkt samband skapast oft á milli þeirra sem gera mynd í þessum

stíl og þeirra sem fjallað er um í þátttökuheimildarmyndum. Viðtöl eru oft afar

mikilvægur hluti í þátttökumyndum og mynda þar ákveðinn kjarna þar sem kafað er

ofan í umfjöllunarefnið með aðstoð viðmælenda sem búa yfir mikilvægum fyrstu handar

upplýsingum og upplifun á atburðum sem myndin fjallar um. Viðtöl nýtast vel til að

skapa framvindu og til að útskýra fyrirbæri eða atburði sem fólk hefur upplifað og

tengjast umfjöllunarefninu en hafa ber í huga að uppbygging sögu með viðtölum getur

verið vandasöm, flöt og einhliða. Mikilvægt er að hafa í huga að viðtöl er hægt að

framkvæma og sýna á margan hátt en í þátttökumyndum eru þau afar mikilvæg til að

miðla efninu til áhorfenda og því ber að hafa skýrar vinnureglur í kringum þau þegar

þau eru tekin á vettvangi. Þarna mætir kvikmyndagerðarmaðurinn viðmælanda sínum,

augliti til auglitis og ræðir við hann um efni myndarinnar og áhorfendur upplifa þetta

augnablik og skynja stemninguna á milli aðila í mynd og hljóði (Nichols, 2001).

Kvikmyndagerðarfólk þarf að gæta sín, bæði á vettvangi og í eftirvinnslunni og

sýna fólki og viðfangsefninu virðingu þegar efnið er unnið. Sannleikur myndarinnar

verður til við gerð hennar og er í þessu tilfelli sá veruleiki sem náðist á filmu.

Veruleikinn verður til þegar kvikmyndavélinni er beint að honum og því er

þátttökumyndin ekki spegill af hinum fullkomna og óspillta sannleika því myndavélin er

hér hluti af menginu, tekur upp valið efni og það er leikstjórinn sem velur að lokum það

efni sem fær að sjást og í hvaða samhengi en í stóra samhenginu gefur þátttökumyndin

efninu rödd sem er bæði persónuleg og sönn hinni sagnfræðilegu heimild sem fjallað er

um (Nichols, 2001).

Fimmta röddin er íhugunarmyndin, einnig nefnd sjálfhverfamyndin þar sem hún

fjallar oft um persónulega atburði byggða á sjálfrýni kvikmyndagerðarmannsins, sögð út

frá persónulegri reynslu eða upplifun. Í myndum af þessu tagi er tilvist áhorfandans

einnig viðurkennd og oft er talað beint til hans sem skapar tilfinningarík áhrif og nálægð

sem er kjarni þessa frásagnarforms (Halla Kristín Einarsdóttir, 2015; Nichols, 2001).

Page 40: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

38

Kvikmyndin jafnt og efni hennar verða fókus íhugunarmyndarinnar þar sem

áhorfandinn er í engum vafa um að hann sé að horfa á kvikmynd og hver það er sem er

að gera myndina. Orðalag og umgjörð breytist þar sem staðir verða nálægir og sýnileiki

kvikmyndagerðarmannsins í mynd og innan efnis er algjör þvert á það sem væri í mynd

sem beitti fyrir sér rödd athugunarmynda sem treystir á hlutlæga nálgun og ósýnleika

þeirra sem eru að fanga efnið. Myndir sem falla undir þessa skilgreiningu leitast eftir

því að ná athygli áhorfenda og beina sjónum þeirra að umfjöllunarefninu en um leið er

markmiðið að skapa sannfærandi umgjörð í umfjölluninni með því að viðurkenna þá

staðreynd að það er ávallt vandasamt að koma sjónarmiðum annarra á framfæri.

Raunveruleikinn er í aðalhlutverki en skapandi leiðir eru nýttar til að framkalla hann og

endurskapa þær frásagnir sem leitast er eftir að sýna. Hér er sett spurningarmerki við

hvað er ekta en tilfinningunni komið á framfæri, frásögninni gerð skil á djúpstæðan hátt

til dæmis með því að endurskapa atburði og ráða til þess leikara (Nichols, 2001).

Íhugunarmyndin er í senn sú rödd sem er hve sjálfmeðvituðust um sannleiksgildi og

réttmæti sitt í umfjöllun um raunveruleika annarra þar sem hún nálgast umfjöllunarefni

sitt frá mörgum hliðum. Frásögnin er sögð með skapandi hætti þar sem leikið efni og

kvikmyndagerð að hætti leikinna sjóvarpsþátta og kvikmynda er beitt til að segja

söguna og miðla upplýsingum. Áhorfendur eiga auðveldara með að efast um hina

eiginlegu vissu fyrir því sem fjallað er um og sagt er því myndefnið er oft endurgerð

atburða og staðfært til að ná fram áhrifum. Sá efi um hvað sé satt og rétt er oft líka

umfjöllunarefni þessara mynda og það gerir þessar frásagnir mikilvægar og

áhugaverðar. Ný vitneskja um atburði verður til og ólík sjónarmið fá að takast á þar sem

erfitt er að finna hinn eiginlega sannleik því sannleikurinn hefur á sér margar hliðar.

Íhugunarmyndir beita einnig fyrir sig spádómsgáfunni því í þeim er oft reynt að spá

fyrir um óorðna hluti, getið er í eyðurnar og spáð í hvað gæti hafa gerst með því að setja

upp ólíkar atburðarrásir – hin þekkta sögulína og svo það sem gæti hafa gerst (Nichols,

2001).

Gjörningaheimildarmyndin er svo sjötta röddin sem Nichols fjallar um (2001).

Persónulegar frásagnir einkanna þennan stíl sem tengir gjarnan inn á hina huglægu og

tilfinningalegu hlið heimildarmynda. Þessi rödd hentar vel til að segja persónulegar

sögur sem byggja á upplifun og líðan fólks á samfélaginu og þykja

gjörningaheimildarmyndir oft ljóðrænar og tilraunakenndar þar sem mörkin á milli

þekkingar og skilnings eru könnuð út frá einstaklingum og hópum (Halla Kristín

Page 41: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

39

Einarsdóttir, 2015; Nichols, 2001). Persónuleg reynsla fólks og upplifun er sú þekking

sem leitast er eftir að miðla, skoðun og sýn fólks á þeim raunverulega sannleika sem

það þekkir sjálft veitir heimild um samfélagið og málefni sem eru til umfjöllunar og því

eru gjörningaheimildarmyndir oft hlutdrægar í afstöðu sinni. Hugmyndir fólks á því sem

rætt er um og miðlað er áfram byggir á mismunandi merkingu, skoðunum og reynslu og

því byggir efnið sem safnað er af heimildargerðarfólki og er miðlað til áhorfenda á

huglægum grunni. Reynsla, minningar, upplifun á atburðum, persónulegt gildismat og

hugmyndafræði fólks á viðfangsefninu fær hér að móta og hafa áhrif á skilning

áhorfenda þegar horft er á myndina. Óhefðbundnum aðferðum er beitt við frásögnina,

leikið efni er notað í bland við sögumannsrödd og huglægar frásagnaraðferðir. Hér þarf

ekki að nýta efni tekið upp á vettvangi, ekkert efni þarf í raun að sýna raunveruleikann,

allt getur verið búið til á setti kvikmyndavers ef því er að skipta til að endurskapa

söguna og þann veruleika sem um er fjallað. Það sem hér skiptir mestu máli er að ljá

sögunni rödd, og oft minnihlutahópum sem hafa í gegnum tíðina ekki átt greiða leið að

fjölmiðlum og því ekki fengið að segja sögu sína frá sínu sjónarhorni og upplifun

(Nichols, 2001).

Það er merkingin, sagan sjálf, sem er í forgrunni gjörningamyndarinnar. Umgjörð

mynda í þessum stíl getur verið tilraunakennd þar sem megin áherslan er lögð á að

koma umfjöllunarefninu til skila og því er áherslan ekki sett á sjálft útlit myndarinnar,

innihaldið er í forgrunni en ekki það sem við sjáum á skjánum. Upplifun fólks er

aðalatriðið en ekki er reynt að útskýra heiminn fyrir áhorfandanum, ekki felldir dómar,

heldur er saga fólksins sem tengist efninu látin heyrast og áhorfendum gert að draga

sínar eigin ályktanir út frá því (Nichols, 2001).

4.3 Rockumentary

Orðið Rockumentary á rætur sínar að rekja til umfjöllunar útvarpsþáttar á KHJ í Los

Angeles um sögu rokktónlistarinnar frá árinu 1969 og er búið til úr samsuðu úr

frasanum Rock‘n Roll og svo enska orðinu documentary sem nær yfir efni sem byggir á

og er unnið upp úr heimildum (Baker, 2011).

Rockumentary er í stuttu máli heimildarmynd um dægurtónlist og

menningarfræðileg málefni sem hafa með tónlist að gera. Þetta eru myndir sem sýna og

segja frá tónlistarfólki, tónlistarviðburðum, tónlistarsenum og tónlistartengdum málum í

Page 42: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

40

formi viðtala og með kvikmynduðu efni, bæði nýju og gömlu í bland eftir aðstæðum og

umfjöllunarefni. Myndir úr þessum ranni fjalla gjarnan um ævi og feril tónlistarfólks

eða um tónleikaferðir listamanna en einnig um tónlistarsenur og stíla sem þróast á

ákveðnum svæðum og breiðast svo út (Baker, 2011).

Rockumentary myndir eru margar og margskonar en sem rannsóknarsvið er það enn

í mótun. Ekki skortir áhugann hjá almenningi og fjöldi framleiddra mynda sem falla í

þennan flokk er alltaf að aukast sem veitir þeim aukið vægi innan fræðanna (Baker,

2011). Nægir að nefna fjöldann allan af ferilsþáttum um tónlistarfólk sem framleiddir

eru fyrir sjónvarpsstöðvar á borð við VH1 og MTV, nýjar heimildarmyndir framleiddar

fyrir streymisveitur á borð við Amazon og Netflix og svo fjöldinn allur af kvikmyndum

sem gerðar hafa verið um tónlistarfólk á borð við U2 (Rattle and Hum, 1988), The

Rolling Stones (Gimme Shelter, 1970, Shine a light, 2008, Crossefire Hurricane, 2012,)

Sigur Rós (Heima, 2007, Inni, 2011), Madonnu (Madonna: Truth or dare, 1991), Bob

Dylan (Dont Look Back, 1967, No Direction Home , 2005, Rolling Thunder Revue: A

Bob Dylan Story, 2019) og Bruce Springsteen (Springsteen and I, 2013, Springsteen on

Broadway. 2018) svo fátt eitt sé nefnt en hér eru á ferðinni myndir gerðar af leikstjórum

á borð við Martin Scorsese, D.A. Pennebaker og Dean DeBlois. Síðan má nefna myndir

um tónlistarviðburðina Woodstock (1970), Glastonbury (2006) og Live Aid (1985) og að

lokum myndir um tónlistarsenur líkt og Decline of Western Civilization (1981) um

pönksenuna í L.A í upphafi níunda áratugarins í leikstjórn Penelope Spheeris og seinna

meir The Decline of Western Civilization Part II: The Metal Years (1988) um

glysþungarokkið (Wikipedia, 2019), The Year Punk Broke (1991) um tónleikaferð

Sonic Youth með Nirvana og fleiri hljómsveitum, Screaming Masterpiece (2005)

leikstýrt af Ara Alexander Ergis Magnússyni og Rokk í Reykjavík (1982) í leikstjórn

Friðriks Þórs Friðrikssonar. Óhætt er að segja að ég sæki mikinn innblástur í allar þessar

myndir og sérstaklega Rokk í Reykjavík sem hafði ómælanleg áhrif á mig þegar ég sá

hana 10 ára gamall í Sjónvarpinu í ágúst 1983 (DV, 1983).

4.4 Hvernig mynd?

Tónlistartengdar heimildarmyndir falla þannig í stóran flokk eins og sjá má á umfjöllun

um rockumentary og þær eru margskonar að gerð. Óhætt er að segja að þar blandist

saman alla raddir heimildarmynda sem Bill Nichols telur til í bók sinni Introduction to

documentary (2001) og farið var yfir í kaflanum um raddir heimildarmynda.

Page 43: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

41

Tónlistarmyndir koma þannig úr öllum áttum en þar má finna skýringarmyndir,

athugunarmyndir, þátttökumyndir og íhugunarmyndir sem eiga það sameiginlegt að

fjalla allar um tónlist og dægurtónlistarmenningu á einn eða annan hátt og falla þannig

líka í flokk rockumentary-mynda.

Off Venue – Tónlist tónlistarinnar vegna er heimildarmynd sem grípur niður í

tónlistarsenunni í Reykjavík árið 2016 á sýnir frá þeim vettvangi sem Off Venue-

dagskráin bauð upp á þegar dagskráin var sem stærst í sögu Airwaves. Myndin, sem

hefur mannfræðilegan blæ, fjallar um Off Venue, tónlistina og böndin sem þarna koma

fram. Þannig kynnast áhorfendur aðilum sem standa að baki viðburðum á Off Venue,

sjá þá sem opna dyr sínar fyrir tónlistinni og standa að baki viðburðum. Leitast er við að

varpa ljósi á þetta fyrirbæri og hvort það hafi mikilvægu hlutverki að gegna í

tónlistarlífinu, fyrir tónleikagesti á Airwaves og lífið í borginni. Þetta er gert í gegnum

svör viðmælenda við spurningum kvikmyndagerðarmannsins, en rödd spyrjandans fær

nánast aldrei að heyrast í myndinni. Markmiðið er í stuttu máli að kafa ofan í fyrirbærið

Off Venue og varpa ljósi á mátt þess í umgjörð Iceland Airwaves með viðtölum við

listamenn, starfsmenn Iceland Airwaves sem og sérfræðinga sem þekkja vel til

tónlistargeirans.

Í þessu samhengi er Off Venue – Tónlist tónlistarinnar vegna tvímælalaust

rockumentary-mynd enda er í henni tónlist og hún fjallar um tónlist og tónlist sem á sér

líf á ákveðnum vettvangi, á ákveðnum tíma. Þar sem myndin er tekin upp á vettvangi og

viðtölum er beitt til að miðla upplýsingum til áhorfenda á hún að miklu leyti heima í

tveimur ef ekki þremur flokkum Nichols yfir gerðir heimildarmynda. Í fyrsta lagi má

setja hana í flokk athugunarmynda þar sem fylgst er með því sem gerist á vettvangi án

þess að reynt sé að hafa áhrif á það sem er að gerast en þetta á sérstaklega við þegar

tónleikar listafólksins eru teknir upp. Hér er markmiðið að fanga augnablikið, að vera á

staðnum og fylgjast með viðfangsefninu, gefa áhorfendum tækifæri til að upplifa

stemninguna á raunsæjan hátt í gegnum myndavélalinsuna sem fangar viðfangsefnið

óuppstillt. Að sama skapi fellur myndin mjög vel að fjórðu röddinni, hún er

þátttökuheimildarmynd, og að mínu mati er sú rödd jafnvel mun sterkari og talar hærra.

Hér er ákveðin mannfræðileg nálgun þar sem fyrirbæri er rannsakað, nærvera

kvikmyndagerðarmannsins er til staðar og myndin er greinilega gerð á þeim vettvangi

þar sem hlutirnir eru að gerast. Í myndinni eru mörg viðtöl við hlutaðeigandi aðila sem

sjá má spila tónlist á þeim stöðum sem fylgst er með og í þessum viðtölum lýsa þeir

Page 44: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

42

reynslu sinni og hugmyndum um þetta hliðarsjálf hátíðarinnar. Greina má mikla nálægð

og sterkt samband á milli spyrils og viðmælenda í myndinni en það einkennir oft

þátttökuheimildarmyndir. Að lokum má einnig greina áhrif frá fimmtu röddinni,

íhugunarmyndin sem einnig er nefnd sjálfhverfamyndin. Myndin byggir á og deilir

persónulegri reynslu minni og skín áhugi minn sem tónlistaraðdáanda þarna í gegn. Þó

svo að ég sé ekki beint að ljá myndinni mínar skoðanir í tali þá geri ég það í tónum og

þar að auki er það ég sem stend að baki framleiðslunni. Það er ég sem vel efnið,

sjónarhornið, tek viðtölin og spyr spurninganna og því eru áhrif mín ekki umflúin sem

og nálægð mín við efnið.

Þegar unnið er með heimildarmyndaformið er gott að leiða hugann að því að um

leið og þessi miðlunarleið kemst næst veruleikanum þar sem höfðað er til fjölbreyttrar

skynjunar með hljóði og mynd er nauðsynlegt að vera meðvitaður um takmarkanir

miðilsins sem og kosti hans. Glugginn sem horft er innum er alltaf skilyrtur af

aðstæðum og þeirri staðreynd að á bakvið myndavélina er einhver sem velur

sjónarhornið. Tímaramminn er knappur og hér er erfitt að koma á framfæri flóknu

sögulegu samhengi án þess að eiga það á hættu að missa athygli áhorfenda. Allt það efni

sem tekið er upp er klippt út frá sjónarhorni og hugmyndum leikstjórans með það að

markmiði að miðla efninu sem best til áhorfandans og segja söguna eins og höfundur

myndar telur best í rökstuddu samhengi hlutanna þar sem heimildarmyndir fjalla um

raunverulega atburði. Efnið er alltaf meðhöndlað í eftirvinnslu þar sem valið er úr því

og klippt til þannig að það henti kvikmyndinni sem verið er að skapa og uppbyggingu

hennar (Nichols, 2001; Arnar Árnason, 2002). Þannig verður vettvangsathugun

myndarinnar (etnógrafían) skilyrt þar sem sjónarhorn sögunnar byggir á vissri

framsetningu höfundar og því með fingraför hans á linsunni. Allt mannlegt er gert í

ákveðnum tilgangi, meðvitað eða ómeðvitað, fyrir því liggur ákveðin vissa. Hafa ber í

huga að heimildarmyndir geta aldrei verið hreinn gluggi inn í raunveruleikann og líf

annarra því merking getur aldrei skilað sér að fullu til áhorfandans og hefur ýmislegt þar

áhrif á. Aðstæður hafa áhrif á það sem tekið er upp og ekki má gleyma að í

eftirvinnslunni eru hlutir klipptir til og jafnvel settir í annað samhengi. Þar að leiðandi er

framsetning veruleikans sem heimildarmyndin sýnir skilyrt af ákveðnum pólitískum og

menningarlegum aðstæðum (Arnar Árnason 2002; Halla Kristín Einarsdóttir, 2015).

Fólki hættir til að trúa því að kvikmyndir og myndir ljúgi ekki en tæknilega séð er

mynd tilbúningur eins og mannfræðingurinn Jay Ruby kemur inn á grein sinni um

Page 45: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

43

siðfræði í myndum en þar bendir hann réttilega á að það má ekki gleymast að kvikmynd

er ekki bara búin til tæknilega heldur líka tilbúningur einstaklinga sem hafa

undirliggjandi markmið með túlkun sinni á veröldinni. Þessir einstaklingar tilheyra

einnig hópi og menningarheimi sem veldur því að veröldin er spegluð frá ákveðnu

sjónarhorni þrátt fyrir fögur fyrirheit um faglega nálgun og vinnubrögð. Myndtæknin

getur aldrei veitt okkur hlutlausan vitnisburð um raunveruleikann og segir Ruby það

siðferðilega skyldu kvikmyndagerðarfólks að sýna áhorfendum að verk þeirra spegli

ekki samfélagið á hlutlægan hátt því hin raunsanna mynd sé ekki í boði (Ruby, 1977).

Nærvera myndavélarinnar og annars fólks hefur áhrif á viðfangsefnið og

viðmælendur fara jafnvel í aðrar stellingar og gera og segja hluti sem þeir telja

„nauðsynlega“ og þannig verður til leikrit sem á ekkert skylt við raunveruleikann. Erfitt

getur verið að koma auga á þetta eða spyrna við þessu en þetta veldur truflun á boðum

og skilboðin bjagast, sannleikurinn veður tilbúinn. Þetta getur bæði gerst hjá þeim sem

miðlar en líka hjá þeim sem tekur á móti skilboðunum. Merkingin á viðfanginu getur

því breyst og teygst þegar heimildarmyndin á í hlut, orðið önnur vegna mistúlkunar

miðlarans eða áhorfenda og má því segja að það sé stundum móða á glugganum sem

horft er innum eða fingrafar á linsunni.

Page 46: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

44

5. Iceland Airwaves í stuttu mál

Það er alveg merkilegt að fólk kaupir ekki miða þegar það sér mynd af

hljómsveitinni. Það kaupir miða á tónleika þegar það sér að það er fjör á

tónleikum með henni. Ef það sér svita og tár, þá kaupir það miða!

- Einar Örn Benediktsson, tónlistarmaður og fv. póstbifreiðarstjóri10

Rannsóknir í viðburðarfræðum lýsa þróun hátíða og viðburða á þá leið að í upphafi

þjóni hátíð sértækum markmiðum samfélagsins sem hún sprettur úr áður en hún nær að

vekja áhuga og draga að ferðamenn. Í byrjun þjóni hátíðin sértækum tilgangi og það sé

sá kjarni sem hún þurfi að þjóna ásamt því að takast á við ný hlutverk sem fylgja vexti

og vinsældum (Vinnicombe, T. og Sou, J.P.U.,2017). Nóg hefur verið ritað um þróun

Iceland Airwaves í gegnum árin og samband hátíðarinnar við íslensku tónlistarsenuna

og ég hef ákveðið að feta ekki frekar þá slóð hér en mun þó rekja stuttlega sögu

Airwaves, horfa á hvað gerir hana einstaka og áhrifaríka auk þess að fjalla almennt um

hátíðir og hvað gerir þær eftirsóknarverðar og tengja efni myndarinnar.

Iceland Airwaves hátíðin hefur nú verið haldin í tuttugu ár. Fyrst árið 1999 í

flugskýli á Reykjavíkurflugvelli en svo hefur hátíðin dreift úr sér á alla helstu

tónleikastaði Reykjavíkurborgar og er í dag stærsta og þekktasta tónlistarhátíð landsins

(Iceland Airwaves, 2019; Tómas Young, 2013). Frá því að hátíðin var haldin fyrst hefur

hún haft þann megin tilgang að efla íslenska tónlist ásamt því að koma íslenskum tón-

listarmönnum á framfæri erlendis og í erlendum fjölmiðlum. Annað markmið með

hátíðinni, og sem hefur verið vaxandi hlutverk síðastliðinn áratug, er að flytja inn

erlenda ferðamenn til landsins á tíma sem ferðamannastraumur er minni (Grímur

Atlason, 2016).

Árið 2010 tók Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, ÚTÓN, ásamt Icelandair

rekstur Iceland Airwaves yfir af fyrri rekstraraðila Hr. Örlygi (Mbl.is, 2010). Í kjölfarið

var stofnað félag innan ÚTÓN til að halda utan um rekstur hátíðarinnar. Grímur Atlason

var ráðinn sem framkvæmdastjóri Iceland Airwaves og stóð hann vaktina í átta ár en lét

af stöfum árið 2018 þegar Sena Live keypti rekstur Iceland Airwaves af Icelandair en

rekstur hátíðarinnar hafði verið þungur árin áður (Kjarninn, 2018; Kolbeinn Tumi

Daðason, 2018a og 2018b). Í dag líkt og áður er hátíðin í nánu samstarfi við Icelandair

10

Tilvitnun er fengin úr viðtali sem Jóhannes Stefánsson tók við Einar Örn fyrir Viðskiptablaðið þann 13.

nóvember 2014, bls. 2.

Page 47: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

45

sem skuldbatt sig við söluna til Senu Live til að vera áfram einn helsti styrktar- og

samstarfsaðili Iceland Airwaves og styðja við markaðssetningu hátíðarinnar, innanlands

sem utan (Kjarninn, 2018; Iceland Airwaves, 2019; Kolbeinn Tumi Daðason, 2018b).

Iceland Airwaves er líka með samstarfssamning við Menningar- og ferðamálasvið

Reykjavíkurborgar sem veitir fjárstuðning til hátíðarinnar þar sem hátíðin er útnefnd ein

fjögra borgarhátíða Reykjavíkur 2017 til 2019. Nýjasti samningur þess efnis var

undirritaður í apríl 2018 og gildir til 31. desember 2019. Á samningstímanum greiðir

Reykjavíkurborg Iceland Airwaves ehf. 22 milljónir króna að uppfylltum skilyrðum

samstarfssamningsins (Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur, 2018; Benedikt

Bóas, 2018).

Markmið samstarfsins eru eftirfarandi:

vera til eflingar menningar og listum í Reykjavík

vera opin almenningi, aðgengileg og sýnileg

hafa verið haldin að lágmarki fimm sinnum

vera haldin árlega

vera með alþjóðlega tengingu

standa yfir í þrjá daga eða lengur

vera með faglega stjórn

viðhafa góða stjórnarhætti og rekstrarlegt gegnsæi

fullnægja kröfum um fagmennsku og gæði

vera framúrskarandi á sínu sviði

(Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur, 2018).

Í samninginum kemur einnig fram hver tillangur og markmið Airwaves eru:

efla tónlistarlíf í Reykjavík, auka fjölbreytnina og hvetja unga fólkið til dáða

koma íslenskum tónlistarmönnum á framfæri erlendis

efla útflutning íslenskrar tónlistar

styrkja jákvæða ímynd íslenskrar tónlistar, bæði innanlands og utan

vekja athygli á Reykjavík sem tónlistarborg

fjölga ferðamönnum utan háannatíma

(Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur, 2018).

Stuðningur Icelandair og Reykjavíkurborgar er alveg ómetanlegur fyrir Iceland

Airwaves en hátíðin er að sama skapi gríðarleg vítamínsprauta fyrir

ferðamannaiðnaðinn yfir vetrarmánuðina. Árið 2010 voru 280 tónleikar í kortunum og

annað eins á Off Venue. Uppselt var á Airwaves og yfir 2300 erlendir gestir sóttu

hátíðina og þar af um 400 blaðamenn og fólk sem starfar í tónlistariðnaðinum (Grímur

Page 48: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

46

Atlason, 2010). Sex árum síðar var staðan orðin allt önnur en 2016 var líka búist við því

að uppselt yrði á hátíðina, 9000 manns með armband11

og meirihluti þeirra erlendir

ferðamenn en þannig var það búið að vera síðan 2012 en fyrir það höfðu Íslendingar

verið fjölmennari á hátíðinni (Grímur Atlason, 2016).

Off Venue-tónleikum hafði að sama skapi fjölgað til muna. Árið 2015 voru þeir

690 talsins en 2016 sló öll met þar sem boðið var upp á 821 tónleika. Grímur skaut á að

í kringum 70 þúsund manns myndu njóta Off Venue á einn eða annan hátt vikuna sem

Iceland Airwaves færi fram. Hin formlega dagskrá bauð hinsvegar upp á 250 tónleika

sem 219 hljómsveitir/listamenn sáu um að fylla (Lucy Hill, 2016; Grímur Atlason,

2016).

Það er margt sem mælir með því að standa vel við bakið á tónlistartengdum

hátíðum en þeim hefur farið fjölgandi um allan heim síðustu fjörutíu ár og vekja áhuga

ferðamanna á menningu þjóða og á stöðum sem eru ekki í alfaraleið. Hátíðir þurfa tíma

til að festa sig í sessi en með tíð og tíma vekja þær áhuga sífellt stærri hóps. Til þess að

svo verði þarf að vanda til verka, byggja upp orðspor og leyfa verkefninu að vaxa á

náttúrulegan hátt án þvingana og þannig rækta hið einstaka. Íslensk tónlist hefur

einstakan sjarma og vekur greinilega áhuga tónlistaraðdáenda sem koma hingað og

upplifa það sem Iceland Airwaves hefur upp á að bjóða. Viðburðafræðingar vekja

athygli á því að nauðynlegt sé að leyfa íbúum borga þar sem hátíðir fara fram að taka

þátt og bæta við dagskrána. Þannig sé búin til samkennd og stolt meðal þátttakenda og

að auki sé komist hjá því að verkefni staðni eða einangrist í höndum skipuleggjanda

(Picard, D. og Robinson, M., 2006). Það má vissulega segja að þessi þróun hafi átt sér

stað með tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves en einnig má benda á Þjóðhátíð í Eyjum

sem gott dæmi um þetta þar sem vel má merkja þessa þátttöku samfélagslagsins sem

skilar sér í samkennd og frumkvæði þegar rýnt er undir yfirborðið.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að efnahagslegur ávinningur af tónlistarhátíðum er

jákvæður fyrir svæði og eru áhrif Airwaves hátíðarinnar þar engin undantekning.

Hugtakið skapandi atvinnugreinar (e. Creative industries) á vel við til að lýsa þeim

suðupotti sem Iceland Airwaves er. Hugtakið skapandi atvinnugreinar felur í sér

merkingu sem nær yfir víðann vettvang sköpunar, framleiðslu afurða og dreifingu

þeirra. Hér er átt við þjónustu sem miðlar og nýtir sér þekkingarverðmæti við sína

11

Armband er það sem tónleikagestir fá í skiptum fyrir aðgangsmiða á hátíðina og sýna til að fá inngöngu

á þeim fjölmörgu tónleikastöðum sem taka þátt í Airwaves. Tónlistarfólk og starfsfólk í tónlistargeiranum

ganga líka með armanband.

Page 49: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

47

tekjuöflun. Í stuttu máli blandast hér saman heimur lista, viðskipta og tækni þannig að

úr verða nýjar hugmyndir sem skapa samfélaginu ábata (Margrét Sigrún Sigurðardóttir

og Tómas Young, 2011).

Efnahagsleg áhrif Iceland Airwaves fyrir íslenskt samfélag eru töluverð og nægir að

nefna þrjár kannanir því til stuðnings, tvær sem Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar

(ÚTÓN) framkvæmdi í samvinnu við Reykjavíkurborg árin 2010 og 2011 á

ferðamönnum sem sóttu hátíðina heim og svo samnorræna könnun sem

Höfuðborgarstofa tók þátt í árið 2005. Niðurstöður úr rannsóknunum sýndu fram á

góðar tekjur af erlendum gestum sem eyða hundruðum milljóna á meðan á heimsókn

þeirra stendur. Þeir sem sóttu hátíðina heim árið 2005 voru að leggja til 185 milljónir

króna á þeim tíma en þá var eyðsla utan borgarinnar og ferðakostnaður ekki talinn með

(Tómas Young, 2013). Neysla ferðamanna árið 2010 náði 313 milljónum króna en jókst

svo upp í 482,5 milljónir árið á eftir. Líkt og áður þá var ferðakostnaður og eyðsla utan

höfuðborgarsvæðisins ekki tekin með í reikninginn (Tómas Young, 2010; 2011; 2013).

Áhugavert er svo að nefna til sögunnar fjórðu könnunina sem var gerð af ÚTÓN í

samstarfi við Íslandsstofu árið 2012 en þá jókst eyðsla erlendra gesta um 66% upp í 802

milljónir en aukninguna má helst skýra með fjölgun erlendra gesta á hátíðinni milli ára

úr 2.794 í 4.076 (Tómas Young, 2013).

Efnahagslegur ábati fyrir samfélagið af tónlistarhátíð á borð við Iceland Airwaves

er því gífurlegur og má áætla að velta verslunar í Reykjavík margfaldist yfir þá daga

sem hátíðin fer fram. Hafa ber í huga að ávinningur af hátíð eins og Airwaves er samt

mun meiri en hagrænn efnahagslegur ábati gefur til kynna. Ávinningurinn er

margþættari og stærri á heildina litið því hátíðin skilar líka miklum samfélagslegum,

listrænum og menningarlegum ábata til þjóðfélagsins. Airwaves er bæði vettvangur fyrir

fólk til að upplifa list, hittast og gleðjast en einnig svið fyrir tónlistarfólkið til að springa

út og tjá sig fyrir stóran hóp af hlustendum, koma list sinni á framfæri (Throsby, 2003;

Toynbee, 2000).

Á Iceland Airwaves gefst íslenskum áhorfendum að auki tækifæri til að sjá erlenda

listamenn koma fram í hópi allra þeirra listamanna sem fram koma en árið 2018 komu

til að mynda um 240 hljómsveitir og einyrkjar frá 25 löndum fram á hátíðinni (Mbl.is,

2018). Tónleikar á hátíðinni eru oftar en ekki eftirminnilegir og til mikillar fyrirmyndar

því öllu er til tjaldað til að heilla tónleikagesti, fjölmiðla og fagaðila en hátíðarhaldarar

leggja kapp sitt við að gera hátíðina alþjóðlega og því til mikils að vinna fyrir listamenn

Page 50: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

48

ef vel gengur. Rekstraraðilar Airwaves eiga í góðu samstarfi við ÚTÓN og STEF sem

leggja metnað sinn í að lyfta undir íslenska listamenn, styðja við tónlistariðnaðinn og

stuðla að tengslamyndum við erlenda fagaðila. Bryndís Jónatansdóttir verkefnastjóri

ÚTÓN bendir á í viðtali í DV árið 2018 að í tengslum við Airwaves standi ÚTÓN fyrir

ráðstefnu, tengslafundum og vinnusmiðjum sem opnar eru tónlistarfólki en þangað er

erlendum fagaðilum sérstaklega boðið að mæta, kynna sig og taka þátt í samtali við

íslenskt tónlistarfólk. Þetta er liður í því að ýta undir íslenska tónlist og um leið opna

tónlistarfólki dyr inn á erlenda markaði. Þarna gefst fólki tækifæri til að öðlast

mikilvæga þekkingu og skapa viðskiptasambönd sem leiða jafnvel til nýrra tækifæra til

tónleikahalds eða samstarfs á sviði útgáfumála og útrásarverkefna (Guðni Einarsson,

2018).

En af hverju fer fólk á tónlistarhátíðir, eftir hverju er það að sækjast og hvað gerir

þessa viðburði frábrugðna öðrum tónleikum? Þessu er ekki auðsvarað og innan

fræðanna er fólk sammála um að rannsóknir séu ekki orðnar nægilega margar til að

alhæfa um málið. Það er þó orðið nokkuð ljóst að tónlistarhátíðir færa fólk nær hvort

öðru, þær fá fólk til að upplifa samheldni sem treystir böndin og eykur vellíðan.

Tónleikagestir finna til frelsis í fjöldanum sem sækir tónleika og þarna finnur fólk annað

fólk sem hefur svipuð lífsviðhorf. Viðburðarstjórnandinn Sorcha McGrath gerði könnun

meðal ungs fólks sem leiddi í ljós fimm megin þætti sem þeim þótti mikilvægir þegar

það sótti tónlistarhátíðir: Fyrst var það tónlistin og sú upplifun sem hún færði unga

fólkinu, því næst var það hátíðin sjálf, hugmyndin um flótta frá hinu daglega umhverfi,

félagslegi þátturinn og svo síðast en ekki síst tengingin á milli tónlistar og tilfinninga. Í

stuttu máli var fókusinn hjá rannsóknarhópnum á góða upplifun í góðum félagsskap og

að öðlast nýja reynslu (McGrath, 2015). Tónlistarhátíðir höfða líka til fólks þar sem þær

bjóða upp á fjölbreytta dagskrá, samheldni og samkennd í stórum hóp og góða

skemmtun. Orðið hátíð, táknar gleði, fjör og fögnuður í tíma og rúmi þar sem fólk

kemur saman til að eiga góða stund fjarri dagsins amstri (Gibson og Connell, 2012).

Hafa ber í huga að tónlistarhátíðir sem teknar eru fyrir í erlendum rannsóknum eru

jafnan ekki borgarhátíðir eins og Iceland Airwaves. Þar er verið að rannsaka hátíðir eins

og Glastonbury, The Big Day Out og Hróarskeldu en þarna eru þó líka hátíðir inn á

milli sem eru haldnar til þess að draga að gesti að svæðum sem eru afskekkt og mörgum

ókunn. Hið óvænta og ókunna er einmitt beitt vopn í markaðskistu Iceland Airwaves því

tónlistarhátíðir sem bjóða upp á eitthvað óvænt og ögrandi eru að tikka í réttu boxin hjá

Page 51: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

49

tónlistarferðalöngum auk þess sem smæð og möguleikinn á að komast í nálægð við

tónlistarfólkið líkt og á Airwaves þykir afar verðmætt í huga tónleikagesta (McGrath,

2015).

Margar tónlistarhátíðir eru haldnar ár hvert um heim allan og þær eru jafn

mismunandi og þær eru margar. Tónlistarhátíðir reyna eftir fremsta megni að tengjast

þeim stöðum sem þær eru haldnar á og leita sér að sérstöðu sem getur falið í sér til

dæmis tónlistarstefnu eða stað. Það sem einkennir líka tónlistarhátíðir er að þær

innihalda marga listamenn og marga tónleika sem eiga sér stað yfir nokkurn tíma, allt

frá einum degi yfir í nokkra daga (Bowen, Heather E. og Daniels, Margaret J, 2005).

Ástæður fólks til að sækja tónlistarhátíðir eru vissulega margar og mismunandi en áhugi

á tónlist er þó alltaf sameiginlegur þáttur og mikilvægt er að hafa í huga að

tónlistarferðamennska hefur verið í mikilli uppsveiflu og ábati af komu ferðamanna á

Iceland Airwaves er mikill, bæði hagrænn, félagslegur og samfélagslegur (McGrath,

2015; Tómas Young, 2011, 2013).

5.1 Markmið, markaðssetning og markhópar Iceland Airwaves

Helstu markmið Iceland Airwaves (Grímur Atlason, 2016; Tómas Young, 2013; Jóhann

Ágúst Jóhannsson, 2010):

1. Að kynna íslenska tónlist og tónlistarmenn

2. Að bjóða upp á nýja, ferska og spennandi erlenda listamenn

3. Að skemmta fólki

4. Að ná til innlendra og erlendra tónlistaraðdáenda

5. Að ná til erlendra blaðamanna og kynna íslenska menningu, náttúru og þjóðlíf

6. Að ná til tónlistarbransafólks og kynna íslenska tónlist

7. Að kynna land og þjóð

8. Að skapa tengslanet fyrir íslenskt tónlistarfólk og íslenskan tónlistarbransa

útfyrir landssteinana við til dæmis erlenda tónlistarblaðamenn, erlendar

tónlistarhátíðir og erlendan tónlistariðnað

9. Að efla og styrkja íslenskt efnahagslíf

10. Að efla og styrkja íslenskt samfélag og menningarlíf á Íslandi

Page 52: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

50

Markhópur Iceland Airwaves er til að byrja með tvískiptur: a) Íslendingar og b)

Útlendingar. Það sem þeir eiga sameiginlegt:

Ungt fólk 18 til 25ára

Fólk á aldrinum 26 ára til 45 ára

Fólk sem er vel stætt og vill skoða heiminn

Hefur áhuga á menningu og þá sérstaklega tónlist (tónlistarferðalangar)

Bæði karlmenn og konur

Fólk sem vill skemmta sér

Fólk sem hefur áhuga á því að ferðast

Einstaklingar sem eru opnir fyrir nýjungum

Fólk sem er að leita að nýrri upplifun

Blaðamenn og fólk sem vinnur í tónlistariðnaðinum

Íslenska markhópinn þarf að nálgast með því að bjóða upp á spennandi dagskrá sem

er í takt við tímann. Dagskráin verður að höfða til tónlistaráhugafólks en hún þarf einnig

að tala til hins almenna tónlistarhlustanda og lofa góðri skemmtun en þessum

markmiðum má ná með því að bóka vinsæla, vaxandi og virta erlenda listamenn og

vinsæla íslenska listamenn. Tónlistarpælarar þurfa að fá eitthvað sem nær bæði djúpt og

breytt þannig að bjóða þarf upp á spennandi tónlistarstefnur, nýja og framsækna

listamenn úr öllum geirum tónlistar, bæði innlenda og erlenda.

Úti í hinum stóra heimi er Ísland þekkt fyrir framsækna tónlist og skapandi listir.

Því er mikilvægt að sækja þá tónlistarferðamenn og hópa sem hafa áhuga á slíkri tónlist

en hafa einnig áhuga á Íslandi, náttúru landsins, sögu og menning sem og iðandi

mannlífi Reykjavíkurborgar. Það þarf að beina spjótunum að ungu og ævintýragjörnu

fólki sem er vel stætt og fram til þessa hefur gengið vel að ná til þess hóps (McGrath,

2015; Jóhann Ágúst Jóhannsson, 2010).

Þegar kemur að því að fá fólk til að kaupa vöru er mikilvægt að greina

neytendahegðun, vonir og væntingar markhópsins. Margir þættir hafa áhrif á verð- og

kaupgetu en kauphegðun fólks stýrist af þáttum eins og áhrifum umhverfis, tekjuþáttum,

frítíma, áhugamálum, sérstöðu viðburðar, samfélagslegum þáttum, samkeppni og

lífsuppfyllingu sem leitað er eftir svo fátt eitt sé nefnt (Shone og Parry, 2004).

Mikilvægt er að skilja og þekkja þá hvata sem fá fólk til að bregðast við en breytur geta

verið mjög fjölbreyttar þegar kemur að því hvers vegna einhver tekur þátt í viðburði.

Page 53: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

51

Hvatar geta einnig verið fleiri en einn, til dæmis getur aðalástæða fyrir þátttöku verið

félagsleg en á eftir henni fylgir svo skemmtana- og afþreyingarþrá (McGrath, 2015).

Löngun til að upplifa eitthvað alveg einstakt vegur þungt og því hefur borg sem

iðar af lífi og býður upp á tónleika frá morgni til kvölds gott samkeppnisforskot, það er

meira að segja hægt að fara á tónleika á dvalarheimili eldri borgara. Markaðssetning er

nefnilega ekki bara að fá fólk til að mæta heldur einnig að tryggja það að ánægja og

upplifun standist þær væntingar sem fólk hefur og að viðburðurinn uppfylli þær skyldur

og loforð sem búið er að veita í gegnum kynningu og markaðssetningu.

Árið 2016 var lagt upp með að gestir hátíðarinnar yrðu ríflega 9 þúsund, það er að

segja gestir með armband samkvæmt Grími Atlasyni (2016). Hann benti á að það væri

toppurinn og að hátíðin bæri ekki meiri fjölda. Meirihluti tónleikagesta voru erlendir

ferðamenn en fram að árinu 2012 höfðu Íslendingar verið fjölmennari á hátíðinni. Þessi

þróun er í takt við markmið hátíðarinnar og það samstarf sem hún á við Icelandair og

Reykjavíkurborg sem gengur út á að fjölga útlendingum utan háannatíma. Grímur tekur

þó fram að það sé afar mikilvægt að Íslendingar sæki einnig hátíðina og tekur sterkt til

orða þegar hann segir að ef Íslendingar geri það ekki þá muni hátíðin deyja (Grímur

Atlason, 2016).

Page 54: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

52

6. Off Venue: Mikilvægi og breyttar áherslur

Ástæður fólks til að spila á Off Venue eru margar og mismunandi. Þarna er hægt að

upplifa allan skalann, sjá fræga listamenn og óþekkta sem vilja ná til fleira fólks með

því að spila fleiri tónleika, kynna sig og tónlist sína fyrir nýjum áhorfendum og

bransafólki sem er í bænum og að gera eitthvað öðruvísi. Hér er mikilvægur vettvangur

fyrir ný bönd til að öðlast reynslu við að koma fram fyrir ólíka hópa sem eru á Íslandi á

þessum tíma. Lucy Hill (2016), sem sá um Off Venue-dagskrána, bendir á að það ríki

mikill og góður andi á hliðardagskránni sem veitir listamönnum ákveðið frelsi sem þeir

geti ekki alveg nýtt sér á stóra sviðinu. Þarna sé í boði önnur reynsla fyrir alla sem koma

og sjá og einnig þá sem eru að koma fram. Lucy telur áhorfendur vera einstaklega opna

fyrir nýjungum þegar þeir séu staddir á Airwaves enda andrúmsloftið alveg einstakt

(Lucy Hill, 2016).

Þetta er hluti af því orðspori sem Ísland hefur fengið á sig, að vera einstakur staður

þar sem sköpunarkrafturinn er mikill og ýtt er undir frelsi til að reyna eitthvað nýtt og

gestir hafa ákveðnar væntingar um slíka upplifun. Sérstaða íslenskrar tónlistar þykir

mikil og má þar nefna til sögunnar listamenn eins og Björk, múm, Gus Gus, Ólaf

Arnalds, amiina, Hildi Guðnadóttur, Of Monsters and Men og Sigur Rós. Það þykir

sérstakt hve margir hæfileikaríkir tónlistarmmenn koma frá Íslandi og ímynd landsins á

mikið undir tónlist komið. Íslensk tónlist vekur athygli erlendis og hún nýtur virðingar.

Fólksfjöldi, eða kannski öllu heldur fólks fæð, á Íslandi hefur sín áhrif á allt skipulag,

framkvæmd viðburða og samskipti innan tónlistarsenunnar. Það hefur verið lenska

innan tónlistargeirans að bjarga sér sjálfur og aðstoða að sama skapi náungann með

besta móti. Á íslensku tónlistarsenunni getur einstaklingurinn haft mikil áhrif á

umhverfi sitt og samfélag og þetta á svo sannarlega við samfélag tónlistarfólks.

Hlutirnir eru oft fljótir að gerast, svo fljótir að undrun sætir og sér í lagi í augum

útlendinga sem eru ekki vanir slíkri sjálfsbjargarviðleitni. Það er hægt að gera margt á

eigin rammleik og eigin forsendum sem er ótrúlegt í sjálfu sér því tónlistargeirinn á það

til að vera formlegur og hægfara. Þetta er mikil lukka en líka bölvun því menn reka sig

oft á en á sama tíma er lært af reynslunni og skrifræðinu er haldið í lágmarki (Arnar

Eggert Thoroddsen, 2019).

Árið 2010 lagði ég stund á verknám í viðburðastjórnun á skrifstofu Iceland

Airwaves. Ég hafði orð á því í lokaskýrslu sem ég ritaði um verknámið að það væri

„mikilvægt að huga að því að það eru margir að sækja hátíðina sem eru að leita sér að

Page 55: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

53

viðburðum sem kostar ekki inn á og aldrei fyrr hefur Off-venue dagskrá IA verið

glæsilegri fyrir þá sem ekki áttu miða á hátíðina en einnig þá sem ekki eru nægilega

gamlir til að sækja skemmtistaði að kvöldi til“ (Jóhann Ágúst Jóhannsson, 2010).

Off Venue hluti dagskrár Iceland Airwaves hefur alltaf verið mér kær og vakið hjá

mér bæði athygli og eftirvæntingu. Þarna leysist úr læðingi mikill kraftur og fjölbreytnin

er allsráðandi þegar kemur að tónlistarstefnum og tónleikastöðum. Það er eitthvað

virkilega heillandi, óvænt og öðruvísi við tónleika í almenningsrými verslana,

veitingarstaða og stofnana í miðbænum sem er yndislegt að upplifa. Fólk hjálpast að og

allir fá að taka þátt enda eru viðburðir gjaldfrjálsir og það er ekkert aldurstakmark. Í

þessum rýmum myndast oft á tíðum alveg ótrúleg stemning þegar dúndrandi

diskótónlist eða ólgandi rokkið flæðir um.

Áhorfendur láta sig ekki vanta á þessa viðburði og fólk nýtur þess út í ystu æsar að

upplifa nýja tónlist, á nýjum stað, með nýjum andlitum, en þessi stemning er einmitt það

sem fangar Airwaves-andann og undirbýr fólk fyrir það sem kvöldið ber í skauti sér á

þekktustu tónlistarhátíð Íslands. Grímur Atlason (2016) fullyrðir að hann hafi hvergi séð

aðra eins Off Venue-dagskrá eins og á Iceland Airwaves og á þessum tíma sótti hann

tónlistarhátíðir um allan heim. Hann tekur fram að hann hafi aldrei séð borg, nema

kannski Austin í Texas, umbyltast líkt og Reykjavík gerir þessa daga. Hér vita allir

borgarbúar að hátíðin er í gangi, það er vel tekið á móti gestum og fólk er mjög jákvætt í

garð hátíðarinnar. Það er þessi tilfinning að þetta sé gaman og gott, og til þess að

skemmta en ekki til leiðinda, sem gerir Reykjavík öðruvísi og sérstaka þessa viku

(Grímur Atlason, 2016).

Staðir sem bjóða upp á tónleika á Off Venue búa til sína dagskrá sjálfir en

Airwaves aðstoða staðina við að bóka bönd, komast í samband við rétt fólk og vera rétt

undirbúinir fyrir móttöku listamanna. Grímur tekur það sérstaklega fram hve mikilvægt

það sé að fylgjast vel með því hvenær og hvar bönd eru að spila á Off Venue til að engir

árekstrar verði við aðaldagskrána því listamenn verða að mæta tímanlega í hljóðprufur á

daginn og svo aftur á tónleika um kvöldið. Einnig kemur það oft fyrir að meðlimir

sveita eru í mörgum böndum og þá þarf að vera tími til að komast á milli staða enda geti

fólk aðeins verið á einum stað í einu. Öll dagskrá er árekstrarprófuð nokkrum sinnum í

undirbúningnum, bæði hin formlega dagskrá og svo hliðardagskráin, til að koma í veg

fyrir slíka árekstra (Grímur Atlason, 2016).

Page 56: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

54

Grímur, starfaði sem framkvæmdarstjóri Iceland Airwaves frá 2010 og fram í

byrjun ársins 2018, lagði metnað í að Off Venue-dagskráin væri í góðum samhljómi við

hátíðina, vel skipulögð og spennandi. Í viðtali fyrir myndina leggur hann áherslu á að

Off Venue sé skemmtileg viðbót við hátíðina og að þessi dagskrá veiti henni aukið vægi

en geti að sjálfsögðu ekki stækkað endalaust líkt og hún hafði gert síðustu árin. Hann

bendir á að þessu fylgi líka neikvæð ruðningsáhrif þar sem margir kaupi sér vissulega

ekki miða og fari eingöngu á viðburði tengda Off Venue hátíðarinnar (Grímur Atlason,

2016). Lárus Jóhannesson, eigandi 12 Tóna, var á svipuðum nótum þegar rætt var við

hann. Lárus bendir á að Off Venue sé orðin stór hluti af upplifuninni sem Airwaves

bjóði uppá. Þarna sé svið fyrir óþekkt bönd til að stíga fram á og spennandi vettvangur

fyrir tónlistarþyrsta gesti hátíðarinnar til að upplifa íslenska tónlist allan daginn þegar

það gengur um bæinn (Lárus Jóhannesson, 2016).

Grímur (2016) bendir á hve merkilega víðferm Off Venue-dagskráin sé orðin og að

hún sé opin öllum. Tónlistarfólk kemur fram um allan bæ og hann efast ekki um að

þetta gefi hátíðinni aukið vægi. Viðbótin er stór og lyftir hátíðinni. Markmiðið er að

lífga upp á Reykjavík og lyfta þeim stöðum sem taka þátt en það er í grunninn ekki

mikill ágóði í því að halda Off Venue. Þetta er meira að gera sér dagamun og bæta við

gleðina (Grímur Atlason, 2016).

Viðmælendur í myndinni voru spurðir um hvort Off Venue á Airwaves væri í eðli

sínum mikilvægt og um ýmislegt annað því tengt. Það er gott að taka það fram að

viðtölin sem vitnað er hér í voru tekin tæpum tveimur árum áður en rekstur hátíðarinnar

færðist yfir til Senu Live sem átti eftir að gera breytingar á rekstrarfyrirkomulagi Off

Venue, meðal annars að draga verulega úr þeirri dagskrá þar sem hún var talin ógn við

tekjur af miðasölu á hátíðina (Birgir Olgeirsson, 2018; Iceland Review, 2018).

Tónlistarkonan Hildur er ein þeirra sem er ekki í neinum vafa um sérstöðu Off

Venue á Airwaves en hún segir að áhorfendur sem komi til að mynda á Off Venue í 12

Tónum séu þeir sem eru mikið að spá í tónlistinni, séu tónlistarspekúlantar. Á þessum

vettvangi nái hún oft mjög góðri tengingu við áhorfendur enda sé hún gjarnan

persónulegri á slíkum tónleikum og að hún þurfi að sama skapi að gefa meira af sér

(Hildur, 2016).

Bíó Paradís stóð fyrir flottri dagskrá á Off Venue 2016 og sagði Ólafur Halldór

Ólafsson (2016), sem þá var rekstrarstjóri bíósins, að margir hefðu sótt um að taka þátt

og að það væri vöxtur í þessu hjá honum þar sem dagskráin væri að byrja kl. 13 og

Page 57: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

55

stæði til klukkan 19. Ólafur Halldór sagði fólk mæta snemma og það væri augljóst á

gestum að þeim langi að taka daginn snemma og fara á tónleika og það sé einmitt

markmiðið að halda úti dagskrá fyrir það fólk. Ólafur hafði svipaða sýn og Lárus í 12

Tónum og sagði Off Venue Iceland Airwaves vera hreinlega eins og aðra hátíð sem

virki vel með aðalhátíðinni sem væri ótrúlega skemmtilegt (Ólafur Halldór Ólafsson,

2016).

Tónlistar- og listamaðurinn Loji Höskuldsson bendir á að Off Venue sé fyrir honum

mjög mikilvægur partur af hátíðinni og kryddi hátíðina. Þarna gerast galdrarnir segir

Loji, þetta óvænta, og þarna kemst hann sem listamaður í meira tæri við áhorfendur.

Loji segir að á Off Venue geti hann líka upplifað bönd áður en þau nái vinsældum, bönd

sem eru jafnvel ekki á aðaldagskránni og því er þetta meira grúsk og afar spennandi.

Loji hefur einnig jákvæða upplifun af því að spila á Off Venue en þar náði hann m.a. að

komast í samband við erlenda plötuútgáfu og tónlistarbloggara (Loji Höskuldsson,

2016).

Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarblaðamaður og doktor í tónlistarfræðum setur

hátíðina og þróun hennar í sögulegt samhengi og bendir réttilega á að Iceland Airwaves-

hátíðin hafi gengið í gegnum athyglisverðar breytingar. Hún hafi vaxið og dafnað en í

kingum árið 2000 hafi verið brattar hugmyndir sem virkuðu ekki og fókusinn

endurstilltur, lögð áhersla á að fá bönd sem eru við það að slá í gegn og þeim hrært

saman við íslensku listamennina. Þannig varð hátíðin skemmtileg og áhugaverð fyrir

tónlistargrúskara. Engin sé það stór að hann skyggi á þá sem vilja og þurfa að koma sér

á framfæri og í þessum jarðvegi vex og dafnar Off Venue-dagskráin. Arnar Eggert segir

Off Venue vera mikla þjónustu við tónlistaraðdáendur þar sem þeir eiga betra færi á að

grípa sinn listamann oftar auk þess sem þarna sé hægt að sjá bönd koma fram á

formlegum tónleikum og svo óformlegum sem setur skemmtilegan blæ á stemninguna.

Þetta gefur líka barnafólki tækifæri til að mæta á tónleika að degi til og þeim sem eiga

ekki miða til að vera með sem er bara fallegt. Arnar Eggert bætir við að í Off Venue

megi sjá ákveðið gildi Airwaves fyrir Reykjavíkurborg. Á hátíðina kemur mikið af fólki

sem dvelur í stuttan tíma og nýtur borgarinnar á þeim stutta tíma sem það sækir tónleika

og þetta fólk segir frá dvöl sinni. Sem fasti í rekstri Reykjavíkurborgar þá hefur þetta

mikið að segja því popp og rokktónlist er mikið og mikilvægt samfélagslegt hreyfiafl.

Það blasir við fyrir leikmanni að þarna er tappað inn í uppsprettu sköpunar og þarna eru

mikil jákvæð áhrif. Þarna er eitthvað á ferðinni sem næst ekki annarsstaðar og er

Page 58: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

56

kannski best lýst sem fjölbreytileika. Í þessu liggur vaxtarbroddur og nýjar upplifanir

enda ekkert nema jákvætt við það að stækka Airwaveskökuna enda hafa gestir Airwaves

svo gaman að því að þvælast um og detta inn í einhverja snilld alveg óvart (Arnar

Eggert Thoroddsen, 2016).

12 Tónar hafa verið með frá uppfhafi Off Venue og þessi dagskrá hefur vaxið

mikið hjá búðinni þó hún sé ekki jafn stórtæk og fyrir um áratug síðan. Á árunum 2005

og 2006 var búðin undirlögð Off Venue allan daginn og þetta var risastórt partý. Í dag er

farin millivegurinn og verslunarreksturinn fær líka gott rými til að blómstra. Í augum

útlendinganna er þetta frábært segir Lárus Jóhannesson og bætir við að þetta framtak

hafi heppnast gríðarlega vel (2016).

Undanfarin ár hafa 12 Tónar boðið upp á sex atriði, tvö á dag, frá miðvikudegi til

föstudags. Fyrirspurnir frá tónlistarfólki um að fá að koma fram skipta hins vegar tugum

og það er oft erfitt að velja þar úr. Lárus tekur undir það sjónarmið að hátíðin hafi verið

að breytast, og sérstaklega hafi hún verið að stækka, og á tímabili var hún orðin of stór

en sé núna að finna jafnvægi á ný. Lárus segir Off Venue-dagskrána góða viðbót sem

gagnist gestum til að eiga fleiri tækifæri til að sjá listamenn en þetta eru fáir dagar og

mikið um að vera (Lárus Jóhannesson, 2016).

Lucy Hill (2016) og Lárus (2016) benda bæði á að dagskráin veiti fólki dýrmæt

tækifæri til að sjá listamann aftur sem fólk sé að uppgötva auk þess sem þarna er til

dæmis tækifærið fyrir fjölskyldur til að fara saman og njóta hátíðarinnar sem er einmitt

einn af hennar helstu styrkleikum, hvað hún höfðar og nær til stórs hóps. Það er alveg

einstakt fyrir tónlistaraðdáendur og barnafjölskyldur að geta séð og upplifað

uppáhaldsbandið sitt á pínu litlum stað í allt öðru umhverfi en á tónleikastað.

Hátíðin snýst um miklu meira en bara skemmtun. Þetta er eitthvað miklu dýpra en

það auk þess að vera uppskeruhátíð tónlistarbransans og mikil búbót fyrir

verslunarrekstur í miðbænum (Lárus Jóhannesson, 2016).

Markmið 12 Tóna með sinni dagskrá er að bjóða nýjum listamönnum í bland við

þekktari nöfn að koma fram þannig að gestir verslunarinnar geti heyrt eitthvað nýtt í

bland við gamalt en í gegnum árin hefur alltaf verið fullt út úr dyrum. Gestir leyfa Off

Venue að koma sér á óvart en það er þó ekki algilt því margir taka þetta mjög alvarlega

og sækja þar viðburði alveg eins og á aðaldagskránni og elta uppi sína uppáhalds

listamenn (Lárus Jóhannesson, 2016). Þegar Lárus er spurður um mun á On og Off

Venue þá er það helst alvaran sem og allur aðbúnaður sem er meiri á formlegum

Page 59: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

57

tónleikum. Á tónleikum hátíðarinnar er það fagmannleikinn sem einkennir alla

tónleikastaði hátíðarinnar, þaulvanir hljóðmenn og sviðsmenn koma tónlistinni

frábærlega til skila til tónleikagesta á meðan að skortur getur verið á slíkri fagmennsku

á utandagskránni. Það kemur þó oft ekki að sök þar sem slíkt er bætt upp með spilagleði

og frumleika tónlistarfólks sem leggur metnað sinn í að gera ávallt sitt besta og nefnir

Lárus (2016) þar hljómsveitina Grísalappalísu máli sínu til stuðnings. Að lokum segir

Lárus að þessir dagar sem hátíðin stendur yfir séu ákveðinn toppur á ísjakanum í

íslensku tónlistarlífi. Það sem gerist allt árið um kring á Íslandi tengist hátíðinni á

einhvern máta því að þarna blómstrar fólk, það er að undirbúa sig allt árið fyrir þessa

uppskeruhátíð tónlistarlífsins meðvitað og ómeðvitað (Lárus Jóhannesson, 2016).

Juliette Devert frá Secret City Records útgáfunni frá Kanada var að koma annað

árið sitt í röð á Iceland Airwaves en hún hefur meðal annars skrifað meistararitgerð um

íslenska tónlist og ímynd hennar. Sem starfsmaður hljómplötufyrirtækis býr hún yfir

reynslu af tónlistarhátíðum og í samanburði segir hún Iceland Airwaves vera afslappaða,

spennandi hátíð og þó að unnið sé að því að skapa tengsl og sambönd þá er það ekki

þvingandi né leiðinlegt eins og oft vill verða á stórum samkomum því hér sé

skemmtilegt og tónlistin í fyrirrúmi. Hún er ekki í nokkrum vafa um að hátíðin sé afar

mikilvæg fyrir Reykjavíkurborg auk þess sem nálægðin við náttúruna sé alveg dásamleg

og geri hátíðina alveg einstaka. Í hennar huga er aðal munurinn á milli Off Venue og

formlegra tónleika nándin sem gestir og listamenn geta átt saman. Það er einstakt þegar

fjarlægðin er ekki til staðar sem er vissulega málið á stórum tónleikum þar sem

listamaðurinn er langt í burtu upp á sviði. Juliette nefnir það að á Off Venue er meiri

kyrrð og ró en á venjulegum tónleikum, Off Venue staðurinn skapar ákveðin hughrif og

að tónleikum loknum er hægt að nálgast listamanninn sem er afar sérstakt (Juliette

Devert, 2016).

Thomas Morr er eigandi þýsku plötuútgáfunnar Morr Music sem hefur gefið út

fjöldan allan af íslenskum hljómsveitum. Sambandið við Ísland byrjaði að þróast upp úr

1999 þegar Thomas komst í kynni við Örvar Smárason í múm sem var að fíla útgáfuna

og leiddi það til samstarfs og útgáfu á plötum múm. Seinna átti Morr Music eftir að gefa

út og dreifa Sin Fang, Sea Bear, Pascal Pinon, Sóley, Benni Hemm Hemm, amiina og

fleiri íslenska listamenn (Thomas Morr, 2016).

Morr er sammála þeirri fullyrðingu að Off Venue sé mikilvægur þáttur í

heildarupplifun Iceland Airwaves og segir það þjóna mikilvægu hlutverki við að auka

Page 60: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

58

breiddina og bæta tækifæri listafólks til að koma fram. Það er oft erfitt fyrir listamenn

að fá gott pláss á almennu dagskránni, þ.e.a.s. að vera á góðum stað til að ná til fólks því

oft er reglan sú að listafólk fær bara að koma einu sinni fram og samkeppnin um

athyglina er mikil. Eins og gildir almennt með hátíðir eins og Iceland Airwaves þar sem

listamenn eru að reyna að kynna sig, þá er mikilvægt að hafa tækifæri til að koma oftar

fram því það gefur listamanninum líka aðgang að mismunandi áhorfendum. Morr bendir

einnig á að það sé gott fyrir mann í hans stöðu sem útgefanda að geta séð band koma

fram í mismunandi aðstæðum og umhverfi. Morr bendir á að það sé oft á tíðum

krefjandi að koma fram á Off Venue tónleikum því þar er gjarnan umgangur og

skvaldur en það gefur góða mynd af listamanni að sjá hvernig hann bregst við slíku

áreiti. Að lokum segir Morr það mikilvægt að geta átt þetta tækifæri að sjá band á Off

Venue því að hann er oft með mikla dagskrá á kvöldin og kemst ekki yfir allt sem hann

vilji sjá og því er þetta kærkomin viðbót til að sjá listamann koma fram. Hann bendir

einnig á að Off Venue-tónleikar geti gagnast aðdáendum sem kaupa ekki miða einhverra

hluta vegna og þarna fái listamennirnir tækifæri til þess að spila fyrir þessa aðdáendur

sína auk þess sem að á Off Venue leynist oft hið óvænta sem oft er það sem maður man

best eftir þegar upp er staðið (Thomas Morr, 2016).

Benedikt Reynisson hefur verið viðriðinn íslenska tónlist til fjölda ára en árið 2016

starfaði hann við viðburðarstjórnun og kynningarmál hjá Kex Hostel. Benedikt segir að

það hafi verið upp úr vinasambandi hans við starfsfólk bandarísku útvarpsstöðvarinanr

KEXP frá Seattle sem hafi leitt til Off Venue útsendinga útvarpsstöðvarinnar á Kex

Hostel en það samstarf hófst árið 2011. Árið 2016 var útvarpsstöðin að koma í sjötta

sinn og munar um minna en útvarpsstöðin er mjög virk á samfélagsmiðlum, sendir beint

út á YouTube og er með yfir 360 þúsund fylgjendur á Facebook. Það er eftir miklu að

slægjast fyrir íslenskar hljómsveitir að komast á Off Venue hjá KEXP enda sóttu í

kringum 70 hljómsveitir um að komast þar að en um 20 hljómsveitir fá að koma þar

fram, bæði innlendar og erlendar. Benedikt (2016) bendir þó á að fleiri komist að en

þeir sem spili á Kex Hostel því KEXP tekur líka upp bönd utan útsendingar og á öðrum

stöðum til að fullvinna og senda út seinna.

KEXP fylgir stórt teymi en það telur í kringum 15 manns ef sjálfboðaliðar eru taldir

með. Líkt og hjá Lucky Records stendur dagskráin á Kex Hostel í viku, frá mánudegi til

sunnudags og tónleikar byrja kl 13 alla daga nema sunnudag þar sem hún byrjar kl 14

og stendur fram eftir kvöldi. Það er gaman að bæta því hér við að í myndinni er að finna

Page 61: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

59

hljómsveitina Samaris en þau voru einmitt í fyrstu útsendingunni hjá KEXP á Kex

Hostel árið 2011. Cheryl Waters, dagskrágerðarkona hjá KEXP, þekkir vel hvernig

almenningur reynir að búa til utandagskrá meðfram tónleikahátíðum. Henni finnst hins

vegar aðdáunarvert hvernig skipuleggjendur Airwaves taki þátt í að hjápa til við að

halda utan um þessa hliðardagskrá hér á Íslandi og hún elskar þá staðreynd að þetta er

gert í svo góðu samráði við umhverfið. Þetta sýni svo vel að skipuleggjendum er mikið í

mun að þeir sem sæki hátíðina finni nýja tónlist og að þeir sem spili á hátíðinni eigi þess

kost að spila fyrir eins marga og þeir eiga kost á að gera (Cheryl Waters, 2016).

Þetta rýmar vel við það sem Benedikt bendir á þegar hann segir að Off Venue sé

alltaf að þróast og sé orðið fagmannlegra þó það sé aðeins að stofnanavæðast (Benedikt

Reynisson, 2016). Benedikt man eftir því þegar það voru bara tvær plötubúðir, 12 Tónar

og Smekkleysa, en núna er þetta búið að margfaldast í umfangi og hver og einn beitir

sinni nálgun. Þetta hefur fengið að vaxa í allar áttir sem er gott en það er nauðsynlegt að

halda vel utan um þetta eins og Iceland Airwaves er að gera með því að koma til móts

við Off Venue-staðina og skipuleggja dagskrána. Krafa sem hátíðin setur fram um góða

aðstöðu fyrir tónlistarfólkið er líka góð enda nauðsynlegt að þeim líði vel þegar verið er

að spila á Off Venue því án þeirra væri hátíðin ekki neitt og Off Venue ekki heldur

(Benedikt Reynisson, 2016).

Þegar rætt er við Lucy Hill (2016) um Off Venue á Airwaves bendir hún á að sér

þyki Off Venue merkilegt fyrir margar sakir en ekki síst fyrir það hversu fjölbreytt það

er og hvernig það breytir ásýnd bæjarins og sýnir vel þá grósku og þann kraft sem finna

má í íslensku tónlistarfólki. Lucy, sem hefur líka starfað fyrir Sónar Reykjavík og Secret

Solstice, hafði sótt Airwaves reglulega áður en hún fór að vinna fyrir hátíðina og fyrir

henni er Off Venue mikilvægur vettvangur til að uppgötva nýja listamenn. Það sem

Lucy finnst hvað mest spennandi og sérstakt við Off Venue-dagskrána er hvað þarna

býr ótrúlega mikil og jákvæða orka sem smitar út frá sér um alla borg á meðan hátíðin á

sér stað og að allir geti tekið þátt í gleðinni (Lucy Hill, 2016).

Lucy var ávallt reiðubúin til að hjálpa listamönnum og var hún sérstaklega erlendu

tónlistarfólki innan handar sem var að óska eftir því að bæta við tónleikum en það fær

aðeins að spila eina tónleika á aðaldagskránni og dvelur stutt en vill engu að síður nýta

dvöl sína vel. Hún segir að stór hluti af hennar starfi sé væntingastjórnun því að

listamenn sem spila á Off Venue þurfa að sætta sig við að fá ekki allt sem þeir eru vanir

Page 62: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

60

á tónleikastöðunum, það sé allt annað upp á teningnum þegar er spilað á litlu kaffihúsi

eða hárgreiðslustofu (Lucy Hill, 2016).

Líkt og Grímur þá gerir Lucy sér grein fyrir þeirri staðreynd að sumir sleppi því að

kaupa miða á hátíðina og láta sér þannig Off Venue nægja en ýmsar ástæður geta legið

þar að baki. Fegurðin við hliðardagskrána sé hins vegar sú að allir geta komið og

upplifað hana. Þarna myndast allt öðruvísi andrúmsloft, ný tenging næst við áhorfendur

sem geri þetta afar spennandi og sérstakt (Lucy Hill, 2016).

Eins og viðmælendur mínir í myndinni hafa orð á og vitnað er í hér að ofan þá er

enginn vafi á því að Off Venue-dagskráin á Airwaves er einstök og að hún hefur

mikilvægu hlutverki að gegna fyrir tónlistarfólk, hátíðargesti og borgina. Það má leiða

að því líkur að Off Venue sé í raun eitthvað sem gestir hátíðarinnar hafi aldrei upplifað

annars staðar í heiminum. Sú viðbót sem Off Venue er gerir Iceland Airwaves að alvöru

borgarhátíð og því er hérna eitthvað á ferðinni sem mætti markaðssetja betur og gera

meira út á þar sem Off Venue lyfti hátíðinni mikið og skapi mjög sérstakt andrúmsloft í

bænum sem sé virkilega eftirsóknarvert að upplifa. Leggja mætti áherslu á það sem

viðmælendur taka fram eins hið óvænta og nándina sem skapast sem og það að eiga

þess kost á að sjá listamann oftar og í öðru umhverfi en á tónleikastað að kveldi til.

Rétt eins og viðburðarstjórnunarfræðingurinn Donald Getz (2008) segir þá eru

viðburðir mikilvægir samkeppnisþáttur til að skapa og efla ásýnd staða. Á Off Venue

skapast stemningin í bænum sem gefur Reykjavíkurborg einstakt tækifæri til

markaðssetningar þegar Iceland Airwaves á í hlut, verandi einn af aðalstyrktaraðilum

hátíðarinnar. Þegar velja skal ákvörðunarstað eru viðburðir hvetjandi þáttur í staðarvali

ferðafólks en viðburðir eru þeim eiginleika gæddir að draga að og vekja áhuga fólks,

sérstaklega þegar þeir eru einstakir og óhefðbundnir, markaðir af menningu

heimamanna. Viðburðir hafa þann einstaka eiginleika að þeir eru aldrei eins, og til að

njóta þeirra þarf maður að vera á staðnum því tækifærið kemur aldrei aftur í sömu mynd

(Getz, 2008).

Page 63: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

61

7. Fræðilegur þáttur

Tónlistarhátíð er viðburður sem fer fram á einum eða fleiri dögum á sama svæði þar sem fjöldi

tónlistarmanna eða hljómsveita koma fram og aðaláhersla viðburðarins er á tónlist.

– Tómas Young

Menn njóta gagnrýnislaust hins venjubundna en gagnrýna fullir óbeitar það sem sannarlega er

ferskt

– Walter Benjamin

Hin fræðilega nálgun í þessari greinargerð byggir á texta viðburðarstjórnunar og

menningarfræða. Fjallað er um eðli viðburða með sérstaka áherslu á tónlistarviðburði,

það sem þeim fylgir og sem kallast á við Iceland Airwaves og efni

heimildarmyndarinnar Off Venue – Tónlist tónlistarinnar vegna.

Hátíðir eru hvati og ástæða fyrir komu ferðamanna, hvati til að ferðast til bæja og

borga sem eru framandi og ekki í alfaraleið. Það hefur einnig komið í ljós að vel kynnt

dagskrá og dægradvöl sem tengist hátíðum hefur áhrif á val fólks þegar kemur að

ferðalögum og afþreyingu (Picard, D. og Robinson, M., 2006; Getz, 2008).

Tónlistarhátíðir og tónlistartengdir viðburðir hafa hins vegar ekki verið rannsakaðir

nægilega vel í viðburðarfræðunum. Tónlistarviðburðir þykja innan fræðanna vera flókið

og margbrotið fyrirbæri hvað varðar stærð, tónlistarstefnur og stíla sem og að hagræn

áhrif þeirra og bakgrunnur áhorfenda getur verið mjög ólíkur á milli hátíða.

Tónleikahaldarar og listamenn gera líka samanburð og flokkun erfiða þar sem þeir leita

sífellt frumlegra og fjölbreyttra leiða til að veita einstaka skemmtun og skera sig úr

fjöldanum (Holt, 2017). Rannsóknum á tónlistartengdum viðburðum hefur þó farið

fjölgandi upp úr aldamótum enda hefur algjör sprengja orðið í fjölgun tónlistarhátíða á

heimsvísu síðustu 20 ár þar sem lögð hefur verið mikil áhersla á tónlistartengda

ferðamennsku (Holt, 2010).

Tónlistarhátíðir þurfa að uppfylla fjölbreyttar og ólíkar væntingar gesta sinna. Í

nýlegri ástralskri rannsókn er fjallað um hvernig er hægt að koma til móts við væntingar

áhorfenda og bæta upplifun hjá tónlistarhátíðargestum. Þar er sýnt fram á að

nauðsynlegt þykir að stuðla að sterkri tónlistarlegri upplifun sem og að huga vel að

líðan fólks um leið og tryggt sé að upplifunarþátturinn sé áhrifamikill og til staðar

(Ballantyne, Ballantyne og Packer, 2014). Tónlistarhátíðir eru oft á þröskuldi hins

formlega mengis samfélagsins. Þær eru villtar og oft gilda önnur lögmál innan veggja

hátíðarinnar, annar samfélagssáttmáli. Mikil samkennd og samhugur ríkir meðal gesta

Page 64: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

62

sem eru mættir á svæðið til að skemmta sér þar sem finna má fólk með svipaðar

væntingar og lífsviðhorf. Í hópi tónlistarhátíðargesta snýst lífið um tónlistina og þær

tilfinningar sem hún vekur en tónlistin býr yfir dularfullum krafti sem tengir fólk saman

(Holt, 2017). Ballantyne o.fl. (2014) greina það sem liggur á bakvið þeirri ákvörðun

fólks að sækja tónlistarviðburð. Þar má sjá að sjálfsefling, ævintýraþrá, þörfin til að

finna sig, upplifa samfélagið, samneyti við annað fólk, tjáningarþörf og þekkingarleit

eru meðal þess sem fólk nefnir að það sækist eftir að upplifa með ferðum sínum á

tónlistarhátíðir. Margir fara á tónlistarhátíðir þar sem tónlistartengd upplifun eflir

sjálfsmynd þeirra og veitir þeim um leið tækifæri til að tilheyra hópi fólks með lík

áhugamál og lífsskoðanir. Ungu fólki er það tamt í dag að beita tónlist fyrir sér til að

skapa og tjá ímynd sína og skoðanir. Tónlist og tíska eru nátengd fyrirbæri eins og sjá

má úr heimi hipphoppsins og pönktónlistar (Ballantyne o.fl., 2014).

Rannsóknir sýna að sterk upplifun tónlistar er ekki einungis tengd stíl eða stefnu

heldur er það samhengi tónlistarinnar við umhverfið sem hún er flutt í og þar sem

hennar er notið sem skapar sterk hughrif og upplifun sem býr til sterka tengingu á milli

hlustandans og tónlistarinnar (Gabrielsson, 2001). Þetta er eitthvað sem tónleikahaldarar

þurfa að huga að og með því að auka aðgengi og efla upplifun í góðu samstarfi við

nærumhverfið þá er virkilega komið til móts við þarfir fólks.

Það eru tískustraumar í bland við þarfir hópsins sem tónleikahaldarar verða að taka

tillit til við undirbúning og hönnun hátíðar. Þannig er komið til móts við væntingar

hópsins en þetta getur verið snúið sér í lagi ef hópurinn er fjölbreyttur í eðli sínu eins og

í tilfelli Iceland Airwaves. Tónleikahald er margbrotin miðlunarleið sem felur í sér

flutning á tónlist en um leið kemst tónlistarfólk í beint samband við hlustendur sína og

svo öfugt þar sem miðlun tónlistar á tónleikum felur í sér sterka tengingu á milli

flytjanda og viðtakanda.

Tónlistarviðburðir eru stór hluti af heimi dægurtónlistar sem fellur undir

dægurmenningu (e. popular culture) nútímans en samkvæmt spám Pricewaterhouse

Coopers er gert ráð fyrir því að velta tónleikaviðburða á heimsvísu verði 31 milljarður

dollara árið 2022 en þá er bæði tekið tillit til miðasölu og kostunarsamninga (Sanchez,

2018). Í stóra samhenginu hafa gildi og skilningur fræðimanna á menningarlegu virði

dægurmenningar, og þá sérstaklega dægurtónlistar verið að breytast og aukast. Í stað

þess að tengja áhrif tónlistar á menningararfinn eingöngu við ákveðin svæði, hina

þjóðlegu ímynd og samfélagsleg áhrif umhverfisins sem hún sprettur upp úr eru aðrir

Page 65: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

63

hlutir teknir inn í mengið. Það er gert til að skapa heildstæðari mynd af þeim þáttum

sem tónlist er og skýrir betur þau áhrif sem hún hefur á samfélagið og skilur eftir sig í

hjörtum hverrar kynslóðar fyrir sig. Tónlist er mótandi afl sem hefur áhrif á líf

einstaklinga og hópa. Þannig verða dægurtónlist og tónlistarstefnur lýsandi og

einkennandi fyrir hópa á heimsvísu en ekki bara á afmörkuðum svæðum.

Hljóðheimurinn er allt um liggjandi, tengingar liggja um heim allan og áhrifin koma frá

mörgum stöðum (Bennett, 2009).

Tónlistin skilur þá yngri frá þeim eldri í vissum skilningi smekkvísinnar. Hið nýja

markar þeim ungu menningarlegt rými á tímalínu sögunnar. Hver kynslóð eignar sér

þannig bás í tónlistarsögunni, bás sem hún getur vísað í þó vissulega sé fengið lánað og

stolið frá þeim sem á undan ruddu veginn. Tónlistaraðdáendur eiga auk þess til að

greina sig útfrá þeirri tónlist sem þeir eru að hlusta á. Sjálfsmynd endurspeglast

mögulega í þeim tónlistarkimum sem ungt fólk finnur sig í (hér má nefna sem dæmi

rapptónlist, þungarokk, pönk og danstónlist). Tónlistarkimar treysta hins vegar á

hlustendahópa sína til að þrífast og þurfa sína sérstöku staði til að safnast saman á;

æfingahúsnæði, tónlistarverslanir, bari og önnur rými til að halda tónleika. Aðstöður

fyrir uppákomur þurfa að vera aðgengilegar grasrótinni (Tónlistarborgin Reykjavík,

2017). Aðgengi að fjölbreyttum stöðum til listsköpunar og tjáningar eru lífsnauðsynlegir

til að heilbrigð og margbreytileg tónlistarsena geti vaxið og dafnað (Bennett, 2015).

Myndir á borð við Rokk í Reykjavík og sú mynd sem hér er fjallað um geta varpað

sögulegri sýn á þá samfélagsgerð og hópa sem tónlist hefur áhrif á og að sama skapi

sýnt þá tónlist sem var mótandi á ákveðnum tíma.

Líkt og Bennett (2015) kemur inn á í sínum rannsóknum þá virkar tónlist sem lím

sem heldur fólki saman í litlum hópum, nánast líkt og um klasa væri að ræða. Innan

þessara hópa skapast traust og samkennd sem vísar veginn í listsköpun undir flaggi

sameiginlegra hagsmuna og sjálfsmyndar innan tónlistarsamfélagsins (Bennett, 2015).

Má í þessu samhengi benda á pönkarana á Hlemmi í kvikmynd Friðriks Þórs

Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík (1982) og svo listafólk á borð við Sykurmolana, Sjón og

Ásmund Jónsson sem stóðu að baki stofnun og rekstri á Smekkleysu. Simon Firth

(2011) nefnir í sínum rannsóknum á poppmenningu og aðdáendum dægurtónlistar að

það sé hin listræna samkennd sem bindi fólk saman í hópa sem saman mynda samfélag

aðdáenda sem deila sérkennum og eiga sér sameiginlega lífssýn og gildi. Dæmi um

sérkenni geta verið klæðaburður, lífsgildi og bakgrunnur en það er ávallt tónlistin sem

Page 66: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

64

tengir og þeir staðir sem hún er flutt á er sá vettvangur sem fólk hittist á og blandar geði

(Frith, 2011).

Tónleikastaðir eru mikilvægir fyrir tónlistarfólk til að safnast saman á og

sameiginlegur áhugi á tónlist er mikilvægur þáttur í því að fólki upplifi og upphefji

listina. Á tónleikastöðum skapast grunnur fyrir framþróun tónlistarlífs á tilteknum

svæðum og listrænn sköpunarkraftur eykst þannig að tekið sé eftir. Að sama skapi eykur

tónlist samheldni fólks og ýtir undir sterka sjálfsmynd og sameiginleg einkenni hópa en

það þykir sjálfsagt að draga þá ályktun að samhengi sé á milli staða og tónlistarinnar

sem þaðan kemur (Bennett, 2015; Bennet, 2002). Reykjavík er gott dæmi um slíkan stað

sem Bennet lýsir. Hringiða tónlistarlífsins á höfuðborgarsvæðinu hefur einkennandi

ásjónu, margt líkt má sjá og heyra í efnistökum ákveðinna hópa sem hafa vaxið úr grasi

og deilt sviðinu í áraraðir. Hugmyndir og litbrigði tónlistarinnar hafa flakkað á milli

fólks, tekið sér bólfestu í erfðaefni hennar og þannig skapað þann samhljóm sem er að

finna í reykvísku tónlistarlífi. Má þar til dæmis nefna krúttkynslóðina,

harðkjarnasenuna, svartmálminn og hipphoppið. Þarna ómar hljómur sem þykir af

mörgum sérstakur og er eftirsóttur í huga þeirra sem sækja Reykjavík heim ár eftir ár

þegar Iceland Airwaves á sér stað.

Í rannsókn Heather E. Bowen og Margaret J. Daniels (2005) á ástæðum þess hvers

vegna fólk sækir tónlistarhátíðir kemur í ljós að ýmislegt liggur þar að baki annað en

sjálf tónlistin. Niðurstöður sýna fram á að samkoma þar sem fullt af öðru fólki er að

leita sér að skemmtun og nýrri upplifun hefur mest að segja um það af hverju fólki þykir

þetta spennandi. Það sem kom einnig í ljós hjá Bowen og félögum (2005) og

viðburðarhaldarar ættu að hafa í huga er hversu mikilvægt það er að skapa rétta

andrúmsloftið á vettvangi, að leyfa gleðinni að njóta sín og gefa gestum tækifæri til að

blanda geði, eiga nýjar upplifanir á fleiri stöðum en bara fyrir framan sjálft

tónleikasviðið. Það þarf að gefa gestum rými til að vera í umhverfi sem er jafnvel ótengt

tónlistarviðburðinum sjálfum. Þegar þetta er haft í huga er auðvelt að sjá samsvörun í

þessum niðurstöðum og því sem viðmælendum myndarinnar finnst svo heillandi við Off

Venue-dagskrána sem dreifir sér um alla miðborgina á meðan Airwaves á sér stað.

Menningarkimum sem sinna listsköpun er það mikilvægt að eiga sinn vettvang, sín

ólíku rými, og að geta breytt úr sér þegar nauðsyn þykir. Vettvangur er tónlistarlistafólki

og aðdáendum nauðsynlegur til að eiga í samskiptum, að geta náð eyrum og augum

fólks. Rými eru ólík og henta tónlistarviðburðum misvel og upp á síðkastið hefur

Page 67: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

65

mörgum tónleikastöðum verið lokað í Reykjavík þar sem borgin er að breytast og

uppbygging í miðborginni tekur að miklu leyti mið af vaxandi ferðamannaiðnaði.

Landslag borga og aðgengi tónlistarfólks og aðdáenda að frambærilegum stöðum til að

iðka og njóta tónlistar eru lykilþættir til að tryggja sjálfbærni og uppgang tónlistarlífs í

þéttbýli. Það þarf að vera fjölbreytt úrval af tónleikastöðum, velvilji fyrir tónleikahaldi

og aðgengi að æfingarhúsnæði. Reykjavíkurborg hefur að markmiði að virkja þann

mannauð sem stendur að baki því þróttmikla tónlistarlífi sem Reykjavík er þekkt fyrir

og marka borginni sess sem tónlistarborg. Þetta skal gera með því að viðurkenna

mikilvægi tónlistar sem uppsprettu menningarlegra og efnahagslegra gæða. Ætlunin er

að móta skýra stefnu innan borgarinnar næstu ár til að efla uppbyggingu tónlistarlífsins í

borginni og marka Reykjavík bás sem tónlistarborg. Tilgangur og markmið þessa starfs

er að auka verðmætasköpun sem felst í sterku tónlistarlífi, styðja við grasrótina, efla

nýsköpun og sprotafyritæki og bæta aðstöðu til tónlistariðkunar. Með þessu er stefnt að

því að efla vöxt borgarinnar og gera hana að álitlegum kosti íbúa, fyrirtækja og

ferðamanna (Tónlistarborgin Reykjavík, 2017).

Reykjavík er ekki síst þekkt sem heimaborg framúrskarandi tónlistarfólks og

framsækinna tónlistarhátíða sem náð hafa athygli og vinsældum víða um

heim. Um margra ára skeið hefur ímynd og kynningarstarf borgarinnar notið

góðs af hæfileikum íslensks tónlistarfólks. Það má því leiða rök að því að

ímynd íslenskrar tónlistar sé samofin ímynd Reykjavíkur sem

menningarborgar og áhugaverðs áfangastaðar. Markmið Reykjavíkurborgar er

ekki að fjölga ferðamönnum; fremur að laða hingað fólk sem eru

menningarnjótendur, skilja eftir sig umtalsverða fjármuni í hagkerfi

borgarinnar og auðga menningarlíf borgarbúa m.a. með því að búa til

eftirspurn sem styður mun fjölbreyttari flóru viðburða en heimamarkaðurinn

einn gæti gert.

(Tónlistarborgin Reykjavík, 2017).

Rannsóknir á tónlist og sambandi hennar við borgarlíf sýna að þar liggur djúp

tenging sem skapar merkingu fyrir daglegt líf í borginni. Það er því mikilvægt að borgir

taki tillit til tónlistarinnar, sýni henni skilning og finni leiðir til að sameinast heimi

tónlistarfólksins á hátt sem endurspeglar borgarlífið. Með þátttöku og skilningi verður

borg jákvæður partur af tónlistarlífinu. Hægt er að opna rými og bæta aðbúnað

tónlistarfólks, en leiðir sem efla möguleika til sköpunar mun að endingu skila sér í

aukinni fjölbreytni og efla tónlistarfólk til góðra verka sem að endingu mun upphefja

Page 68: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

66

borgina sem vettvang og þátttakanda í listinni. Rýmið og umhverfið í borginni er

tónlistarfólki að sama skapi mikilvægt þegar kemur að sjálfsmynd þess og leit að

efnivið í lög og texta þó að það sé ekki ávallt meðvitað. Landslagið er grafið í

undirmeðvitundina þar sem ímyndunaraflið er tengt tíma og rúmi sem þannig

endurspeglar sögu borgar og er þannig líka saga tónlistarinnar (Cohen, 2015;

Tónlistarborgin Reykjavík, 2017).

Hafa má í huga orð Ágústs Einarssonar prófessors en í bók sinni Hagræn áhrif

tónlistar (2014) bendir hann á að samkeppni geti orðið til þess að efla sköpunarkraft og

framboð innan listgreinarinnar. Þetta eru mikilvægar niðurstöður fyrir lítinn markað sem

þarf að vera í stöðugri endurnýjun vegna smæðar sinnar. Ágúst veitir því einnig athygli

að það er nauðsynlegt að skapandi einstaklingar eigi aðgang að frjóu umhverfi þar sem

sköpun er ferli sem styðst við þrjá megin þætti sem eru: Menning, bakgrunnur

einstaklinga og samfélag (Ágúst Einarsson, 2014).

Menningarhagfræðingurinn David Throsby bendir á ákveðna þverstæðu í listalífinu

og skiptir listafólki upp í tvo hópa. Í fyrri hópnum eru þeir listamenn sem ekki eiga þess

kost að lifa af listinni og vinna því önnur störf samhliða tónlistarferlinum þar sem þeir

fá lág laun fyrir menningarstörf sín. Ekki bætir úr skák að yfirgnæfandi líkur eru á því

að þeir nái ekki að brjóta sér leið til vinsælda og lifa þannig af listinni. Þeir aðilar sem

eru í þessum hópi og eru að leita að frægð og frama hverfa gjarnan á brott til annarra

starfa ef ekkert gengur. Í hinum hópnum eru þeir sem eru ekki að reyna að vera vinsælir,

þeir sem skapa listarinnar vegna og vinsældir og frami er fyrir þeim aukaatriði. Með

tímanum ná þessir aðilar oft á þann stað að lifa á listinni (Throsby, 2003). Það að ná

hylli fólks án þess að vera að reyna það eða stefna sérstaklega að því er sérstakur galdur.

Náttúrulegir hæfileikar, einlægni og frumleiki eiga þarna oft hlut að máli og þetta

listafólk verður með tímanum nægilega eftirsótt til að skapa sér sérstöðu án þess að

leggjast sérstaklega eftir því en verða þó á eigin rammleik sjálfbærir listamenn. Margir

listamenn sem koma fram á Off Venue falla í þennan flokk. Þeir standa oft sjálfir fyrir

sínum eigin viðburðum og forðast þannig hliðverðina (e. Gatekeepers). Þeir fylgja eigin

sannfæringu og eru frjálsir og skapandi. Þegar umfjöllunarefnið er list þá er sköpun og

listrænn metnaður oftar en ekki lokatakmarkið í hugum tónlistarfólks en ekki hagrænn

ávinningur og því fara oft ekki saman hugmyndir rekstraraðila og svo listamanna

(Jóhann Ágúst Jóhannsson, 2014; Thorsby, 2003; Þórir Georg, 2016).

Page 69: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

67

Mikil verðmæti eru fólgin í vel skipulagðri og góðri dagskrá sem höfðar til gesta

tónlistarhátíða og sér í lagi þeirra gesta sem stunda tónlistarferðamennsku því þeir eru

líklegir til að koma aftur og bera orðsporið víða. Það að bjóða upp á fjölbreytta tónlist

og stefnur, spennandi listafólk sem og það að skapa góðar aðstæður fyrir gesti til að

koma saman og deila upplifun sinni heldur orðspori hátíðar á lofti. Rannsóknir sýna

einmitt fram á að fólk fari á hátíðir annars vegar vegna tónlistarinnar en svo til að hitta

annað fólk og upplifa nýja hluti í góðum félagsskap (Vinnicombe og Sou, 2017; Kruger

og Saayman, 2016). Það að halda úti góðu og metnaðarfullu Off Venue talar vel við þær

niðurstöður rannsókna að gestir vilji bæði upplifa eitthvað einstakt, njóta tónlistar og

samvistar við aðra gesti. Off Venue-dagskráin er einnig verðmæt þeim hlutaðeigandi

aðilum sem hafa ávinning af því að gestir njóti dvalarinnar í víðum skilningi. Nægir í

þessu tilfelli að nefna fyrst hátíðina sjálfa sem vill standa út úr og vera eftirsóknarverð í

augum tónlistarferðalanga, næst má svo nefna Reykjavíkurborg sem styður við bak

hátíðarinnar með fjárstuðningi í gegnum samstarfssamning (Reykjavík, e.d.), svo

tónlistarfólk sem vill ná til fólks og koma list sinni á framfæri og að lokum

verslunareigendur sem standa fyrir viðburðum til að lokka að viðskiptavini. Ánægja

almennings og tónleikagesta er augsýnilega mikil vegna framtaksins enda mæting á

viðburði með besta móti og áhugi á tónleikatengdum viðburðum búinn að vera í örum

vexti undanfarin ár. Holt (2010) bendir á að dreifing myndefnis tónleikagesta á

samfélagsmiðlum sé þáttur sem viðhaldi góðu orðspori og stuðli jafnframt að aukinni

umfjöllun sem er viðamikill þáttur í áframhaldandi kynningarstarfi og liður í óbeinni

markaðssetningu vörumerkis hátíðar. Tónleikagestir eiga auk þess allir það sameiginlegt

að þurfa að velja sér afþreyingu eftir fjárhag og frítíma. Um þetta tvennt er keppt þegar

viðburður er settur á laggirnar þar sem samkeppni er um athyglina á heimsvísu við aðra

tónlistartengdaviðburði sem eiga sér stað á sama eða svipuðum tíma (Shone, A. og

Parry, P. 2004).

Árið 2018 kom að tímamótum þegar kynntar voru breytingar varðandi reksturinn á

Off Venue sem tók þá vissum stakkaskiptum í höndum nýrra rekstraraðila sem tóku við

Iceland Airwaves í byrjun árs 2018. Ísleifur Þórhallsson framkvæmdastjóri Senu Live

sagði hliðardagskrána orðna alltof stóra og éta þar af leiðandi upp aðaldagskrána og því

væri nauðsynlegt að draga úr henni (Birgir Olgeirsson, 2018a; Birgir Olgeirsson,

2018b). Það er vel skiljanlegt að skipuleggjendur hafi ákveðið að tóna niður það mikla

umfang sem færst hefur yfir Off Venue-dagskrána. Það má færa fyrir því gild rök að

Page 70: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

68

hún hafi verið orðin of stór um sig og farin að skyggja á aðalhátíðina sjálfa enda orðin

fjórum sinnum stærri og farin að skyggja á önnur verkefni. Það mátti vel skerpa

fókusinn og halda betur utan um fjölda tónleika og gæta þannig að gæðum og

áreiðanleika staða sem sóttu eftir því að vera hluti af dagskránni. Einnig hefði verið

hægt að gefa út kvóta af stöðum sem gátu talist til formlegra þátttakenda og láta þá

uppfylla einhver sérstök skilyrði eins og greiðslur til listamanna og kynningu á

viðburðum.

Hafa má í huga að 2016 og 2017 var fjöldi staða sem greiddu þátttökugjaldið og

buðu upp á Off Venue á bilinu fimmtíu til sextíu en rekstraraðilum var ekki heimilt að

nýta sér nafnið Iceland Airwaves í sínu kynningarstarfi nema að uppfylltum mjög

ströngum skilyrðum (Grímur Atlason, 2016).

Sena greip til þeirra ráða að fækka stöðum og hljómsveitum sem taka þátt í

dagskránni, með því að takmarka fjölda tónleika sem hljómsveitir mega koma fram á og

gera erlendu listafólki erfiðara um vik með að koma fram annarsstaðar en á

aðaldagskránni. Þátttökugjald þeirra aðila sem vilja taka þátt og vera hluti af dagskránni

var hækkað en áður kostaði 60 þúsund að vera hluti af Off venue-dagskrá Airwaves. Þá

skipti heldur ekki máli hvað margir viðburðir voru á dagskrá eða í hvað marga daga,

allir greiddu sama gjald hvort sem staðurinn var fyrirtæki rekið í ágóðaskyni eða um var

að ræða stofnun. Sena Live breytti þessu fyrirkomulagi og setti upp nýja verðskrá til að

stemma stigu við framboði á Off Venue og fækka þannig stöðum. Þátttaka á

miðvikudeginum kostar rekstraraðila 50 þúsund, fimmtudagur kostar 100 þúsund,

föstudagur 150 þúsund og 200 þúsund fyrir laugardag. Þannig má sjá að ef halda á úti

dagskrá alla dagana kostar það hálfa milljón sem er stórt stökk úr sextíu þúsund krónum

og gjörsamlega óyfirstíganlegt fyrir marga. Ísleifur réttlætir þessa breytingu með því að

benda á að mismikil verðmæti liggi í kvöldunum og að staðir fái meira fólk til sín á

laugardegi en á miðvikudegi (Birgir Olgeirsson, 2018b). Útskýring Ísleifs á því hvernig

verðskráin er sett upp nær ekki fyllilega utan um það sem Off Venue á Airwaves er og

lítur fljótt á litið út sem bragð sem þjóni þeim tilgangi að grisja garðinn, útloka aðra

staði en bari og veitingahús frá þátttöku. Það er nokkuð augljóst að hárgreiðslustofur og

bókasöfn geta ekki greitt slíkar fjáræðir sem hér um ræðir þar sem sala þeirra og

þjónusta færir þeim ekki slíkar tekjur. Grímur Atlason bendir á í viðtali að enginn verði

ríkur á að halda Off Venue, þessu fylgi oft kostnaður og fyrirhöfn. Einnig má leiða að

Page 71: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

69

því líkur að sala detti niður á meðan á tónleikum stendur líkt og Lárus Jóhannesson í 12

Tónum og Ingvar Geirsson hjá Lucky Records hafa orð á (2016).

Samdráttur í miðasölu er annar þáttur sem nefndur hefur verið sem ástæða til að

hemja vöxt og uppgang Off Venue innan Airwaves. Sú gagnrýni er vel skiljanleg því

hátíðin verður að standa undir sér af augljósum ástæðum. Grímur Atlason (2016) bendir

á að Off Venue geti ekki stækkað endalaust og það hafi vissulega áhrif á miðasölu. Hins

vegar sá hann það ekki sem vandamál á þeim tíma þar sem að allt stefndi í að uppselt

yrði á hátíðina líkt og árin á undan, frá og með 2010 (Grímur Atlason, 2016). Árið 2012

var til dæmis orðið uppselt á Airwaves í ágúst, tveimur mánuðum fyrir hátíð sem þá

bauð upp á 450 Off Venue tónleika á 31 stað víðsvegar um borgina, m.a. í

Mjóddinni, Menntaskólanum við Hamrahlíð og kapellu Hjálpræðishersins (Vísir,

2012).

Ísleifur Þórhallsson hafði orð á því í viðtali við Vísi að fyrirkomulag Off Venue

þyrfti að breytast þar sem hátíðin væri þarna að búa til tekjur fyrir aðila úti í bæ en fengi

ekkert inn í staðinn. Auk þess benti hann á að þarna væri fyrirkomulag sem gæfi fólki

kost á að sjá listamenn án þess að borga sem gengi ekki ef hátíðin ætti að lifa (Birgir

Olgeirsson, 2018). Þarna beinir Ísleifur spjótum sínum að Off Venue og gerir þennan

hluta dagskrár Airwaves að hálfgerðum blóraböggli fyrir rekstrarvanda Iceland

Airwaves en hátíðin var rekin með miklu tapi 201612

sem leiddi til þess að hún var

minni í sniðum árið eftir en meðal annars var Harpa ekki nýtt sem tónleikastaður

(Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, 2018). Í frétt í Vísi í byrjun árs 2018 nefnir Grímur Atlason

nokkrar ástæður fyrir slæmri rekstrarafkomu hátíðarinnar sem skipt hafi sköpum en

mest hefði munað um að áætlað var að um 10 þúsund gestir yrðu á hátíðinni en einungis

8.500 gestir hafi mætt og því ekki uppselt eins og spár gerðu ráð fyrir. Aukin samkeppni

í innflutningi tónlistarmanna, dýrari flug og mikil hækkun á kostnaði við gistingu, hafi

haft þar mikil áhrif. Þar að auki hafi sterkt gengi krónunnar á þessum tíma fælt

ferðamenn frá landinu (Baldur Guðmundsson, 2018).

Það má sjá af þessu að rekstrartap af hátíðinni skrifist á mun fleiri og stærri þætti en

Off Venue og eins og fram kemur í frétt Sólrúnar Lilju á Mbl.is var ekki uppselt á

hátíðina þó svo að lengi vel hafi stefnt í að svo yrði samkvæmt Grími Atlasyni og það

vóg þungt (2016).

12

Samkvæmt ársreikningi Iceland Airwaves fyrir árið 2016 var hátíðin rekin með ríflega 57 milljóna tapi.

Tekjur voru 215,5 milljónir miðað við 202,2 milljónir árið á undan (Baldur Guðmundsson, 2018).

Page 72: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

70

Líklegt er að fleiri ónefndir þættir eigi sinn þátt í rekstrarvanda Airwaves og því tapi

sem þar átti sér stað. Hugsanlega eiga aðrir rekstrarþættir líkt og bókanir á dýru

listafólki, launakostnaður, hár kostnaður vegna tónleikahalds í Hörpu og leigu annarra

tónleikastaða svo fátt eitt sé nefnt þar hlut að máli. Einnig er liðinn sá tími þar sem

Iceland Airwaves var eina tónlistarhátíðin í Reykjavík. Í dag eru fleiri hátíðir sem slást

um athygli tónleikagesta, hátíðir sem höfða kannski betur til þeirra sem yngri eru.

Einnig má leiða hugan að því að sú seinkun sem hefur verið gerð með hátíðardagana, að

færa þá aftur í nóvember hafi áhrif en það þarf að rannsaka og greina það frekar.

Mögulega hentar þessi tími verr upp á próf og verkefnaskil þeirra sem eru í skóla. Loks

má huga að aldurshópnum sem sækir hátíðina, en hann virðist vera að eldast og hátíðin

nokkuð íhaldssöm ef marka má hugleiðingar blaðamanns DV (Kristján Guðjónsson,

2016). Það er vissulega ærið verkefni að stýra hátíð af þessari stærðargráðu eins og

tíminn hefur leitt í ljós en reksturinn er sveiflukenndur, samkeppnin á markaði við aðrar

tónlistarhátíðir mikill og skammt stórra högga á milli.

Off Venue ætti ef til vill ekki að líta á sem ógn heldur sem tækifæri til að kynna

fjölbreytni, mikilvægi og umfang tónlistar í Reykjavík. Það er kannski tækifæri fólgið í

því að leyfa þessari hátíð innan hátíðarinnar að dafna því hún sýnir borgina iðandi af lífi

og gefur fólki tækifæri til að upplifa eitthvað sem er einstakt. Þessi partur hátíðarinnar

uppfyllir auk þess vel skilyrði samstarfsamningsins við Reykjavíkurborg, eflir

tónlistarlífið og eykur fjölbreytnina.

Þegar Lucy Hill var innt eftir því eftir hátíðina hvort dagskráin hafi verið of stór og

mikil þá taldi hún svo ekki vera. Þetta hafi gengið vel og fólk var mjög ánægt. Aðspurð

hvort hún teldi Off Venue með alla sína tónleika stela áhorfendum frá aðalsviðum

hátíðarinnar sagði hún svo ekki vera enda væri Off Venue-dagskráin að degi til en

aðaldagskráin byrjaði eftir kvöldmat (Lucy Hill, 2016).

Lífræn þróun og hógvær gjaldtaka þar sem ýtt er undir fjölbreytni og ungu

tónlistarfólki er gert kleift að koma fram og vaxa er í anda þeirrar tónlistarborgar sem

Reykjavík vill vera og ætti að vera markmið rekstraraðila Iceland Airwaves. Það getur

vissulega hjálpað til að setja Off Venue undir aukið eftirlit en að draga úr því af

rekstrarlegum ástæðum kann að hafa ófyrirséðar afleiðingar og draga dilk á eftir sér

enda Off Venue partur af einstakri upplifun sem ekki verður leikin eftir annarsstaðar.

Tónlistarmaðurinn, heimspekingurinn og gagnrýnandinn Theodor W. Adorno

(1903-1969) skrifaði um menningu og stjórnun hennar. Eitt af lykilhugtökum Adorno er

Page 73: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

71

andstaða og viðnámshugsun þar sem hann bendir m.a. á þá staðreynd að sá er ræðir um

menningu ræðir einnig um stjórnun, hvort sem það er ætlunin eða ekki. Hann setur fram

gagnrök fyrir menningarstjórnun þar sem er að finna afgerandi mótsögn en hann segir

að menning skaðist þegar hún er skipulögð og henni stýrt en sé hún hinsvegar látin vera

þá missir hún ekki aðeins áhrifamátt sinn heldur er sjálfri tilveru hennar ógnað (Adorno,

2002). Með þessari staðhæfingu telur Adorno að listin sýni gleggst þær mótsagnir sem

ríkja í nútímanum og það sé tilgangur listarinnar að veita viðnám og snúa á nútímann og

forðast allt sem getur talist fjöldamenning eða menningariðnaður því slíkt sé óvinur

listarinnar og forheimskandi. Virði menningar býr í fólkinu og þeim menningarlega

grunni sem það byggir, virði þess að efla og bæta þekkingu stuðlar að auknum

hagrænum ábata á sviði lista og menningar sem skila sér í auknum umsvifum (Throsby,

2003).

Tónlist eflir og ýtir undir sjálfsmynd okkar og ímynd. Hún nærir okkur, eykur

vitund okkar og kynnir okkur umhverfi okkar á nýjan hátt. Tónlist stuðlar að félagslegu

samneyti þar sem við deilum upplifun okkar með öðrum og finnum fyrir skyldleika

okkar í samferðarfólki í gegnum sameiginlega menningarstrauma og á því liggur enginn

vafi að Iceland Airwaves gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í íslensku menningarlífi

(Simon Frith, 2011). Við erum einfaldlega stödd í þeim tíma og því rúmi sem tónlistin

leiðir okkur og það er verðmætt að halda því til haga hvernig við komumst þangað og

hvert við ætlum að stefna til framtíðar.

Page 74: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

72

8. Niðurstöður

Í kynningarkafla ritgerðarinnar segi ég frá tvíþættri rannsóknarspurningu sem býr að

baki gerð myndarinnar og umfjöllunar um gildi og mikilvægi Off Venue fyrir

tónlistarlífið.

a) Er Off Venue mikilvægt og hvernig þá?

b) Er þörf fyrir þennan hliðarvettvang og hverjum þjónar hann?

Niðurstöður og svör við þessum spurningum dreg ég hér saman í stuttu máli. Í

mínum huga liggur enginn vafi á mikilvægi Off Venue fyrir tónlistarlífið á Íslandi og ég

tel það eiga stóran þátt í þeirri heildarupplifun sem það er að sækja Iceland Airwaves og

sýna vel kraftinn og stemninguna í Reykjavík þessa daga sem hátíðin er haldin. Off

Venue er einstakt fyrir margra hluta sakir, en ekki síst fyrir fjölbreytileika sinn, umfang,

og sem tækifæri fyrir tónlistarfólk til að koma oftar fram en bara á aðaldagskrá

hátíðarinnar. Þarna er hátíð innan hátíðarinnar sem gæðir Reykjavík lífi, gefur

tónlistarfólki nýjan vettvang til að koma fram í bæ sem er fullur af fólki sem kann vel að

meta alla þessa tónlist. Niðurstöður viðtala voru á svipuðum slóðum og ljóst að þeir sem

komu fram, sáu um að halda viðburði eða komu að stjórn hátíðarinnar voru ánægðir

með Off Venue og það sem það hafði fram að færa:

Off Venue þjónar tónlistarlífinu á marga vegu, eykur upplifunargildi ferðamanna

og tónlistargesta á Iceland Airwaves og gefur aðdáendum og bransafólki fleiri

tækifæri til að sjá listamenn koma fram og þá í mismunandi umhverfi.

Off Venue eykur afþreyingargildi Iceland Airwaves. Þetta er frjór og skapandi

vettvangur sem býður upp á mikla skemmtun og borg sem iðar af lífi.

Off Venue eykur verðmæti Reykjavíkur sem ákvörðunarstaðar þá viku sem

hátíðin fer fram. Sú upplifun sem boðið er upp á gerir Iceland Airwaves að alvöru

borgarhátíð, uppfulla af spennandi viðburðum. Off Venue á sinn þátt í að gera

Iceland Airwaves að einstakri hátíð og á stóran þátt í þeirri upplifun sem þar er í

boði. Hér er eitthvað á ferðinni sem nýta mætti betur í allri markaðssetningu á

hátíðinni og á Reykjvík sem ákvörðunarstaðar á þessum tíma.

Page 75: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

73

Off Venue gerir það að verkum að Iceland Airwaves er meira en bara

tónlistarhátíð sem fer fram á kvöldin, hún er borgarhátíð sem býður upp á

fjölbreytta skemmtun allan daginn og fyrir alla fjölskylduna.

Off Venue er vettvangur fyrir tónlistarfólk sem vill spila oft og koma sér þannig á

framfæri við tónlistarþyrsta tónleikagesti, ferðamenn og bransafólk sem er að leita

að nýjum listamönnum til að bóka á tónleika eða til útgáfu.

Off Venue þjónar verlsunareigendum og veitingasölum sem vilja kynna varning

sinn og krækja sér í viðskiptavini.

Aðilar úr tónlistargeiranum, útgefendur og fjölmiðlamenn, reyndust þakklátir fyrir

Off Venue-dagskrána því hún gaf þeim fleiri tækifæri til að sjá listafólk koma

fram og nýta þannig tíma sinn betur. Þeir sem voru með listamenn á sínum

snærum á hátíðinni sáu í þessu gott tækifæri til kynningar.

Off Venue á Iceland Airwaves er líkt og kom fram í máli margra viðmælenda

einstakt á heimsvísu. Það umbreytir Reykjavík allri og gerir Iceland Airwaves að

einhverju svo miklu meira en tónlistarhátíð. Þarna má upplifa margt af því sem gerir

íslenskt tónlistarlíf svo sérstakt, líkt og þessa gríðarlegu ósérhlífni tónleikahaldara og

listamanna þessa daga sem er alveg aðdáunarverð enda oft ekki mikið upp úr þessu að

hafa annað en gleðina. Það er einmitt kjarni málsins og svo einkennandi fyrir þá sem

unna listinni að þeir láta ekkert stöðva sig og nýta öll tækifæri sem gefast til að koma

henni á framfæri.

Það er líklegt að breyting verði á heildarupplifun fólks auk þess sem Off Venue

mun virka með öðrum hætti ef dregið verður verulega úr aðgengi listafólks og gesta að

tækifærum til að koma fram, sjá og njóta tónlistar um allan bæ eins og kemur fram í

áformum nýrra rekstraraðila Airwaves. Sú ákvörðun að hækka þátttökugjald og fækka

tónleikastöðum mun vissulega breyta hátíðinni og minnka umfang hennar en hvort það

mun leiða til bættrar rekstrarafkomu og aukinnar miðasölu á eftir að koma í ljós.

Ákvörðunin mun þó tvímælalaust hafa afleiðingar, skilja eftir sig skarð í því einstaka

skemmtanalífi sem var í boði þegar tónlistin flæddi hömlulaust og sá kraftur sem

einkennir íslenska tónlist var nánast áþreifanlegur og upplifunin sem var í boði í

Reykjavík á Iceland Airwaves alveg einstök á heimsvísu.

Page 76: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

74

9. Lokaorð

Heimildarmyndir eru í grunninn frásagnir. Þær eiga sér upphaf og endi, hafa oftar en

ekki afmarkað umfjöllunarefni og eru settar upp þannig að áhorfandinn upplifi skilning

á því efni sem er til umfjöllunar. Líkt og með aðrar frásagnir eru heimildarmyndir

tilraunir mannsins til að gera grein fyrir tilveru sinni í tímanum sem hann tilheyrir. Þær

sýna svipmynd af stund og stað. Heimildarmyndir segja frá raunveruleikanum og

umfjöllunarefnið er sett í samhengi við sýn og túlkun kvikmyndagerðarmannsins. Í

grunninn má segja að frásagnir endurspegli hið mannlega í okkur en með frásögninni

má líka finna reynslu sögumannsins sem lýsir þeirri sýn sem hann hefur á umhverfi

sínu, hvort sem frásögnin er tilvistarleg eða tilfinningaleg. Mennskan í okkur knýr

okkur áfram til að skrásetja atburði, segja sögur og frá því sem við upplifum, því sem

við teljum vera einstakt, sem okkur þykir merkilegt og finnst eiga erindi við aðra.

Þannig deilum við hugmyndum, menningarlegum verðmætum, sögu okkar og reynslu til

annarra sem og varðveitum það sem gerst hefur. Það má því segja að frásögnin sé leið

okkar til að skilja betur okkur sjálf og það sem gerir okkur mennsk. Okkur er í blóð

borið að segja sögur úr umhverfi okkar og miðla upplifunum. Ef við tengjumst sögunum

sem við erum að segja persónulegum eða tilfinningalegum böndum, þá gæðum við þær

auknu lífi og oftar en ekki ratar innihaldið til fólks sem hefur áhuga á félagslegu og

menningarlegu inntaki þeirra.

Tónlist snýst um tilfinningu. Það er frumleikinn og hið sérstaka sem er svo

lokkandi þegar kemur að flutningi tónlistar á tónleikum og það á svo sannarlega við

Iceland Airwaves þar sem finna má „tónlist tónlistarinnar vegna“ líkt og Arnar Eggert

Thoroddsen (2016) bendir svo réttilega á. Það er gaman að geta átt hlut í því að skilja

eftir vitnisburð um þá miklu ólgu og kraft sem bærðist á þessari stund og stað í

Reykjavík. Að þetta augnablik í sögu Iceland Airwaves þegar tónlistin ómaði á hverju

götuhorni verði varðveitt í vitund okkar komist myndin á leiðarenda.

Í upphafi var markið ef til vill sett of hátt miðað við þann tíma og kostnað sem

hefur verið varið í lokafrágang og gerð þessarar myndar. Áhyggjur og kvíðinn við að

gera mistök og mistakast hefur legið þungt á höfundi en það að hafa ekki lagt stund á

kvikmyndagerð nema um stutta stund og vera reynslulaus í vinnslu á verkefni af þessu

tagi krafðist fórna auk mikillar þolinmæði af hans nánustu.

Page 77: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

75

Það komu oft stundir sem ég var við það að gefast upp við gerð myndarinnar,

langaði bara að hætta en efnið togaði mig áfram og ég fann kraft í öðru fólki sem fannst

umfjöllunarefnið áhugavert og þá óx þrótturinn og viljinn til að klára. Þó enn sé nokkur

spotti að endalínunni þá trúi ég að þetta hafist allt á endanum og að myndin komi fólki

fyrir sjónir fyrr en seinna og tendri jafnframt áhuga þeirra sem gaman hafa af

tónlistartengdum heimildarmyndum.

Heimildarmyndir um tónlist og tónlistarlífið á Íslandi eru því miður fáar og oft

líður langur tími á milli þeirra. Miklar líkur eru á því að finna megi tímabil í

tónlistarsögunni sem ekki er fjallað um og lítið sé til af myndum frá tónleikum og

tónlistartengdri umfjöllun. Sú mynd sem hér var gerð er heimildarmynd um

tónlistarkima á Íslandi og miðlar minni sýn á hliðardagskrá Iceland Airwaves sem og

skoðunum viðmælenda minna. Það er mitt álit að tónlistarhátíð í borg eigi að vera

fjölbreytt, opin öllum og að almenningur eigi að geta haft áhrif á það sem þar fer fram.

Þessi dagskrá er algjörlega ómissandi þáttur hátíðarinnar og mikilvægur hluti af

upplifuninni sem fylgir þessari gróskumiklu hátíð. Aðalatriðið er að gleyma ekki hvers

vegna hlutirnir eru gerðir, varðveita minningar og vona að frumleiki, sjálfbærni og sátt

við nærsamfélagið verði haldið á lofti. Ef það gengur eftir er líklegt að hið einstaka fái

áfram að njóta sín og haldi áfram að vekja áhuga þeirra sem elska tónlist.

Eftir á að hyggja var verkefnið trúlega aðeins of metnaðarfullt og umfang þess of

stórt lokaverkefni fyrir einn nemanda í meistaranámi. Ég get hins vegar verið stoltur af

því verki sem nú þegar er unnið og verið ánægður með þá vinnu sem ég hef lagt í

verkefnið. Þetta er ferðalag sem ég sé ekki eftir að hafa lagt í og nú er bara að vona að

ég nái fljótlega sjálfu lokamarkmiðinu sem er að binda endahnútinn á Off Venue -

Tónlist tónlistarinnar vegna og gera myndina sýningarhæfa almenningi.

Verkefnið er mér afar hjartfólgið og draumurinn er að skilja eftir áhugaverða

heimild um þennan vettvang sem er að taka breytingum en ef rekstur Iceland Airwaves

tekur ekki við sér og verstu spár nýrra rekstraraðila rætast gæti næsta hátíð verið sú

síðasta. Það er von höfundar að myndin eigi eftir að veita áhorfendum lifandi innsýn inn

í þann orkumikla og fjölbreytta heim sem hliðardagskrá hátíðarinnar hefur að geyma.

Að hún varpi ljósi á gróskuna og kraftinn sem býr í íslensku tónlistarlífi en verði

jafnframt talin marktæk heimild um tónlistarlíf á Íslandi sem komandi kynslóðir geti

leitað í.

Page 78: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

76

Í lokin vil ég þakka Iceland Airwaves fyrir alla tónlistina. Þakka fyrir öll tækifærin í

gegnum árin til að upplifa, sjá og heyra alla þessa frábæru tónlistarmenn á sviði sem

hafa komið fram (on og off) og fyrir allt sem Iceland Airwaves hefur fært íslensku

tónlistarlífi.

Page 79: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

77

Frá höfundi

Myndin er ekki alveg tilbúin við skil þessarar ritgerðar um gerð hennar og efni. Þeir

sem kunna að hafa á því áhuga geta fengið að sjá brot úr myndinni eða jafnvel myndina

alla undir vissum kringumstæðum í því formi sem hún er í með því að setja sig í

samband við höfundinn.

Facebooksíða myndarinnar: www.facebook.com/offvenuedocumentary/

Page 80: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

78

Heimildaskrá

Adorno, T. (2002). The Culture Industry. “Culture and Adminstration” 107-131.

London: Routledge

Arnar Árnason. (2002). Menning er máttur. Í Guðni Elísson og Jón Ólafsson (ritstjórar).

Ritið: 3/2002, (bls. 83-99). Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands.

Arnar Eggert Thoroddsen. (2019). Nurturing the Roots: Músíktilraunir, Iceland’s

Foremost ‘Battle of the Bands’ Competition. Í Þorbjörg Daphne Hall, Nicola

Dibben, Árni Heimir Ingólfsson og Tony Mitchell (ritstjórar). Sound Icelandic:

Essays on Icelandic Music In the 20th and 21st Centuries, (bls. 101–113).

Sheffield: Equinox.

Backer, M.B. (2011). Rockumentary: Style, Performance & Sound in a Documentary

Genre (doktorsritgerð). Heimspeki í miðlunarfræðum við McGill University,

Montréal, Kanada.

Baldur Guðmundsson. (2018, 19. janúar). Drógu saman seglin eftir 57 milljóna tap

Airwaves. Vísir. Sótt 5. ágúst 2019 af www.visir.is\\g\\2018180118749.

Ballantyne, J., Ballantyne, R., og Packer, J. (2014). Designing and managing music

festival experiences to enhance attendees’ psychological and social benefits.

Musicae Scientiae, 18(1), 65–83. https://doi.org/10.1177/1029864913511845

Ballico, C. (2012). Viewing the unheard: The role of music documentaries in voicing

the untold stories of music genres and scenes. Rev-Con Academic. (Perth,

Australia). July 12 – 13, 2012.

Benedikt Bóas Hinriksson. (2018, 26. maí). Airwaves fær 22 milljónir. Vísir. Sótt 5.

ágúst af https://www.visir.is/g/2018180529169.

Benjamin, Walter. (2000). Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar: Þrjár ritgerðir.

Í Hjálmar Sveinsson (ritstjóri). Reykjavík: Bjartur/ReykjavíkurAkademían.

Benjamin, Walter. (1999[1936]) ‘The Work of Art in the Age of Mechanical

Reproduction’. Í H. Arendt (ritstjóri). Illuminations, (bls. 217–51). London:

Pimlico.

Page 81: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

79

Bennett, A. (2009). “Heritage Rock’: Rock Music, Representation and Heritage

Discourse.” Poetics 37, 474–89.

Bennett, A. (2015). Identity: Music, Community and Self. Í Johns Shepherd og Kyle

Devine (ritstjórar). The Routledge Reader on The Sociology of Music, (bls 143–

152). London: Routledge.

Bennett, A. (2002). Music, media and urban mythscapes: A study of the ‘Canterbury

Sound. Media, Culture & Society, 24(1), 87–100.

https://doi.org/10.1177/016344370202400105.

Birgir Olgeirsson. (2018a, 20. febrúar). Endurskoða þarf Off venue-hluta Airwaves ef

hátíðin á að lifa. Vísir. Sótt 2. ágúst 2019 af https://www.visir.is/g/2018180229900.

Birgir Olgeirsson. (2018b, 7. nóvember). Airwaves snerist gegn stöðum sem borguðu

ekki. Vísir. Sótt 2. ágúst 2019 af https://www.visir.is/g/2018181109132.

Björn Ægir Norðfjörð. (2008). „Einsleit Endurreisn, íslenska heimildamyndir á nýrri

öld.“ Saga 46, nr. 2, bls. 114-149.

Bowen, H.E. og Daniels, M.J. (2005). Does the music matter? Motivations for attending

a music festival. Event Management 9, 155-164.

Chanan, M. (2001). „Documentary, History, Social Memory.“ Journal of British

Cinema and Television 1, 61–77.

Cohen, S. (2015). Cityscapes. Í John Shepherd og Kyle Devine (ritstjórar). The

Routledge Reader on The Sociology of Music, (bls 231 – 244). London: Routledge.

DV. (1983, 26. ágúst). Rokk í Reykjavík II - sjónvarp á morgun kl. 20.55: Nýbylgjan í

algleymingi. DV. Sótt 28. júlí 2019 af

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=189481.

Frith, S. (2011). Music and identity. Í S. Hall og P. du Gay (ritstjórar). Questions of

cultural identity, (bls. 108-127). London: SAGE Publications Ltd

doi:10.4135/9781446221907.n7

Gabrielsson, A. (2001). Emotions in strong experiences with music. Í Juslin, P.,

Sloboda, J. (ritstjórar). Music and emotion. Theory and research, (bls. 431–

449). Oxford, UK: Oxford University Press.

Page 82: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

80

Getz, D. (2008). Event tourism: Definition, evolution, and research. Tourism

Management 29, 403-428.

Gibson, C. og Connell, J. (2012). Music Festivals and Regional Development in

Australia. Music Festivals and Regional Development in Australia. 1-237.

Goldblatt, J. (2005). Special events: Event leadership for a new world. Hoboken, NJ:

John Wiley & Sons.

Grímur Atlason. (2010). 80 milljarðar á ári! Sótt 3. júní 2019 af

https://web.archive.org/web/20110420010712/http://blog.eyjan.is/grimuratlason/20

10/10/13/80-milljardar-a-ari/

Guðni Einarsson. (2018, 5. nóvember). Mikilvæg tengsl myndast á Iceland Airwaves.

DV.is. Sótt 28. maí 2019 af

https://www.dv.is/fokus/menning/tonlist/2018/11/05/mikilvaeg-tengsl-myndast-

iceland-airwaves/.

Holt, F. (2010). The economy of live music in the digital age. European Journal of

Cultural Studies, 13(2), 243-261. doi.org/10.1177/1367549409352277

Holt, F. (2018). Music Festival Video: A “Media Events” Perspective on Music in

Mediated Life . Volume, 14:2(1), 202-202. https://www.cairn.info/revue-volume-

2018-1-page-202.htm.

Iceland Airwaves. (2019). About. Sótt 10. maí 2019 af https://icelandairwaves.is/about/.

Iceland Monitor. (2014, 6. nóvember). To off-venue or not to off-venue? Mbl.is Iceland

Monitor. Sótt 22. júní 2019 af

https://icelandmonitor.mbl.is/news/culture_and_living/2014/11/05/to_off_venue_or

_not_to_off_venue/.

Iceland Review. (2018, 26. febrúar). Iceland Airwaves Festival Sold to Sena Live.

Iceland Review. Sótt 2. ágúst 2019 af

https://www.icelandreview.com/news/iceland-airwaves-festival-sold-sena-live/.

Jóhann Ágúst Jóhannsson. (2014). Ég á mig sjálf. Stærri markaður, meiri vinna og

minni tekjur í tónlistariðnaði nútímans. Meistararitgerð: Háskólinn á Bifröst.

Page 83: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

81

Jóhann Ágúst Jóhannsson. (2010). Skýrsla úr verknámi í viðburðarstjórnun – Iceland

Airwaves 2010. Háskólinn á Hólum, 30. nóvember 2010, verknámi í

viðburðarstjórnun. Háskólinn á Hólum.

Jóhannes Stefánsson. (2014, 13. nóvember). Búa til verðmæti úr tónlistinni.

Viðskiptablaðið, 45. tbl. 21. árgangur. Reykjavík.

Kjarninn. (2018, 9. febrúar). Grímur hættir hjá Iceland Airwaves eftir 8 ár. Kjarninn.is.

Sótt 19. maí 2019 af https://kjarninn.is/frettir/2018-02-09-grimur-haettir-hja-

iceland-airwaves-eftir-8-ar/.

Kolbeinn Tumi Daðason. (2018a, 9. febrúar). Grímur semur um starfslok. Vísir. Sótt 22.

maí 2019 af https://www.visir.is/g/2018180208643/grimur-semur-um-starfslok-

vid-icelandair.

Kolbeinn Tumi Daðason. (2018b, 16. febrúar). Kaupverð Senu á Iceland Airwaves fæst

ekki uppgefið. Vísir. Sótt 22. maí 2019 af https://www.visir.is/g/2018180219107.

Kristín Loftsdóttir. (2016). Vettvangsrannsóknir. Í Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri).

Handbók í aðferðafræði rannsókna, (bls. 327-336). Akureyri: Háskólinn á

Akureyri.

Kruger, M., & Saayman, M. (2016). A 3E typology of visitors at an electronic dance

music festival. International Journal of Event and Festival Management, 7(3), 219-

236. doi:http://dx.doi.org/10.1108/IJEFM-04-2016-0027.

Kvale, S. (2010). Doing Interviews. London: Sage Publications Ltd.

Margrét Sigrún Sigurðardóttir og Tómas Young. (2011). Kortlagning á hagrænum

áhrifum skapandi greina. Samráðsvettvangur skapandi greina, Íslandsstofa,

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Utanríkisráðuneyti, Fjármálaráðuneyti,

Iðnaðarráðuneyti, Efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Reykjavík.

Mbl.is. (2010, 25. mars). ÚTÓN tekur yfir Iceland Airwaves. Mbl.is. Sótt 28. maí 2019

af https://www.mbl.is/folk/frettir/2010/03/25/uton_tekur_yfir_iceland_airwaves/.

Mbl.is. (2018, 7. nóvember). Airwaves fer vel af stað. Mbl.is. Sótt 28. maí 2019 af

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/11/07/airwaves_fer_vel_af_stad/.

Page 84: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

82

McGrath, S. (2015). The Psychological Impacts of Attending Music Festivals.

Rannsóknarverkefni við Dublin Institute of Technology, School of Hospitality

Management and Tourism.

Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur. (2018). Samstarfssamningur um

járstuðning Reykjavíkurborgar við Iceland Airwaves á tímabilinu 1. apríl 2018 til

31. Desember 2019. Reykjavík, 11. maí 2018. Sótt 5. ágúst 2019 af

https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agendaitems/iceland_airwaves_2018-

2019.pdf.

Nichols, B. (2001). Introduction to documentary. Bloomington, Ind: Indiana University

Press.

Nichols, B. (2003). Rödd heimildarmynda. Þýð. Sigurjón Baldur Hafsteinsson. Í Guðni

Elísson (ritstjóri). Áfangar í Kvikmyndafræðum, (bls. 191 – 206). Reykjavík:

Forlagið.

Pétur Ben. (2014, 3. nóvember). The Iceland Air-Slaves. The Reykjavík Grapevine.

Sótt 22. júní 2019 af

https://grapevine.is/icelandic -culture/music/airwaves/2014/11/03/the-iceland-

air-slaves-2/.

Picard, D. og Robinson, M. (2006) Festival, Tourism and Social Change. Remaking

Worlds. Clevedon, U.K: Channel View Publications.

Rannveig Traustadóttir. (2016). Femínískar rannsóknir. Í Sigríður Halldórsdóttir

(ritstjóri). Handbók í aðferðafræði rannsókna, (bls. 313-325). Akureyri: Háskólinn

á Akureyri

Rogers, J. (2018). All About The Music: KEXP’s 10 Years Of Airwaves Sessions Have

Over 85m Views. The Reykjavík Grapevine, 9. október, 2018. Sótt á vefinn þann

15. maí 2019 á https://grapevine.is/icelandic-culture/music/iceland-

airwaves/airwaves-2018/2018/10/09/all-about-the-music-kexps-10-years-of-

airwaves-sessions-have-over-85m-views/.

Ruby, J. (1977) The Image Mirrored: Reflexivity and the Documentary Film Author(s):

JAY RUBY Source: Journal of the University Film Association, Vol. 29, No. 4,

THE DOCUMENTARY IMPULSE: CURRENT ISSUES (Fall 1977), pp. 3-11

Published by: University of Illinois Press on behalf of the University Film & Video

Association Stable URL: http://www.jstor.org/stable/20687384.

Page 85: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

83

Sanchez, D. (2018, 26. október). The Live Music Industry Will Be Worth $31 Billion

Worldwide by 2022. Digital Music News. Sótt 20. júní 2019 af

https://www.digitalmusicnews.com/2018/10/26/latest-live-music-revenue-31-

billion-2022/.

Sigríður Halldórsdóttir og Sigurlína Davísdóttir. (2016). Réttmæti og áreiðanleiki í

megindlegum og eigindlegum rannsóknum. Í Sigríður Halldórsdóttir (ritstjóri).

Handbók í aðferðafræði rannsókna, (bls. 211-227). Akureyri, Háskólinn á

Akureyri.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson og Böðvar Bjarki Pétursson. (1998). Ný sýn. Land&synir,

3. tölublað (01.08.1998). Reykjavík.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=396742.

Shone, A. & Parry, B. (2004) Successful event management. A practical handbook. 2.

útg. U.K.: Thomson.

Skjaldborg. (e.d.). Skjaldborgarhátíðin. Sótt 20. ágúst 2019 af

https://skjaldborg.com/hatidin/.

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir. (2018, 9. febrúar). Ræða kaup Senu á Iceland Airwaves.

Mbl.is, 9. Sótt 5. ágúst af

https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2018/02/09/raeda_kaup_senu_a_airwaves/.

Thorsby, D, (2003). Economics and Culture. Cambridge. Cambridge Universty Press.

Toynbee, Jason. (2000). Making Popular Music: Musicians, Creativity and Institutions.

London: Arnold.

Tómas Young. (2010). Könnun á meðal erlendra gesta á Iceland Airwaves 2010.

Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar.

Tómas Young. (2011). Könnun á meðal erlendra gesta á Iceland Airwaves 2011.

Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar.

Tómas Young. (2012). Könnun á meðal erlendra gesta á Iceland Airwaves 2012.

Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar.

Tómas Young. (2013). Tónlistarhátíðir á Íslandi: Greining og yfirlit.

Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar og Ferðamálastofa.

Page 86: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

84

Tónlistarborgin Reykjavík – tillögur starfshóps. (2017). Menningar- og ferðamálasvið

Reykjavíkurborgar. Skilgreining starfshóps um Tónlistarborgina Reykjavík.

Reykjavík. Sótt 10. júlí 2019 af

https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/skyrsla_starfsh

ops_um_tonlistarborgina_reykjavik.pdf.

Vinnicombe, T. and Sou, J.P.U. (2017) "Socialization or genre appreciation: the motives

of music festival participants", International Journal of Event and Festival

Management, Vol. 8 Issue: 3, pp.274-291, https://doi.org/10.1108/IJEFM-05-2016-

0034.

Vísir. (2012, 9. október). Yfir 450 off-venue tónleikar á Airwaves. Vísir. Sótt 5. ágúst af

https://www.visir.is/g/2012121008802.

Wikipedia.org. (e.d.). Penelope Spheeris. WikiPedia. Sótt 2019 af

https://en.wikipedia.org/wiki/Penelope_Spheeris#Film.

Wood, M., Salovaara, P., & Marti, L. (2018). Manifesto for filmmaking as

organisational research. Organization, 25(6), 825–835. Sótt 26. apríl 2018 af

https://doi.org/10.1177/1350508417749886.

Aðrar heimildir

Halla Kristín Einarsdóttir (2015). Punktar úr fyrirlestri í áfanganum Skapandi

heimildarmyndir við Háskóla Íslands.

Page 87: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

85

Viðaukar

Listi yfir viðmælendur í mynd og sem vitnað er til

Nafn viðmælenda, staður sem viðtalið fór fram og dagsetning.

Alexandra Baldursdóttir og Katrína Mogensen úr Mammút

Kex Hostel, laugardagur 5. nóvember 2016.

Andrew Gilmore Barr og Philip Bradford Barr úr The Barr Brothers (Kanada)

12 Tónar, miðvikudagur 2. nóvember 2016.

Dr. Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarblaðamaður og dægurtónlistarfræðingur

12 Tónar, miðvikudagur 2. nóvember 2016.

Benedikt Reynisson viðburðarstjórnandi hjá Kex Hostel: Tvö viðtöl

Kex Hostel, miðvikudaginn 12. október og fimmtudagur 3. nóvember 2016.

Bjarki og Egill Viðarssynir úr Andy Svarthol

Smekkleysa : Föstudagur 4. nóvember 2016. Viðtal ekki notað í mynd.

Cheryl Waters útvarpskona hjá KEXP, Seattle (Bandaríkin)

Kex Hostel, sunnudagur 6. nóvember 2016.

David Fricke ritstjórnarfulltrúi og blaðamaður hjá Rolling Stone magazine

Smekkleysa, föstudagur 4. nóvember 2016.

Grímur Atlason framkvæmdastjóri Iceland Airwaves

Skrifstofa Iceland Airwaves, fimmtudagur 6. október 2016.

Gunnar Hjálmarsson

Pönksafnið Bankastræti 0, fimmtudagur 17. nóvember 2016.

Ingvar Geirsson eigandi og stofnandi Lucky Records

Lucky Records, mánudagur 7. nóvember 2016.

Jóhannes Birgir Pálmason úr Epic Rain

Lucky Records, þriðjudagur 1. nóvember 2016.

Juliette Devert frá Secret City Records (Kanada)

12 Tónar, miðvikudagur 2. nóvember 2016.

Page 88: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

86

Justin West eigandi og stofnandi Secret City Records (Kanada)

12 Tónar, laugardagur 5. nóvember 2016.

Lárus Jóhannesson eigandi og annar stofnandi 12 Tóna: Tvö viðtöl

12 Tónar, mánudagur 31. október og fimmtudagur 3. nóvember 2016.

Loji Höskuldsson úr W€$€N

Bíó Paradís, fimmtudagur 3. nóvember 2016.

Lucy Hill viðburðarstjórnandi Off Venue hjá Iceland Airwaves: Tvö viðtöl

Skrifstofa Iceland Airwaves, fimmtudagur 6. október og Borgarbókasafnið Gróf,

föstudagur 25. nóvember 2016 .

Michael (Mkl) Anderson úr Drekka

Lucky Records, sunnudagur 6. nóvember 2016.

Moji Abiola úr Moji & Midnight Sons

Kex Hostel, föstudagur 4. nóvember 2016.

Ólafur Halldór Ólafsson (Óli Dóri) rekstrarstjóri Bíó Paradís

Bíó Paradís, fimmtudagur 3. nóvember 2016: Viðtal ekki notað í mynd.

Sr. Pétur Þorsteinsson æskulýðsfulltrúi á Dvalar og elliheimilinu Grund

Elliheimilið Grund, miðvikudagur 2. nóvember 2016.

Rosa Walton og Jenny Hollingworth úr Let's Eat Grandma (UK)

Kex Hostel, laugardagur 5. nóvember 2016 : Viðtal ekki notað í mynd,

Skúli Þórðarson staðarhaldari á Bæjarins Bestu

Bæjarins Bestu, laugardagur 5. nóvember 2016.

Sóley Stefánsdóttir tónlistarkona

Heima hjá Sóley, fimmtudagur 10. nóvember 2016: Viðtal ekki notað í mynd.

Thomas Morr eigandi Morr Music (Þýskaland)

Bíó Paradís, fimmtudagur 3. nóvember 2016.

Þórir Georg og Júlía Aradóttir úr ROHT

Lucky Records, 6. nóvember 2016

Page 89: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

87

Tónlistarfólk og hljómsveitir sem voru kvikmyndaðar

Dagur og staður þar sem tekið var upp framkoma tónlistarfólksins var kvikmynduð og

hvort viðkomandi myndefni er notað í myndinni eða ekki.

Mánudagur 31. október 2016

Brother Big

Lucky Records : Ekki notað í mynd (Fyrstur á svið á Iceland Airwaves 2016)

Tófa

Lucky Records : Ekki notað í mynd

Þriðjudagur 1. nóvember 2016

Epic Rain

Lucky Records

Les Aventures de President Bongo: Tilbury perform Drama & Transmission

Kex Hostel : Ekki notað í mynd

Miðvikudagur 2. nóvember 2016

The Barr Brothers (Kanada)

12 Tónar : 10 Year Anniversary Party of Secret City Records (The Barr Brothers komu

fram í staðinn fyrir Jesse Mac Cormack)

Boogie Trouble

Dvalar og hjúkrunarheimilið Grund

Soffía Björg ásamt Ingibjörgu Elsu Turchi

Dvalar og hjúkrunarheimilið Grund

Singapore Sling

Kex Hostel Live on KEXP

Fimmtudagur 3. nóvember 2016

Hildur

12 Tónar, fimmtudagur 3. nóvember 2016

samaris

Kex Hostel Live on KEXP, fimmtudagur 3. nóvember 2016

Mikael Lind

Bíó Paradís (Straumur), fimmtudagur 3. nóvember 2016

Tófa

12 Tónar, fimmtudagur 3. nóvember 2016

Page 90: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

88

W€$€N

Bíó Paradís (Straumur), fimmtudagur 3. nóvember 2016

Föstudagur 4. nóvember 2016

Andy Svarthol

Smekkleysa/ Bad Taste Recordstore

dj. flugvél og geimskip

Alda Hótel

Moji & The Midnight Sons

Kex Hostel Live on KEXP

sóley

Kaffihús Vesturbæjar : Ekki notað

Laugardagur 5. nóvember 2016

Karlakórinn Esja

Bæjarins Beztu Pylsur

Kórus

Kaffibarinn : Myndefni ekki notað

Let’s Eat Grandma (UK)

Kex Hostel Live on KEXP : Ekki notað

Mammút

Kex Hostel Live on KEXP

Ónefndur hipphopplistamaður / ekki á dagskrá

Bæjarins Beztu Pylsur

Sunnudagur 6. nóvember 2016

Börn

Lucky Records (í dagskrá stendur Dauðyflin)

ROHT

Lucky Records

Saktmóðigur

Lucky Records

Drekka

Lucky Records

Samúel Jón Samúelsson Big Band

Kex Hostel

Page 91: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

89

Spurningar notaðar í viðtölum fyrir myndina við öflun gagna

1. Hvað er það sem er merkilegt og spennandi við Off Venue á Iceland Airwaves?

a. Þróun Off Venue í gegnum árin

b. Er eitthvað sem gerir Airwaves hátíðina frábrugðna öðru

tónlistarhátíðum?

c. Eitthvað sérstakt við árið í ár?

d. Einhverjir staðir vinsælli en aðrir?

2. Hvernig er Off Venue-dagskráin frábrugðin hinni eiginlegu formlegu dagskrá?

3. Er Off Venue á Airwaves mikilvægt? Og ef svo, af hverju?

4. Hvað taka margir staðir þátt?

5. Hvað taka margir listamenn þátt á Off Venue / En á hátíðinni?

6. Er upplifunin á tónlistinni öðruvísi á Off Venue, upplifur þú hana á annan máta

en á formlegum tónleikastað? Hvernig skynjar þú það - Stemningin / Nálægðin?

7. Telur þú Off Venue-ið vera mikilvæga viðbót fyrir:

a. Airwaves-hátíðina?

b. Listamennina?

c. Reykjavíkurborg?

d. Margföldunaráhrif?

8. Finnst þér vera of margir Off Venue-staðir / Of margir tónleikar?

9. Telur þú Off Venue stela áhorfendum frá aðalsviðum hátíðarinnar?

10. Er Off venu menningin á íslandi frábrugðin því sem þú þekkir til annarsstaðar í

heiminum og hefur upplifað sjálfur / sjálf?

11. Einhverjir staðir sem stóðu uppúr og eða þér fannst skítið að tækju þátt?

12. Eftirminnilegir Off Venue-tónleikar?

13. Nú eru sumir listamenn sem spila bara á Off Venue – hafa ekki verið bókaðir á

hátíðina eða lagt sig eftir því, segðu frá þessu, er þetta algengt?

14. Eitthvað sérstakt á dagskrá hjá ykkur í ár?

15. Hvað sækja margir hátíðina?

16. Hvernig finnst þér hátíðin hafa þróast og þroskast?

a. Hefur hún verið að breytast síðustu ár?

17. Hvernig finnst þér Off Venue-ið vera að virka og þróast meðfram hátíðinni?

18. Hvernig metur þú hátíðina og það sem henni fylgir fyrir Reykjavíkurborg?

19. Hvernig byrjaði Off Venue hjá þér/ykkur – Ykkar aðkoma?

Page 92: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

90

20. Gagnrýn sem Off Venue hefur fengið á sig frá tónlistarfólki þar sem aðilar hafa

ekki boðið laun?

21. Hver er helsti munurinn á því að spila On Venue og Off Venue?

22. Hvernig er að spila hérna?

23. Spilar þú á mörgum tónleikum í ár?

24. Eitthvað sem þú vilt bæta við?

Ég bað viðmælendur mína um að horfa á mig í viðtölum en ekki horfa í linsuna. Ég

vildi hafa samtölin eins eðlileg og hægt var en eftir að hafa borið fram spurningu reyndi

ég að taka ekki orðið heldur leyfði ég viðmælandanum að tala en sýndi áhuga minn og

athygli með því að horfa á viðkomandi og kinka kolli.

Ég sagði viðmælendum mínum að ég ætlaði ekki að vera með mína rödd í myndinni

heldur að klippa hana út og því væru spurningarnar mínar ekki inni svo ég bað þá um að

endurtaka / umorða spurninguna í upphafi ef þeir ættu þess kost þannig að það sé á

hreinu hverju þeir væru að svara, um hvað verið var að ræða.

Page 93: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

91

Leyfi til að nota viðtal og persónulega ásjónu í mynd

Personal Appearance Release

Production Date(s): September 2016 – May 2020

Program Title (working title): Airwaves - Off Venue (the “Program”)

Participant’s Name:

Producer/Production Entity: Jóhann Ágúst Jóhannsson (“Producer”)

Production Location: Reykjavík, Iceland

I hereby authorize Producer to record and edit into the Program and related materials

my name, likeness, image, voice and participation in and performance on film, tape or

otherwise for use in the above Program or parts thereof (the “Recordings”). I agree that

the Program may be edited and otherwise altered at the sole discretion of the Producer

and used in whole or in part for any and all broadcasting, non-broadcasting,

audio/visual, and/or exhibition purposes in any manner or media, in perpetuity,

throughout the world.

Producer may use and authorize others to use all or parts of the Recordings. Producer,

its successors and assigns shall own all right, title and interest, including copyright, in

and to the Program, including the Recordings, to be used and disposed of without

limitation as Producer shall in its sole discretion determine.

Signature of Person Appearing:

Address: City, State, Zip:

Date: Phone:

Page 94: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

92

Leyfi til að taka upp á ákveðnum stað

STANDARD Location RELEASE

SERIES / PROGRAM TITLE:

PRODUCTION DATE:

Permission is hereby granted to Jóhann Ágúst Jóhannsson to use the property located at

____________________________ consisting of ___________________________.

for the purpose of photographing and recording scenes for the above program produced by

Jóhann Ágúst Jóhannsson.

Permission includes the right to bring personnel and equipment onto the property and to

remove them after completion of the work. The permission herein granted shall include the

right, but not the obligation, to photograph the actual name connected with the premises and

to use such name in the program(s).

The undersigned hereby gives to Jóhann Ágúst Johannsson, its assigns, agents, licensees,

affiliates, clients, principals, and representatives the absolute right and permission to

copyright, use, exhibit, display, print, reproduce, televise, broadcast and distribute, for any

lawful purpose, in whole or in part, through any means without limitation, any scenes

containing the above described premises, all without inspection or further consent or approval

by the undersigned of the finished product or of the use to which it may be applied.

Jóhann Ágúst Jóhannsson hereby agrees to hold the undersigned harmless of and free from

any and all liability and loss which Jóhann Ágúst Jóhannsson, and/or its agents, may suffer for

any reason, except that directly caused by the negligent acts or deliberate misconduct of the

owner of the premises or its agents.

The undersigned hereby warrants and represents that the undersigned has full right and

authority to solely enter into this agreement concerning the above described premises, and

that the undersigned hereby indemnifies and holds Jóhann Ágúst Jóhannsson, and/or its

agents, harmless from and against any and all loss, liability, costs, damages or claims of any

nature arising from, growing out of, or concerning the use of the above described premises

except those directly caused by the negligent acts or deliberate misconduct of Jóhann Ágúst

Jóhannsson, or its/his/her agents.

By (Property OWner/Manager):________________________________________________

Signature of Authorized Property Representative

Date:______________________________

Filmmaker/Film Location Manager:____________________________________________

Date: ______________________________

Page 95: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

93

Dagskrá yfir tökudaga var gerð í Excel

Page 96: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

94

Dagskráin Off Venue á Iceland Airwaves 2016

Á næstu síðum má sjá dagskrá Iceland Airwavews 2016, bæði formlega dagskrá og svo

Off Venue sem samanstóð af 821 tónleikum á 63 stöðum sem voru skráðir og

skipulagðir í samvinnu við stjórnendur hátíðarinnar en hafa ber í huga að ekki eru allir

viðburðir sem haldnir eru skráðir en til þess að komast í opinbera dagskrá sem deilt var

til hátíðargesta og samstillt hátíðarappinu þurfti að greiða hóflegt skráningargjald.

Page 97: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

95

Mynd 1 - Off Venue dagskrá : Mánudagur / Þriðjudagur / Miðvikudagur

Mynd 2 – Off Venue dagskrá : Fimmtudagur

Page 98: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

96

Mynd 3 - Off Venue dagskrá : Föstudagur

Mynd 4 - Off Venue dagskrá : Laugardagur

Page 99: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

97

Mynd 5 - Off Venue dagskrá : Sunnudagur

Page 100: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

98

Mynd 6 – Aðaldagskrá : Miðvikudagur

Page 101: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

99

Mynd 7 - Aðaldagskrá : Fimmtudagur

Page 102: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

100

Mynd 8 - Aðaldagskrá : Föstudagur

Page 103: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

101

Mynd 9 – Aðaldagskrá : Laugardagur

Page 104: MA ritgerð³hann... · 1 Útdráttur Tónlist tónlistarinnar vegna - Heimildarmynd um Off Venue Iceland Airwaves er meistararitgerð um heimildarmyndina Off Venue – Tónlist tónlistarinnar

102

Mynd 10 - Aðaldagskrá : Sunnudagur