Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

23
ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011 0 ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS 2012 Íþróttamaður- og íþróttakona ársins hjá sérsamböndum og íþróttanefndum ÍSÍ

Upload: oskar-orn-gudbrandsson

Post on 16-Mar-2016

259 views

Category:

Documents


4 download

DESCRIPTION

Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

TRANSCRIPT

Page 1: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

0

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS 2012 Íþróttamaður- og íþróttakona ársins hjá sérsamböndum og íþróttanefndum ÍSÍ

Page 2: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

1

Badmintonkona og badmintonmaður ársins eru Ragna Ingólfsdóttir, TBR og Kári Gunnarsson, TBR og Københavns Badminton Klub

Ragna er langfremsta badmintonkona landsins. Hún varð Íslandsmeistari í badminton í mars síðastliðnum í einliðaleik og varð með því fyrsti íslenski badmintonspilarinn til að hampa Íslandsmeistaratitli í einliðaleik níu sinnum en auk þess hefur hún orðið tíu sinnum Íslandsmeistari í tvíliðaleik og einu sinni í tvenndarleik. Alls hefur hún unnið Íslandsmeistaratitil 20 sinnum. Þá vann hún öll þau mót sem hún tók þátt í hérlendis á árinu. Ragna hefur verið í A-landsliði Íslands í badminton um árabil og keppti með landsliðinu fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni kvennalandsliða í Svíþjóð í febrúar og í Evrópukeppni einstaklinga í Englandi í apríl. Ragna tók þátt í einu til þremur alþjóðlegum mótum í mánuði undanfarin ár til að safna stigum á heimslistanum. Ragna hefur unnið til verðlauna á alþjóðlegum mótum en hún hefur meðal annars unnið Iceland International mótið fimm sinnum en mótið er innan mótaraðar Badminton Europe og gefur stig á heimslista. Með góðri stöðu á heimslistanum vann hún sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í London í sumar í annað skipti en hún keppti einnig á Ólympíuleikunum í Kína árið 2008. Ragna var í kringum 70. sæti heimslistans allan fyrri hluta ársins og fram að Ólympíuleikum. Ragna komst hæst í 68. sæti heimslistans á árinu. Ragna stóð sig frábærlega á Ólympíuleikunum í London í sumar. Keppt var í þriggja manna riðlum og Ragna mætti fyrst Akvile Stapusaityte frá Litháen. Ragna vann hana örugglega 21-10 og 21-16. Þá mætti hún Jie Yao frá Hollandi sem var raðað númer 14 inn á leikana en hún er upphaflega kínversk og er fjórða besta badmintonkona heims skv. heimslistanum. Ragna tapaði eftir hörkuspennandi aðra lotu sem endaði með naumum sigri Yao 21-12 og 25-23. Með sigri á Stapusaityte varð Ragna fyrsta íslenska konan til að vinna badmintonleik á Ólympíuleikum. Eftir Ólympíuleikana í London lagði Ragna Ingólfsdóttir spaðann á hilluna eftir stórglæsilegan feril.

Kári er Íslandsmeistari í einliðaleik en Kári er búsettur í Danmörku og kom til landsins til að keppa á þessu eina móti á þessu ári. Kári er í A-landsliðinu í badminton. Hann keppti með landsliðinu fyrir Íslands hönd á Evrópumóti karlalandsliða í Svíþjóð í febrúar og á Evrópumóti einstaklinga í Englandi í apríl. Hann hefur verið í unglingalandsliðum Íslands á undanförnum árum og spilaði fyrst með A-landsliðinu árið 2010. Kári stóð sig best allra íslensku keppendanna í einliðaleik karla á Iceland International mótinu í nóvember síðastliðnum en mótið gefur stig á heimslista og er innan mótaraðar Badminton Europe. Þar komst hann í átta manna úrslit og vann meðal annars Jong Woo Yim frá Suður Kóreu sem flýgur hratt upp heimslistann þrátt fyrir að vera nýfarinn að taka þátt í alþjóðlegum mótum.

Page 3: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

2

Borðtenniskona og borðtennismaður ársins eru Lilja Rós Jóhannesdóttir, Víkingi og Guðmundur Stephensen, Víkingi/Zoetermeer

Lilja Rós varð á síðasta ári Íslandsmeistari kvenna og einnig Íslandsmeistari í tvíliðaleik með Evu Jósteinsdóttur. Lilja Rós sigraði í einliðaleik í 10. skiptið og jafnaði þar með árangur Ragnhildar Sigurðardóttur, sem varð Íslandsmeistari tíu sinnum á árunum 1978-1990. Einnig varð Lilja

Íslandsmeistari í deildarkeppninni með liði sínu Víkingi. Guðmundur varð á síðasta ári Íslandsmeistari í 19. sinn. Einnig varð hann Íslandsmeistari í tvíliðaleik karla með Magnúsi K. Magnússyni og í tvenndarleik með Evu Jósteinsdóttur. Eins og árið áður lék hann einnig í hollensku úrvalsdeildinni með liði sínu Zoetermeer en Guðmundur stóð sig frábærlega með liðinu , léku þeir til úrslita um Hollandsmeistaratitilinn en urðu að láta sér nægja 2. sætið. Liðið komst í 16 liða úrslit Evrópukeppni félagsliða en liðið hafði áður unnið alla leiki sína í tveimur undanriðlum. Sem þjálfari leiddi hann A lið Víkinga til sigurs í 1. deild karla.

Tenniskona og tennismaður ársins eru Iris Staub og Birkir Gunnarsson, bæði úr Tennisfélagi Kópavogs

Iris Staub varð þrefaldur Íslandsmeistari á árinu, í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik. Þetta er í sjöunda skiptið sem hún verður Íslandsmeistari í einliðaleik og fjórða skiptið sem hún sigrar þrefalt. Iris bjó í byrjun ársins í Suður-Afríku þar sem hún keppti fyrir hönd Norður-Gauteng fylkis í Suður-Afríska meistarmótinu og tryggði sér þar ásamt liði sínu Suður-Afríska meistaratitilinn. Þar með komst hún í 9. sæti Suður-Afríska listans í flokki 30-35 ára.

Um þessar mundir æfir hún og keppir fyrir Grün-Weiß Nikolassee í Berlín samhliða doktorsnámi og vermir hún nú 34. sæti þýska listans í flokki 30-35 ára. Á síðustu Smáþjóðaleikum vann Iris ásamt Söndru Dís Krisjánsdóttur til bronsverðlauna í tvíliðaleik kvenna. Hún stefnir á þáttöku fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum á næsta ári.

Birkir sem er tvítugur að aldri varð Íslandsmeistari karla í tennis bæði innanhúss- og utan á árinu. Einnig sigraði hann á Meistaramóti Tennissambands Íslands. Birkir spilaði fyrir landslið Íslands á Davis Cup í Búlgaríu sem er heimsmeistaramót landsliða í tennis. Síðastliðið sumar spilaði hann fyrir þýska tennisklúbbinn TH Vaihingen í Þýskalandi þar sem hann var með 75% vinningshlutfall í einliðaleik. Birkir tók þátt í þremur opnum tennismótum í Danmörku á árinu þar sem m.a. spiluðu margir af bestu tennisleikurum Dana, ásamt fleiri góðum spilurum. Sigraði hann í tveimur þessara móta og varð nr. tvö í einu þeirra. Birkir hyggur á nám í Ameríku þar sem hann getur haldið áfram að þróast sem tennisspilari.

Page 4: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

3

Skvasskona og skvassmaður ársins eru Rósa Jónsdóttir, Skvassfélagi Reykjavíkur og Róbert Fannar Halldórsson, Skvassfélagi Reykjavíkur

Rósa er núverandi íslandsmeistari kvenna. Hún vinnur öll kvennamót hér á landi og spilar einnig í opnum flokki þar sem topp karlarnir þurfa að taka verulega á því til að vinna hana. Hún ber höfuð og herðar yfir aðrar skvasskonur hér á landi og myndi sóma sér vel í hvaða deild sem er í öðrum löndum. Rósa er til fyrirmyndar innan sem utan vallar. Róbert er núverandi Íslandsmeistari karla. Hann vinnur öll mót hér á landi og er yfirburðarmaður í skvassíþróttinni. Róbert er til fyrirmyndar innan sem utan vallar. Róbert æfir mjög vel og gerir allt til að toppa sjálfan sig ár eftir ár.

Blakkona og blakmaður ársins eru Hjördís Eiríksdóttir, Stjörnunni og Orri Þór Jónsson, HIK Aalborg í Danmörku

Hjördís er uppalin í Stjörnunni og í vor var hún fyrirliði íslenska landsliðsins, aðeins tvítug að aldri. Hjördís átti gott tímabil í Mikasadeild kvenna síðasta vetur og endaði meðal stigahæstu leikmanna deildarinnar. Hún er fyrirliði Stjörnunnar í Garðabæ og hefur átt frábært keppnistímabil það sem af er og er meðal stigahæstu leikmanna Mikasa-deildarinnar. Hún er burðarás í liði Stjörnunnar og sýnir agaðan leik á vellinum. Hjördís var í A landsliði Íslands í undankeppni EM smáþjóða í vor en liðið rétt missti af sæti í úrslitunum þegar það lenti í þriðja sæti riðilsins sem leikinn var í Luxemborg. Í sumar lék hún í strandblaki með Steinunni Helgu Björgólfsdóttur og enduðu þær í fjórða sæti Íslandsmóts A liða eftir spennandi úrslitaleik. Hjördís og Steinunn unnu til gullverðlauna í flokki U21 í strandblaki.

Orri fór til félagsins í sumar frá uppeldisfélagi sínu HK í Kópavogi en hann varð Íslandsmeistari með HK vorið 2012. Orri Þór var burðarás í A landsliði Íslands þegar liðið spilaði í undankeppni EM smáþjóða í maí 2012 á Möltu. Orri Þór hefur einnig náð frábærum árangri í strandblaki og í sumar endaði hann í 3. sæti Íslandsmótsins ásamt Róberti Karli Hlöðverssyni. Orri Þór er fyrirmyndarblakmaður og æfir nú af kappi tvisvar á dag með sínu liði í Danmörku en HIK Aalborg er um þessar mundir í 6. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Orri Þór er nálægt því að vera fastamaður í byrjunarliði félagsins og hefur spilað þó nokkuð það sem af er leiktíð.

Page 5: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

4

Kylfingar ársins eru Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Golfklúbbi Reykjavíkur og Haraldur Franklín Magnús, Golfklúbbi Reykjavíkur

Ólafía Þórunn er nú við nám og æfingar í Bandaríkjunum og keppir fyrir Wake Forest University þar sem hún var valin mikilvægasti leikmaður skólans í vor. Ólafía Þórunn sigraði á tveimur mótum á Eimskipsmótaröðinni 2012 og var í landsliði Íslands sem keppti á Heimsmeistaramótinu í Tyrklandi í september og náði þar besta árangri íslensku keppendanna. Haraldur Franklín er við nám og æfingar í Bandaríkjunum eins og aðrir af okkar bestu kylfingum. Haraldur varð Íslandsmeistari bæði í höggleik og holukeppni á árinu 2012 og hafa fáir leikið það eftir á liðnum árum.

Handknattleikskona og handknattleiksmaður ársins eru Guðný Jenný Ásmundsdóttir, Val og Aron Pálmarsson, Kiel í Þýskalandi

Guðný Jenný er 30 ára, fædd 28 febrúar 1982. Guðný Jenný kemur frá Fjölni upphaflega og fer þaðan í ÍR og síðan Hauka. Þá hefur hún reynt fyrir sér erlendis. Hún tók sér síðan frí frá handbolta og eignaðist tvö börn. Guðný Jenný byrjaði aftur í handboltanum og gekk til liðs við Val 2010 og hefur verið lykilleikmaður hjá kvennaliði Vals. Guðný Jenný hefur verið Íslandsmeistari með Val árin 2010, 2011 og 2012. Þá varð hún bikarmeistari með Val 2012. Guðný Jenný leikur stöðu markvarðar og hefur verið aðalmarkmaður landsliðsins frá miðju ári 2011 og er lykilmaður í íslenska landsliðinu. Guðný Jenný hefur spilað 39 A-landsleiki og skorað 1 mark. Þá á hún að baki 13 landsleiki með U-21 landsliði kvenna. Aron Pálmarsson handknattleiksmaður er 22 ára gamall, fæddur 19. júlí 1990. Aron er alinn upp í FH og lék þar alla yngri flokkana. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með FH

1. mars 2006 þá aðeins 16 ára. Aron gekk til liðs við Kiel í Þýskalandi sumarið 2009 og hefur verið að festa sig í sessi með betri leikmönnum þýsku deildarinnar. Hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik 29. október 2008 í Laugardalshöll á móti Belgíu og skoraði þar 2 mörk. Þá var hann lykilmaður í landsliðinu þegar það lék til bronsverðlauna á EM 2010 og var lykilmaður í landsliðinu á síðustu Ólympíuleikum. Aron hefur leikið 65 A landsleiki og skorað í þeim 223 mörk. Þá lék hann 13 leiki með u-21 ára landsliði karla og skoraði í þeim 56 mörk og 34 leiki með u-18 ára landsliði karla og skoraði í þeim 158 mörk.

Page 6: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

5

Kvenkeilari og karlkeilari ársins eru Ástrós Pétursdóttir, keiludeild ÍR og Hafþór Harðarson, keiludeild ÍR

Helstu afrek Ástrósar á árinu 2012 eru þau að hún varð Íslandsmeistari para ásamt Stefáni Claessen, hún varð í 4. sæti á Íslandsmeistaramótinu og í öðru sæti í Íslandsmóti liða með liði sínu ÍR-Buff. Hún átti sæti í landsliði Íslands sem tók þátt í Evrópumóti landsliða, en mótið fór fram í Tilburg í Hollandi í júní 2012. Ástrós

hefur verið góð fyrirmynd ungra keilara. Helstu afrek Hafþórs á árinu 2012 eru að hann varð Íslandsmeistari annað árið í röð, hann varð Svíþjóðar-meistari í þriggja manna liðakeppni, 3. sæti SM-elite meistarakeppni í Svíþjóð og í 2. sæti í sænsku deildarkeppninni með liði sínu Team Pergamon. Hafþór varð í 27. sæti af 208 keppendum á Evróðumóti landsliða sem fram fór í Austurríki á árinu og í 14. sæti af 42 keppendum á Evrópumóti landsmeistara 2012. Hafþór varð Reykjavíkurmeistari 2012 og Íslandsmeistari í tvímenningi ásamt Einari Má Björnssyni. Í nóvember mánuði tók Hafþór þátt í sterku atvinnumanna móti (World series) í Las Vegas og þar varð hann í 84. sæti af 264 keppendum og í

tvímenningskeppni endaði hann í 17. sæti af 66 tvímenningum. Á árinu lék Hafþór einn 300 leik og hefur því 11 sinnum leikið fullkominn leik á sínum ferli.

Dansarar ársins eru Sigurður Már Atlason og Sara Rós Jakobsdóttir úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar

Sigurður og Sara eru bæði fædd árið 1992 og hafa dansað saman síðan árið 2000. Þau eru sannarlega vel að tilnefningunni komin. Þau urðu tvöfaldir Íslandsmeistarar á árinu 2012 og unnu sér rétt til að fara á þau þrjú heimsmeistaramót sem í boði voru. Þau urðu einnig bikarmeistarar í latin dönsum. Þau hafa verið á faraldsfæti síðustu mánuði við að keppa fyrir Íslands hönd, í Noregi, Svíþjóð, Ástralíu, Spáni, Danmörku, Austurríki og Lettlandi. Sigurður og Sara eru góðar fyrirmyndir fyrir önnur danspör, hvort sem er við þjálfun eða ástundun.

Page 7: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

6

Körfuknattleikskona og körfuknattleiksmaður ársins eru Helena Sverrisdóttir, Kocice, Slóvakíu og Jón Arnór Stefánsson, CAI Zaragoza – ACB deildin á Spáni

Helena Sverrisdóttir er á sínu öðru keppnistímabili með Kocice sem leikur í deildinni heima fyrir í Slóvakíu og Meistaradeild Evrópu. Liðið varð

meistari í Slóvakíu á sl. keppnistímabili og er sem stendur í góðri stöðu í sínum riðli í Meistaradeildinni þar sem hlutverk Helenu fer vaxandi. Helena fór einnig fyrir íslenska kvennalandsliðinu sem náði sínum besta árangri frá upphafi þegar liðið náði bronsverðlaunum á NM. Helena var valin í úrvalslið mótsins. Helena er mikil fyrirmynd innan vallar sem utan. Árið 2012 var mjög gott hjá Jóni Arnór en hann er einn af lykilmönnum Zaragoza á Spáni sem er sem stendur í 7. sæti ACB deildarinnar. Jón gerði nýjan tveggja ára samning við liðið fyrir þetta keppnistímabil. Jón sýndi og sannaði með íslenska landsliðinu í undankeppni Evrópukeppninnar að hann er á meðal bestu leikmanna Evrópu og nýtur hann mikillar virðingar. Jón Arnór er mikil fyrirmynd innan vallar sem utan.

Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttakona og mótorhjóla- og snjósleðaíþróttamaður ársins eru Signý Stefánsdóttir, Akstursíþróttafélagi Mývatnssveitar og Ingvi Björn Birgisson Vélhjólaíþróttaklúbbnum

Signý hefur verið áberandi í vélhjólaíþróttum undanfarin ár en hún er 19 ára gömul og varð Íslandsmeistari í þremur keppnisflokkum kvenna á árinu 2012. Hún varð Íslandsmeistari í opnum flokki kvenna í motocrossi, í Enduro - CC og í Ískrossi kvenna. Signý hefur tekið þátt og öðlast góða reynslu af þátttöku sinni í heimsbikarkeppni kvenna á undanförnum árum sem hefur skilað henni góðum árangri á heimavelli. Signý var jafnframt útnefnd Akstursíþróttamaður kvenna árið 2012 af Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasambandi Íslands. Ingvi Björn er einungis 16 ára gamall en afrekaði það á árinu að verða Íslandsmeistari í þremur flokkum. Í motocrossi í MX-Unglingaflokki og í MX2 flokki (flokkur fullorðinna á hjólum með vélarstærð undir 250 cc) og í Enduro CC2 flokki. Ingvi var að auki einn þriggja fulltrúa Íslands í heimsmeistarakeppninni Motocross of Nations í Belgíu en þar náði liðið besta árangri sem íslenskt lið hefur náð til þessa. Ingvi var útnefndur Akstursíþróttamaður karla árið 2012 af Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasambandi Íslands.

Page 8: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

7

Akstursíþróttamaður ársins er Hilmar Bragi Þráinsson, Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar

Hilmar Bragi hefur verið mjög virkur íþróttamaður í mótorsporti í mörg ár og hefur unnið til fjölda verðlauna í Rally og Rallycross keppnum. Má nefna að hann er Íslandsmeistari í Rallý 2012 og var Íslandsmeistari bæði í Rallycrossi og Rally árið 2009 og árið 2011 í sínum flokki. Einnig hefur Hilmar verið mjög öflugur í félagsstarfsemi og uppbyggingu á mótorsporti í Hafnarfirði. Hilmar er búsettur í Hafnarfirði og er með sitt eigið fyrirtæki í Hafnarfirði. Hilmar hefur verið valinn akstursíþróttamaður AÍH 2009. Hilmar er Íslandsmeistari í rally og rallycrossi mörg síðustu ár:

Rally 2012

Rally 2011

Rallycrossi Krónu flokki 2011

Rallycrossi 2000 flokki 2009

Rally 2000 flokki 2009

Rally Jeppa flokki 2007

Rally Nýliða flokki 2004

Rallycrossi 2000 flokki 2003

Skotíþróttakona og skotíþróttamaður ársins eru Jórunn Harðardóttir og Ásgeir Sigurgeirsson, bæði úr Skotfélagi Reykjavíkur

Jórunn er jafnvíg á riffil og skammbyssu. Hún varð Íslandsmeistari í Loftriffli, Loftskammbyssu, staðlaðri skammbyssu og enskum riffli. Einnig varð hún Reykjavíkurmeistari í Loftskammbyssu. Hún setti Íslandsmet í Loftskammbyssu 374 stig og í enskum riffli með final 673,5 stig. Einnig jafnaði hún Íslandsmetið í Loftriffli 383 stig.

Ásgeir sigraði á flestum þeim mótum sem hann keppti í á árinu hérlendis. Hann varð bæði Íslands-og Bikarmeistari í sínum greinum. Hann keppti í tveimur greinum á Ólympíuleikunum í London og varð þar í 14. sæti í Loftskammbyssu og í 32. sæti Frjálsri skammbyssu. Hann tók þátt í fjölda alþjóðlegra móta á árinu. Hann varð meðal annars í öðru sæti á einu sterkasta mótinu IWK í München í janúar. Einnig hafnaði hann í 22. sæti á Evrópumeistaramótinu í Finnlandi í febrúar og í 23. sæti á Heimsbikarmótinu í München í lok maí. Hann er nú í byrjun desember í 21. sæti á heimslistanum í Loftskammbyssunni og í 47. sæti í Frjálsri skammbyssu. Á Evrópulistanum er hann í 14. sæti í Loftskammbyssu og í 29. sæti í Frjálsri skammbyssu.

Page 9: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

8

Glímukona og glímumaður ársins eru Marín Laufey Davíðsdóttir, HSK og Pétur Eyþórsson, Glímufélaginu Ármanni

Marín Laufey er 17 ára gömul og átti frábæru gengi að fagna á glímuvellinum árið 2012. Marín sigraði í Íslandsglímunni 2012 og hlaut þar með Freyjumenið í annað sinn. Marín er fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan.

Pétur er 34 ára gamall og hefur stundað glímu í yfir tuttugu ár. Pétur hampaði Grettisbeltinu í sjöunda sinn árið 2012 sem gerir hann að einum sigursælasta glímukappa Íslands frá upphafi. Pétur hefur ótvírætt verið fremsti glímumaður Íslands undanfarin ár. Hann glímir vel og er góð fyrirmynd jafnt innan vallar sem utan.

Júdókona og júdómaður ársins eru Ásta Lovísa Arnórsdóttir og Þormóður Jónsson, bæði úr Júdófélagi Reykjavíkur

Ásta Lovísa bar höfuð og herðar yfir keppinauta sína hér á landi og vann flest öll þau mót sem hún tók þátt í þrátt fyrir að hafa þurft að keppa við þyngri andstæðinga þegar þyngdarflokkar voru sameinaðir. Helsti árangur hennar er Íslandsmeistari í -57 kg þyngdarflokki, Íslandsmeistari með félagi sínu JR í sveitakeppni JSÍ, Reykjavíkurmeistari og gullverðlaun á RIG. Helsti árangur 2012. Íslandsmeistaramót 1. sæti Reykjavík International. (RIG) 1. sæti Reykjavíkurmeistaramót 1.sæti Sveitakeppni JSÍ (Íslandsmót) 1.sæti Haustmót JSÍ 1.sæti Afmælismót JSÍ 2.sæti

Þormóður meiddist snemma á árinu og var frá keppni fram í apríl og missti því af helstu mótum hér heima eins og Íslandsmeistaramóti en náði að keppa með félagi sínu JR sem varð Bikarmeistari 2012 og varð í öðru sæti í sveitakeppni JSÍ. Hann náði að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í London og voru það hans aðrir leikar. Auk þeirra tók hann þátt í fjórum alþjóðlegum mótum á árinu og náði bestum árangri á Opna breska en þar varð hann í sjöunda sæti og á European Cup í Prag varð hann í níunda sæti. Helsti árangur 2012. Opna breska í London 7. sæti European Cup í Prag 9. sæti Bikarkeppnin 1. sæti Sveitakeppni JSÍ (Íslandsmót) 2.sæti

Page 10: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

9

Karatekona og karatemaður ársins eru Aðalheiður Rósa Harðardóttir, karatedeild Breiðabliks og Kristján Helgi Carrasco, karatedeild Víkings

Aðalheiður Rósa hefur verið fastur meðlimur í landsliði Íslands í kata undanfarin ár og tekið þátt í fjölda móta erlendis með góðum árangri. Fyrst ber að nefna árangur hennar á Heimsmeistaramótinu í karate, í nóvember 2012, þar sem hún hafnaði í 9.-16. sæti af 51 keppanda, eftir að hafa unnið í fyrstu tveimur umferðum og komist í þriðju umferðina á mótinu. Að auki þá náði Aðalheiður mjög góðum árangri á Banzai Cup sem er mjög sterkt mót í Þýskalandi auk þess sem hún tók þátt í Evrópumeistaramóti unglinga sem fór fram í Baku í Azerbaijan, í febrúar á þessu ári. Stærsta stund Aðalheiðar á þessu ári var á Norðurlanda-meistaramótinu í karate þegar hún ásamt liðsfélögum sínum lönduðu Norðurlandameistaratitli í hópkata og um leið fyrsta Norðurlandameistaratitli í sveitakeppni í karate sem Ísland hefur unnið. Aðalheiður Rósa er nú í 46. sæti á heimslista WKF yfir keppendur í kata kvenna. Helstu afrek Aðalheiðar Rósu á árinu 2012 voru: 1. Norðurlandameistari í hópkata 2. Íslandsmeistari í einstaklingskata 3. Íslandsmeistari í hópkata 4. 5. sæti í kata kvenna á Banzai Cup, Þýskalandi 5. 9.-16. sæti í kata kvenna á Heimsmeistaramóti í París 2012 (af 51 keppanda) 6. 46. sæti á heimslista yfir keppendur í kata kvenna Aðalheiður hefur verið nær ósigrandi í kata hér á landi sem sýnir hversu mögnuð íþróttakona hún er. Kristján Helgi hefur vaxið sem karatemaður hvert ár og var árið 2012 engin undantekning. Kristján Helgi keppir bæði í kata og kumite og hefur verið nær ósigrandi á þessu ári í báðum flokkum. Hann er bikarmeistari eftir að hafa leitt hvert bikarmót á fætur öðru og lét forystu sína aldrei af hendi frá fyrsta mótinu. Kristján Helgi er fjórfaldur Íslandsmeistari sem er einstakur árangur hjá svo ungum íþróttamanni, en titlarnir eru bæði í einstaklingsflokkum sem og í liðakeppni. Kristján Helgi hefur verið fastur landsliðsmaður í karate síðustu ár og tekið þátt í flestum þeim verkefnum sem landsliðið hefur staðið fyrir á árinu. Helstu afrek Kristjáns Helga á árinu 2012 voru: 1. Bikarmeistari karla 2011-2012 2. Íslandsmeistari í kata karla 3. Íslandsmeistari í kumite, opnum flokki 4. Íslandsmeistari í kumite –75kg 5. Íslandsmeistari kumite, sveitakeppni karla Árangur Kristjáns Helga á árinu sýnir hversu magnaður íþróttamaður hann er.

Page 11: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

10

Taekwondokona og taekwondomaður ársins eru Ástrós Brynjarsdóttir og Kristmundur Gíslason, bæði úr Taekwondodeild Keflavíkur

Ástrós er ein efnilegasta íþróttakona Suðurnesja þrátt fyrir ungan aldur. Hún æfir af kappi með unglingalandsliðum Íslands og taekwondodeild Keflavíkur. Ástrós tekur þátt í öllum mótum, mætir vel og sýnir íþrótt sinni mikinn áhuga. Það er ljóst þegar hún keppir en hún nær þar ótrúlegum árangri sem seint verður leikinn eftir. Hún er undantekningalaust á verðlaunapalli og hefur t.a.m. aldrei tapað í keppni í einstaklingstækni sem er ótrúlegur árangur fyrir einhvern sem hefur keppt jafnlengi og hún. Í vor tók hún svarta beltið í taekwondo ásamt fjórum öðrum efnilegum einstaklingum úr Keflavík. Það er ljóst að framtíðin er björt fyrir þessa ungu íþróttakonu, en einungis á þessu ári hefur hún náð fjórum af fjórum mögulegum Íslandsmeistaratitlum, tekið þrjú gull, eitt silfur og eitt brons á erlendum mótum og fengið samtals tólf gull á þeim mótum sem hún hefur keppt á og fengið fjölda viðurkenninga fyrir góða tækni og keppnisárangur. Árangur á árinu:

12 gull, 2 silfur og 1 brons

Viðurkenningar = Besti keppandinn í bardaga. Besti keppandi í tækni. Besti keppandinn í samanlögðum árangri þrisvar sinnum. Hæsta einkunn á svartabeltisprófi.

Fjórir Íslandsmeistarartitlar á árinu.

Besti mögulegi árangur í tækni á öllum fimm mótum ársins í þeirri grein.

Besti mögulegi árangur á Scottish Open, tæplega 400 manna alþjóðlegu móti.

Kristmundur hefur verið einn besti unglingakeppandi landsins um árabil og kórónar það með frábærum árangri á árinu. Kristmundur var valinn af landsliðsþjáfara til að fara á heimsmeistaramót unglinga sem haldið var í Egyptalandi í apríl. Íslandsmótið var haldið stuttu fyrir mótið og því var tekin sú ákvörðun að Kristmundur myndi ekki keppa þar til að koma í veg fyrir hugsanleg meiðsli og hvíla Kristmund fyrir stóra mótið. Kristmundur stóð sig mjög vel á þessu stærsta móti ferilsins hingað til. Kristmundur var einn fárra keppenda sem sat hjá í fyrstu umferð. Þar á eftir keppti hann við keppanda frá Ástralíu. Hann barðist mjög vel og sigraði bardagann örugglega. Þar á eftir keppti hann við feikisterkan keppanda frá Tyrklandi og tapaði fyrir honum. Hann endaði í 5.-8. sæti í sínum flokki.

Kristmundur keppti á bikarmóti taekwondosambandsins og sigraði sinn flokk örugglega.

Kristmundur keppti einnig á Norðurlandamótinu en þar sem enginn keppandi var skráður í hans flokk var hann látinn keppa upp fyrir sig í aldri og reynslu og lét þar í minni pokann fyrir sterkari andstæðingi. Kristmundur keppti svo á Scottish Open í nóvember og keppti þar í tveimur aldursflokkum, bæði í unglinga og fullorðinsflokki. Kristmundur vann til bronsverðlauna í fullorðinsflokki og sigraði

Page 12: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

11

unglingaflokkinn örugglega. Fyrsti bardaginn fór 14-2 honum í vil og úrslitabardagann í unglingaflokki sigraði Kristmundur á glæsilegu sparki sem rotaði andstæðinginn eftir aðeins um 30 sekúndur. Árangur á árinu

Bikarmót TKÍ 3 2012- Gull í Bardaga

Heimsmeistaramót unglinga Egyptaland – 5.-8. sæti

Scottish Open 2012 unglingaflokkur - Gull

Scottish Oen 2012 fullorðinsfókkur - Brons Kristmundur er einstaklega kraftmikill og öflugur keppandi og hefur frá fyrstu æfingu sýnt mikla ákveðni til að ná árangri. Það er því augljóst að Kristmundur er einn sterkasti keppandi Íslendinga um þessar mundir og verður spennandi að fylgjast með honum í náinni framtíð.

Siglingakona og siglingamaður ársins eru Lilja Gísladóttir og Björn Heiðar Rúnarsson, bæði úr Siglingafélaginu

Nökkva á Akureyri Lilja var í öðru sæti á Íslandsmóti á Laser Radial árið 2012. Laser Radial er opinn flokkur þar sem karla og konur keppa til jafns. Lilja hefur staðið í toppbaráttunni í siglingum undanfarin ár og gefur karlmönnunum ekkert eftir. Mikil seigla og viljastyrkur einkenna Lilju en hún er ein fárra kvenna sem stunda siglingar í Siglingafélaginu Nökkva á Akureyri. Þrátt fyrir frekar bágborna aðstöðu fyrir konur hjá siglingafélaginu er Lilja eins og ein af strákunum, dugleg ,ósérhlífin og mikil baráttukona.

Björn Heiðar er Íslandsmeistari í siglingum á Laser árið 2012. Hann hefur lengi verið í toppbarátunni um Íslandsmeistaratitilinn. Hann var áður Íslandsmeistari á Laser árið 2010. Björn hefur siglt síðan hann var barn að aldri og keppt á fjölmörgum gerðum báta. Björn Heiðar hefur einnig keppt fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum auk þess sem hann tekur nú þátt í undirbúningi fyrir heimsmeistarmót í siglingum í Santander á Spáni 2014. Björn Rúnar keppir fyrir hönd Siglingafélagsins Nökkva á Akureyri.

Kayakkona og kayakmaður ársins eru Þóra Atladóttir og Ólafur Einarsson, bæði úr Kayakklúbbnum

Þóra er Íslandsmeistari kvenna í sjókayak 2012. Hún sigraði fjölmennustu keppni sumarsins, Reykjavíkurbikarinn, og var eina konan sem tók þátt í Hvammsvíkurmaraþoninu. Þóra var einnig hársbreidd frá því að taka titilinn í fyrra, en missti af fyrsta sætinu á hlutkesti eftir keppnir sumarsins. Þóra er feykiöflugur ræðari og mjög sjáanleg í öllu klúbbstarfi, sundlaug, félagsróðrum, æfingaróðrum, ferðum o.s.frv. Alltaf tilbúin að miðla reynslu og aðstoða.

Ólafur er Íslandsmeistari karla í sjókayak 2012. Hann sigraði þær sjókayakkeppnir sem boðið var upp á 2012 örugglega og er vel að titlinum kominn. Ólafur hefur orðið Íslandsmeistari fjórum sinnum á síðustu fimm árum og þar kemst enginn með tærnar þar sem hann hefur hælana. Ólafur er einnig formaður ungliða- og fræðslunefndar Kayakklúbbsins og hefur undanfarið ár skipulagt æfingahóp sem stundar reglulega róður á brimskíðum sem er skemmtileg viðbót við hinn hefðbundna sjókayakróður.

Page 13: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

12

Lyftingamaður og lyftingakona ársins eru Anna Hulda Ólafsdóttir og Gísli Kristjánsson, bæði úr Lyftingafélagi Reykjavíkur

Anna Hulda hefur æft ólympískar lyftingar í rúmt ár en hún kemur sterk inn í íþróttina með bakgrunn úr fimleikum. Anna Hulda tók þátt á sínu fyrsta móti í ólympískum lyftingum á Reykjavík International Games (RIG) í janúar 2012 og setti þá strax tvö Íslandsmet þegar hún snaraði 55 kg og var með 120 kg samanlagt í sínum flokki (-58 kg). Anna Hulda var þó ekki hætt þar en í september fór hún á Norðurlandamót fullorðinna og gerði hún sér lítið fyrir þegar hún hafnaði í þriðja sæti í sínum flokki (-58 kg) og kom heim fyrst allra íslenskra kvenna með verðlaunapening á Norðurlandamóti í lyftingum. Á því móti lyfti hún 56 kg í snörun og 80 kg í jafnhendingu og jafnaði þar með Íslandsmetið sem hún hafði sett í júlí sama ár á Akureyri í jafnhendingu og endaði með 136 kg samanlagt. Á síðasta móti ársins sem haldið var í Sporthúsinu 22. desember síðastliðinn afrekaði Anna það að slá þrjú Íslandsmet í sínum flokki (-58 kg) þegar hún snaraði 67 kg og jafnhnattaði 86 kg og var þar með með samanlagt 153 kg.

Gísli er einn reyndasti og farsælasti lyftingamaður Íslands um þessar mundir. Hann er margfaldur Íslandsmeistari og hefur á sínum ferli keppt víða um heim og hefur meðal annars orðið Norðurlandameistari. Á árinu 2012 keppti Gísli á tveimur stórum mótum, Reykjavík International Games (RIG) og Íslandsmótinu í ólympískum lyftingum sem var haldið í Borgarnesi. Bæði mótin sigraði Gísli nokkuð örugglega. Á Reykjavíkurleikunum setti hann nýtt Íslandsmet í snörun í sínum flokki (+105) þegar hann lyfti 156 kg. Sú lyfta er jafnframt 14 kg yfir núgildandi heimsmeti í hans aldursflokki (45-49 ára) en þetta mót telur því miður ekki þegar kemur að heimsmeti, en vonandi nær hann að slá það á stóru móti á næstu árum. Besti árangur Gísla á árinu var 156 kg snörun og 169 kg jafnhending sem hann náði á Reykjavíkurleikunum.

Page 14: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

13

Kraftlyftingakona og kraftlyftingamaður ársins eru María Guðsteinsdóttir, Ármanni og Auðunn Jónsson, Breiðabliki

María er ein fremsta kraftlyftingakona Norðurlanda og hefur borið höfuð og herðar yfir aðra keppendur í kvennaflokki. María hefur sett fjölda Íslandsmeta á árinu. María er í 19.sæti á heimslista IPF í sínum þyngdarflokki Helstu afrek 2012: Íslandmeistari í bekkpressu, -63 kg flokki Íslandsmeistari í réttstöðulyftu, -72 kg flokki 9. sæti á Evrópumóti í kraftlyftingum, -63 kg flokki 11.sæti á Heimsmeistaramóti í kraftlyftingum, -63 kg flokki Auðunn hefur átt mjög gott ár 2012. Auðunn hefur sett ótal Íslandsmet á árinu, m.a. 1050,0 kg samanlagt sem jafnframt er heimsmet í flokki karla 40 ára og eldri. Auðunn er í 6.sæti á heimslista IPF í sínum þyngdarflokki. Helstu afrek 2012, öll í +120,0 kg flokki: Íslandsmeistari í kraftlyftingum Íslandsmeistari í bekkpressu 5.sæti á Evrópumóti í kraftlyftingum 8. sæti á Heimsmeistaramóti í kraftlyftingum Gullverðlaun í réttstöðulyftu á HM Silfurverðlaun í réttstöðulyftu á EM

Frjálsíþróttakona og frjálsíþróttamaður ársins eru Ásdís Hjálmsdóttir, Ármanni og Kári Steinn Karlsson, Breiðabliki

Ásdís setti nýtt Íslandsmet í undankeppni Ólympíuleikanna í London þegar hún kastaði spjótinu 62,77 m. Ásdís hafnaði síðan í 11.sæti í

úrslitakeppninni sjálfri. Á Evrópumeistaramótinu í Helsinki varð hún í 13.sæti. Kári Steinn varð í 42. sæti í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum síðastliðið sumar. Hann var einnig í 2. sæti á Norðurlandamótinu í 10 km hlaupi.

Page 15: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

14

Íþróttakona og íþróttamaður fatlaðra eru Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir, ÍFR og Jón Margeir Sverrisson, Fjölni

Matthildur Ylfa er nemi í 10. bekk við Norðlingaskóla og stundar frjálsar íþróttir fyrir ÍFR og æfir einnig í úrvalshóp Kára Jónssonar landsliðsþjálfara Íþróttasambands fatlaðra í frjálsum íþróttum. Matthildur stundar einnig sund með ÍFR en hennar sundferill hófst hjá Ármanni. Í frjálsum keppir Matthildur í flokki F og T 37, flokki spastískra en í sundi keppir hún í flokki S7. Þjálfarar Matthildar hafa verið Þórunn Guðmundsdóttir, Erlingur Þ. Jóhannsson (látinn), Tomas Hajek og Kári Jónsson.

Matthildur hóf árið innanhús þar sem hún setti þrjú ný Íslandsmet á ÍM 15-25 ára í febrúar. Metin komu í 60m og 200m hlaupi og svo langstökki.

Í mars hélt Matthildur utan til Túnis á alþjóðlegt mót þar sem hún setti nýtt Íslandsmet í langstökki er hún stökk 4,10m. og annað met í Túnis leit dagsins ljós er hún hljóp 200 metrana á 37,76 sek.

Örfáum dögum eftir keppnina í Túnis var Matthildur komin á Íslandsmót ÍF í Laugardal þar sem hún stórbætti Íslandsmetið sitt í langstökki er hún stökk 4,28m.

Á Ólympíumóti fatlaðra í London stökk Matthildur sig inn í átta kvenna úrslit en Íslandsmetið vildi ekki falla í það skiptið. Íslandsmet féll engu að síður hjá henni í London þegar hún kom í mark á 32,16 sek. í 200m hlaup.

Matthildur er margfaldur Íslandsmeistari árið 2012, Ólympíufari, verðlaunahafi á alþjóðlegu móti í Túnis þar sem hún vann silfur í langstökki og bronsverðlaunahafi á EM í langstökki.

Jón Margeir er sundmaður hjá Fjölni. Árið 2012 hefur verið viðburðaríkt hjá Jóni þar sem hann varð Ólympíumeistari í 200m. skriðsundi á Ólympíumótinu í London. Jón setti einnig nýtt og glæsilegt heimsmet í þessu sama sundi. Jón er okkar fremsti sundmaður í flokki S14 (flokkur þroskahamlaðra). Þjálfarar Jóns Margeirs frá upphafi eru: Ingi Þór Einarsson, Ingigerður Maggý Stefánsdóttir, Vadim Forafonov og Ragnar Friðbjarnarson.

Jón Margeir eins og svo margir aðrir sundmenn hóf árið 2012 með þátttöku á RIG þar sem hann setti þrjú ný Íslandsmet.

Á Gullmóti KR í febrúar setti Jón heimsmet í 1500m skriðsundi á tímanum 17:18,86 mín. og annað heimsmet leit dagsins ljós á Opna þýska meistaramótinu mánaðarmótin júní-júlí þegar Jón synti 800m skriðsund á 9,00,03 mín.

Ólympíumótið í London tók svo við þar sem Jón setti nýtt og glæsilegt heimsmet í 200m skriðsundi er hann synti á tímanum 1:59,62 mín. Þessi tími var jafnframt Íslandsmet og Ólympíumet sem standa mun óhaggað amk. þangað til Ólympíumótið í Ríó 2016 fer fram.

Á Íslandsmóti ÍF í 25m laug í nóvember setti Jón Margeir svo þrjú ný Íslandsmet.

Jón er margfaldur Íslandsmeistari árið 2012, þrefaldur heimsmethafi, ólympíumótsmethafi og gullverðlaunahafi í 200m skriðsundi á Ólympíumótinu í London.

Page 16: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

15

Knattspyrnukona og knattspyrnumaður ársins eru Þóra Björg Helgadóttir, LdB Malmö og Gylfi Þór Sigurðsson, Tottenham

Þóra Björg var sem fyrr einn af lykilleikmönnum sænska liðsins Malmö og stóð í markinu í öllum leikjum liðsins. Hún var, þar að auki, valin besti markvörður úrvalsdeildarinnar í Svíþjóð að tímabilinu loknu. Malmö missti af titlinum í síðasta leik mótsins en liðið er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildarinar þar sem Þóra og félagar mæta Evrópumeisturum Lyon frá Frakklandi. Eftir tímabilið í Svíþjóð var Þóra lánuð til Ástralíu þar sem hún leikur með Western Sidney Wanderers fram á næsta ár. Þóra lék 11 landsleiki Íslands á árinu og var einn lykilmanna landsliðsins sem tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM sem fram fer í Svíþjóð á næsta ári. Þóra hefur leikið 92 A-landsleiki á ferlinum og ekki loku fyrir því skotið að sá hundraðasti bætist í safnið á næsta ári.

Gylfi Þór sló í gegn í ensku úrvalsdeildinni á árinu en hann var lánaður frá þýska félaginu Hoffenheim til Swansea um áramótin. Hann lék 18 leiki með Swansea og skorað í þeim 7 mörk og var m.a. kosinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í marsmánuði. Hann var eftirsóttur eftir tímabilið og gekk að lokum til liðs við Tottenham sem borgaði þýska félaginu 8 milljónir punda fyrir Gylfa. Þar hefur hann komið við sögu í 13 leikjum það sem af er ensku úrvalsdeildinni þegar þetta er skrifað. Gylfi lék átta landsleiki á árinu og skoraði í þeim eitt mark, glæsilegt sigurmark í útileik gegn Albaníu. Hann hefur samtals leikið 14 A-landsleiki og skorað í þeim tvö mörk.

Skylmingakona og skylmingamaður ársins eru Þorbjörg Ágústsdóttir, Skylmingafélagi Reykjavíkur og Hilmar Örn Jónsson, skylmingadeild FH

Þorbjörg varð Norðurlandameistari kvenna í skylmingum með höggsverði árið 2012 í áttunda skiptið. Þorbjörg hafnaði í 37. sæti á Evrópumeistaramótinu 2012, haldið að þessu sinni í Legnano á Ítalíu.

Þetta var sterkasta mót ársins í skylmingaheiminum. Hilmar vann það einstaka afrek að verða Íslandsmeistari í U21, Opna flokknum og í liðakeppni á árinu 2012. Þetta er annað árið í röð sem Hilmar vinnur þessa flokka. Hilmar varð einnig Norðurlandameistari í U21 og 2. sæti í Opna flokknum, hann var í A‐liði Íslands sem varð Noðurlandameistari í liðakeppni.

Page 17: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

16

Fimleikakona og fimleikamaður ársins eru Íris Mist Magnúsdóttir og Róbert Kristmannsson, bæði úr Gerplu

Íris Mist Magnúsdóttir, Gerplu

Íris Mist hefur um árabil verið

lykilmanneskja íslenskra fimleika og

frammistaða hennar í landsliði Íslands í

hópfimleikum verið til mikillar

fyrirmyndar. Íris Mist var einn af

máttarstólpum landsliðsins sem varði

Evrópumeistaratitil Íslands í

kvennaflokki á Evrópumeistaramótinu í

hópfimleikum, sem fór fram í Aarhus í

Danmörku í október. Íris Mist er þekkt

fyrir að framkvæma allar æfingar með

mikilli einbeitingu, krafti og glæsileika

en að auki að vera mikill styrkur fyrir

sína liðsfélaga innan sem utan vallar.

Íris Mist hefur lengi verið ein besta fimleikakona Evrópu og hefur framkvæmt mörg af flóknustu

stökkum sem sést hafa á Evrópumeistaramótum. Íris Mist hefur unnið til fjölda titla í hópfimleikum á

undanförnum árum, m.a. tvo Evrópumeistaratitla 2010 og 2012. Hún hefur unnið alla titla sem í boði

eru á Íslandi frá árinu 2005 með félagsliðinu sínu, Gerplu. Að auki er Íris Mist góð fyrirmynd yngri

iðkenda, hvort sem er við þjálfun eða ástundun.

Róbert Kristmannsson, Gerplu

Róbert hefur verið yfirburðarmaður í íslenskum áhaldafimleikum og burðarrás í landsliðshópi karla á

undanförnum árum. Róbert keppti á flestum mótum ársins 2012 og varð Íslandsmeistari í fjölþraut

karla ásamt því að sigra á öllum einstökum áhöldum og er því sjöfaldur Íslandsmeistari. Að auki hefur

Róbert tekið þátt í fjölmörgun verkefnum með landsliðinu og staðið sig mjög vel. Róbert komst m.a. í

úrslit á tveimur áhöldum, bogahesti og svifrá á Norðurlandameistaramóti fullorðinna sem haldið var í

Greeve Danmörku í apríl, varð í 7. sæti í fjölþraut, 4. sæti á svifrá og 5. sæti á bogahesti. Róbert hefur

verið óskoraður leiðtogi sinna liðsmanna og er mikil fyrirmynd ungra fimleikapilta.

Hjólreiðakona og hjólreiðamaður ársins eru María Ögn Guðmundsdóttir og Hafsteinn Ægir Geirsson, bæði úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur.

Page 18: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

17

Sundkona og sundmaður ársins eru Eygló Ósk Gústafsdóttir og Anton Sveinn Mckee, bæði úr Sundfélaginu Ægi

Eygló Ósk er stigahæsta íslenska konan í 25m laug í 200m baksundi (820 FINA stig) og stigahæst í 50 metra laug (877 FINA stig) og ber höfuð og herðar yfir aðrar íslenskar sundkonur í þeim samanburði. Hún hefur á árinu sett og bætt Íslandsmet í 100 metra baksundi og 200 metra baksundi í báðum laugarlengdum auk þess að setja Íslandsmet í 200 metra fjórsundi í báðum brautarlengdum. Einnig setti hún Íslandsmet í 1500m skriðsundi nú í október í 25m braut. Eygló Ósk er númer 37 á heimslista FINA í 200 metra baksundi og númer 91 í 100 metra baksundi í löngu brautinni og númer 39 í 200 metra baksundi, 56 í 100 metra baksundi og númer 92 í 100 metra skriðsundi miðað við stuttu brautina. Hún á bestu tíma íslenskra sundkvenna innan ársins í 200 metra skriðsundi, 100 og 200 metra baksundi og 200 metra fjórsundi í báðum brautarlengdum. Eygló Ósk er mjög fjölhæf sundkona, er margfaldur Íslandsmeistari í báðum brautarlengdum. Hún er mjög ákveðin og á auðvelt með að setja sér markmið og ná þeim. Hún er meðvitað um stöðu sína sem fyrirmynd og er skipulögð í lífi sínu gagnvart íþróttinni, námi og fjölskyldu.

Anton Sveinn er stigahæsti íslenski karlmaðurinn í 25m (838 FINA stig) og sá næst stigahæsti í 50m laug (838 FINA stig). Hann hefur á árinu sett og bætt Íslandsmet sitt í 1500 metra skriðsundi og 800 metra skriðsundi í báðum laugarlengdum auk þess að setja Íslandsmet í 400 metra fjórsundi í 50 og 25 metra brautum. Anton er númer 98 á heimslista FINA í 800 metra skriðsundi og númer 146 í 400 metra fjórsundi miðað við löngu brautina, en númer 64 í 800 metra skriðsundi, 72 í 1500 metra skriðsundi, 71 í 400 metra skriðsund og 84 í 100 metra bringusundi miðað við stuttu brautina. Hann á bestu tíma íslenskra sundmanna innan ársins í 200, 400, 800 og 1500 metra skriðsundum og 200 og 400 metra fjórsundi í báðum brautarlengdum. Hann hefur verið að stimpla sig inn sem verðugur arftaki bæði Arnar Arnarsonar og Jakobs Jóhanns Sveinssonar.

Anton Sveinn er margfaldur Íslandsmeistari í báðum brautarlengdum, er mjög fjölhæfur sundmaður, hefur mikið úthald og er betri í löngum sundum. Hann er meðvitaður um stöðu sína sem fyrirmynd og er skipulagður í lífi sínu gagnvart íþróttinni, námi og fjölskyldu.

Page 19: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

18

Þríþrautarkona og þríþrautarmaður ársins eru Birna Björnsdóttir og Hákon Hrafn Sigurðsson, bæði úr Sundfélagi Hafnarfjarðar

Birna Björnsdóttir keppir fyrir 3SH og sigraði í öllum þríþrautarmótum hér heima á árinu 2012 og var þar með stigahæst kvenna eða stigameistari 2012. Hún varð einnig Íslandsmeistari í hálfum járnkarli á nýju Íslandsmeti. Hún tók þátt í einni alþjóðlegri þríþrautarkeppni í Köln og hafnaði þar í 3. sæti í ólympískri vegalengd.

Hákon Hrafn Sigurðsson keppir fyrir 3SH og var afar sigursæll á árinu. Hann varð Íslandsmeistari í hálfum járnkarli og tímatökukeppni. Hann setti brautarmet í ½ ÓL-þraut og tvíbætti brautarmetið í

Heiðmerkurtvíþrautinni. Hann keppti alls í 10 tví-og þríþrautum og sigraði í átta þeirra en varð í öðru sæti í hinum.

Skíðakona og skíðamaður ársins eru María Guðmundsdóttir, Skíðafélagi Akureyrar og Sævar Birgisson, Skíðafélagi Ólafsfjarðar

María hefur verið ein fremsta skíðakona landsins í alpagreinum undanfarin ár. María er Íslandsmeistari í svigi. María átti mjög gott tímabil og bætti stöðu sína á heimslista en hún komst hæst í 287. sæti í svigi og færðist upp um 158. sæti á tímabilinu, í stórsvigi færðist hún upp um 419. sæti á heimslista. María sigraði á fjórum sterkum alþjóðlegum FIS mótum Noregi, einnig varð hún í 2. sæti á fimm sterkum FIS mótum í Noregi. María meiddist á Skíðamóti Íslands í apríl en hefur náð mjög góðum bata og nálgast nú sitt fyrra form. Sævar hefur verið í fremstu röð skíðagöngumanna landsins mörg undanfarin ár.

Sævar hefur á árinu tekið stöðugum framförum í keppni á erlendri grundu og er mjög einbeittur í að komast á Ólympíuleikana í Sochi í Rússlandi 2014. Sævar er búsettur í Ulricehamn í Svíþjóð í vetur og æfir þar undir handleiðslu landsliðsþjálfarans Linusar Davidssonar. Á fyrstu mótum vetrarins hefur Sævar stórbætt fyrri árangur og náði Ólympíulágmarki á FIS móti í Idrefjell í Svíþjóð 1.-2. desember s.l. þegar hann hafnaði í 13. sæti. Fyrir þann árangur náði hann 86 FIS stigum en Ólympíulágmarkið er 120 FIS stig þannig að hann var langt innan þeirra marka. Þessi árangur er sá besti sem skíðagöngumaður hefur náð í hátt í 20 ár. Sævar var einnig Íslandsmeistari í sprettgöngu á Skíðamóti Íslands sem fram fór á Akureyri síðasta vetur.

Page 20: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

19

Íshokkíkona og íshokkímaður ársins eru Anna Sonja Ágústsdóttir, Skautafélagi Akureyrar og Ólafur Hrafn Björnsson, Birninum Reykjavík

Anna Sonja er 24 ára varnarmaður sem leikur með Skautafélagi Akureyrar. Hún hóf að æfa íshokkí sex ára gömul og hefur leikið allan sinn feril með Skautafélagi Akureyrar, að undanskildu einu ári þegar hún lék með Malmö Redhawks í Svíþjóð. Anna Sonja hefur spilað með öllum landsliðum kvenna sem valin hafa verið á Íslandi frá upphafi. Hún er fyrirliði kvennaliðs Skautafélags Akureyrar sem eru núverandi Deildar- og Íslandsmeistarar. Anna Sonja er auk þess fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í íshokkí og hefur á tveimur síðastliðnum heimsmeistaramótum, sem liðið tók þátt í, verið valin besti varnarmaður mótsins. Anna Sonja er fyrst kvenna til að vera valin íshokkíkona ársins oftar en einu sinni.

Ólafur Hrafn er tvítugur sóknarmaður sem leikur með Birninum í Reykjavík. Björninn er núverandi Íslandsmeistari í íshokkí og er þetta jafnramt fyrsti Íslandsmeistaratitill liðsins. Ólafur Hrafn hóf ungur að æfa íshokkí í Svíþjóð en hann hefur allan sinn feril leikið þar eða með liði sínu Birninum. Ólafur Hrafn hefur undanfarin ár verið með stiga- og markahæstu leikmönnum á Íslandsmótinu. Ólafur Hrafn var fyrirliði landsliðs Íslands skipað leikmönnum 20 ára og yngri en liðið vann í janúar sl., rétt til þess að leika í 2. deild á komandi tímabili. Að mótinu loknu var Ólafur valinn, af þjálfara liðsins, besti leikmaður íslenska liðsins. Ólafur Hrafn hefur tvö síðastliðin keppnistímabil átt sæti í karlalandsliði Íslands í íshokkí en bæði árin hefur liðið toppað sinn besta árangur til þessa.

Skautakona ársins er Vala Rún B. Magnúsdóttir, Skautafélagi Reykjavíkur

Vala Rún hefur tekið þátt í öllum mótum hérlendis og erlendis á árinu sem eru níu talsins fyrir utan Haustmót ÍSS, en þá átti hún við meiðsli að stríða. Vala Rún tók þátt í öllum þeim mótum erlendis sem henni bauðst að taka þátt í á vegum Skautasambands Íslands og stóð sig þar með ágætum. Vala Rún byrjaði árið 2012 með því að taka þátt á Reykjavík International Games og var í fyrsta sæti í sínum flokki, Advance Novice. Á Noðurlandamóti í febrúar náði hún 11. sæti, sem er besti árangur sem íslenskur listhlaupaskautari hefur náð á Norðurlandamóti. Vetrarmót ÍSS 2012 var haldið í lok febrúar þar keppti Vala Rún sem Junior skautari í fyrsta skipti (næsti flokkur fyrir ofan Advance Novice) og hreppti þar fyrsta sæti. Vala Rún toppaði síðan árangur sinn á Reykjavíkurmót 2012 í apríl með fyrsta sæti og fékk hæsta stig sem gefið hefur verið í Junior flokki á Íslandi. Með frábærum árangri tryggði Vala Rún sér sæti á Junior Grand Prix sem var haldið í Linz í Austuríki í september síðast liðinn og skilaði þar besta

Page 21: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

20

skori Íslendinga fram að því. Vala Rún hefur síðan haldið ótrauð áfram það sem af er þessum vetri og sannað sig sem einn af efnilegstu skauturum okkar Íslendinga í dag. Á Bikarmóti ÍSS 2012 náði hún fyrsta sæti og öðru sæti á Íslandsmóti ÍSS 2012 og hefur með því tryggt sér þátttöku á Norðurlandamóti 2013 sem haldið verður hér á landi 31. janúar til 3. febrúar. Vala Rún er til fyrirmyndar í alla staði sem íþróttamaður og hefur alla tíð lagt sig hundrað prósent fram í sínum æfingum og sem keppandi. Skautasamband Íslands telur Völu Rún Magnúsdóttir verðuga sem Skautakonu ársins 2012.

Krullari ársins er Jens Kristinn Gíslason, Skautafélagi Akureyrar

Þetta er í annað sinn sem Jens er valinn krullumaður ársins en síðast var hann valinn 2010. Jens er fyrirmyndar íþróttamaður og þekktur fyrir yfirvegun, nákvæmni, vandvirkni og samviskusemi. Jens er lykilmaður í liði Mammúta sem unnu Íslandsmeistaratitilinn árið 2012. Liðið tók einnig þátt í C-keppni Evrópumóts landsliða sem fram fór í Tyrklandi í október síðastliðnum. Jens er vel að þessari nafnbót kominn enda góður fulltrúi krullufólks innan lands sem utan.

Knapi ársins er Guðmundur Björgvinsson, Hestamannafélaginu Geysi

Guðmundur á að baki breiðan árangur á árinu sem er að líða og var tilnefndur til verðlauna í þremur flokkum á Uppskeruhátíð hestamanna í nóvember. Hann virðist vera jafnvígur í öllum greinum hestamennskunnar, hvort sem það er gæðingakeppni, íþróttakeppni eða sýningar af ýmsum toga. Hann sýndi 62 hross á árinu og mörg þeirra til æðstu viðurkenninga í sínum flokki, eins og hryssuna Furu frá Hellu í flokki 5v hryssna á Landsmótinu í Reykjavík og Sjóð frá Kirkjubæ í flokki 5v stóðhesta. Guðmundur sýndi styrk sinn í gæðingakeppni Landsmóts, þar sem hann kom mörgum gæðingum inná mót í gegnum úrtökur hestamannafélaganna og kom nokkrum þeirra alla leið eða í úrslitin og kom inn á mótið með hæstu einkunn B-flokks gæðings, 8,99 á stóðhestinum Hrímni frá Ósi. Guðmundur er fyrirmyndarknapi, prúður innan vallar sem utan, íþróttamaður af lífi og sál og frábær fyrirmynd ungra knapa. Hann er mikill fagmaður, kemur með vel undirbúna hesta, fer afar vel á hesti, er sanngjarn reiðmaður og meðal fremstu reiðmanna heims á íslenskum hestum. Hann átti frábært ár í ár og varð Íslandsmeistari í fjórgangi á Hrímni frá Ósi og var einnig í verðlaunasætum á Íslandsmóti í fimmgangi, 150m og 250m skeiði.

Hnefaleikakona og hnefaleikakarl ársins eru Valgerður Guðsteinsdóttir og Gunnar Kolbeinn Kristinsson, bæði úr Hnefaleikafélaginu Æsi

Page 22: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

21

Valgerður vann til gullverðlauna í sínum þyngdarflokki eftir tvo hörku bardaga á ACBC í Svíþjóð í nóvember árið 2012. Gunnar Kolbeinn tók þátt í AIBA European Olympic Qualifying og tók einnig þátt á ACBC í Svíþjóð. Seint á árinu 2011 tók Gunnar þátt í Evrópumóti stútenda í Moskvu.

Page 23: Íþróttamenn og -konur sérsambanda 2012

ÍÞRÓTTAMAÐUR ÁRSINS / ÍÞRÓTTAKONA ÁRSINS 2011

22