arnar halldórsson umsjónarkennari: tómas hrafn sveinsson

25
BA ritgerð í lögfræði Mat á sennilegri afleiðingu í skaðabótarétti Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson Apríl 2014

Upload: others

Post on 18-Jul-2022

1 views

Category:

Documents


0 download

TRANSCRIPT

Page 1: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

BA ritgerð í lögfræði

Mat á sennilegri afleiðingu í skaðabótarétti

Arnar Halldórsson

Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

Apríl 2014

Page 2: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

1

BA ritgerð í lögfræði

Mat á sennilegri afleiðingu í skaðabótarétti

Arnar Halldórsson

Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

Apríl 2014

Page 3: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

2

Page 4: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

3

EFNISYFIRLIT

1 Inngangur ................................................................................................................................ 4

2 Krafan um orsakatengsl í skaðabótarétti ................................................................................. 4

3 Hugtakið sennileg afleiðing .................................................................................................... 6

3.1 Skilgreining ...................................................................................................................... 6

3.2 Inntak skilyrðisins um sennilega afleiðingu ..................................................................... 7

4 Mat á sennilegri afleiðingu ...................................................................................................... 7

4.1 Hlutlægt og huglægt mat .................................................................................................. 7

4.2 Samspil mats á saknæmi og mats á sennilegri afleiðingu ................................................ 8

4.3 Sennileg afleiðing fram að frumtjóni gegn sennilegri afleiðingu frumtjóns .................. 10

4.3.1 Dönsk dómaframkvæmd .......................................................................................... 10

4.3.2 Íslensk dómaframkvæmd ......................................................................................... 11

4.4 Þýðing vátrygginga við mat á sennilegri afleiðingu ....................................................... 12

4.5 Þýðing þess að tjónþoli er sérstaklega viðkvæmur ......................................................... 14

4.6 Afskipti þriðja manns veldur tjóni eða eykur tjón .......................................................... 15

4.7 Áhrif eðli máls við mat á sennilegri afleiðingu .............................................................. 17

5 Getur sjálfsvíg talist sennileg afleiðing bótaskyldrar háttsemi? ............................................ 18

5.1 Inngangur ........................................................................................................................ 18

5.2 Dómaframkvæmd ........................................................................................................... 18

5.3 Sjónarmið sem draga má af dómaframkvæmd ............................................................... 21

6 Niðurstöður ............................................................................................................................ 22

Heimildaskrá ............................................................................................................................ 24

Page 5: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

4

1 Inngangur

Skilyrðið um að tjón sé sennileg afleiðing af bótaskyldri háttsemi er óskráð regla í

skaðabótarétti sem takmarkar umfang skaðabótaábyrgðar.1 Reglan er hvergi lögfest í skaða-

bótalögum nr. 50/1993 (hér eftir skbl.) en það er engum vafa undiropið að hún getur haft

mikil áhrif í skaðabótamálum. Inntak reglunnar er óljóst og má segja að tiltölulega lítið hafi

verið skrifað um hana á Íslandi í samanburði við margar aðrar reglur skaðabótaréttar.

Umfjöllunarefni ritgerðarinnar varðar matið á sennilegri afleiðingu í skaðabótarétti. Farið

verður almennt yfir matið, ýmsa þætti sem talið er að geti haft áhrif á matið og í lokin matið á

því hvort sjálfsvíg geti talist sennileg afleiðing bótaskyldrar háttsemi. Í upphafi verður fjallað

stuttlega um regluna um orsakatengsl í ljósi þess hve nátengd hún er reglunni um sennilega

afleiðingu. Það má segja að reglan um orsakatengsl sé í raun hindrun sem skaðabótamál þurfa

að komast yfir ef skilyrðið um sennilega afleiðingu á að koma til skoðunar. Má sjá það í

fjölda mála að ef dómstóll telur að skilyrðið um orsakatengsl sé ekki uppfyllt þá þurfi ekki að

fjalla um regluna um sennilega afleiðingu. Þykir því rétt að fjalla stuttlega um orsakatengsl.

Samhengisins vegna verður enn fremur gerð grein fyrir því hvað felst í hugtakinu sennileg

afleiðing áður en fjallað verður um matið á reglunni.

Markmið þessarar ritgerðar er að reyna að skýra matið á sennilegri afleiðingu með því að

skoða áhugaverð álitaefni sem snerta það og reyna að leiða í ljós hvaða þættir geta haft áhrif á

matið. Þá verður í lok ritgerðarinnar farið yfir mat á sjálfsvígi sem sennilegri afleiðingu

bótaskyldrar háttsemi, en það er flókið álitamál sem hefur aldrei í raun reynt á fyrir íslenskum

dómstólum.

2 Krafan um orsakatengsl í skaðabótarétti

Það er skilyrði skaðabótaábyrgðar að orsakatengsl séu á milli bótaskyldrar háttsemi og

tjónsins sem af henni hlýst. Í því felst að þótt einstaklingur sýni af sér saknæma háttsemi er

það eitt og sér ekki bótaskylt nema í þeim tilvikum sem slík háttsemi veldur tjóni.2 Í Hrd. 18.

apríl 2013 (680/2012) reyndi á þetta atriði. Málsatvik voru þau að aðili, J, hafði fengið

fjárstuðning frá Styrktar- og sjúkrasjóði VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna, S, vegna

líkamstjóns sem hann hlaut í umferðarslysi. J, S og lögmannstofan F gerðu samkomulag um

að J myndi endurgreiða þær greiðslur sem hann fengi frá S að því tilskildu að hann fengi

greiddar skaðabætur vegna líkamstjónsins. Í samkomulaginu hafði F skuldbundið sig til þess

1 Reglan hefur einnig verið nefnd vávæni og sést það hugtak oft í eldri dómsmálum, en í þessari ritgerð verður

aðeins notað hugtakið sennileg afleiðing um regluna. 2 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 346-347

Page 6: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

5

að endurgreiða S greiðslurnar sem J fengi um leið og þær bærust F. Síðar þegar F fékk

fjárhæð vegna uppgjörs skaðabóta vegna líkamstjóns J, brutu forsvarsmenn F gegn

samkomulaginu og greiddu S ekki fjárhæðina sem þeim bar að gera. Rúmlega tveimur árum

síðar felldi S niður kröfu sína á hendur J. Hæstiréttur taldi að með því að fella niður kröfuna

hafi S tekið á sig tjónið sem af því leiddi. Því hafi saknæm háttsemi Ó, meðeiganda og

fyrirsvarsmanns F, ekki leitt til tjóns S, heldur ákvörðunin um að fella niður kröfuna.

Hæstiréttur sýknaði því Ó af kröfu um greiðslu skaðabóta til S, því það voru ekki til staðar

orsakatengsl milli saknæmrar háttsemi Ó, samningsbrots, og tjóns S.3

Meginreglan er sú að orsakatengslin þurfi að vera á milli háttseminnar og alls þess tjóns,

sem tjónþolinn verður fyrir. Þó eru undantekningar frá þessari meginreglu, t.d. á sviði

kröfuréttar.4 Ef vörslumaður hlutar fer öðruvísi með hlut en hann mátti, ber hann bótaábyrgð á

tjóni sem eignin verður fyrir enda þótt hann eigi ekki sök á því. Þetta er kallað

tilviljunarkennd afleiðing saknæmrar háttsemi, casus mixtus cum culpa.5

Ekki er gerð sú krafa í skaðabótarétti að háttsemi hins bótaskylda sé meginorsök tjóns.

Það nægir því til að fullnægja skilyrðinu um orsakatengsl að um meðorsök sé að ræða.6

Meginreglan í skaðabótarétti er sú að tjónþoli ber sönnunarbyrði fyrir því að saknæm

háttsemi, þess sem hann krefur um bætur, hafi orsakað tjón hans. Það er ekki hægt að benda á

neinn hlutlægan mælikvarða sem tekur af skarið um það hvenær nægileg sönnun telst fram

komin en Viðar Már Matthíasson segir um þetta í bók sinni Skaðabótaréttur: „Almennt þarf

það til, sem nægir til að hefja það yfir skynsamlegan vafa, að staðhæfing um málsatvik sé rétt.

Takist þessi sönnun um orsakatengsl ekki, verður kröfunni hafnað [...]“.7 Það þarf því almennt

að sanna að háttsemin sem veldur tjóninu sé saknæm eða bótaskyld eftir öðrum reglum og að

orsakasamband sé á milli háttseminnar og tjónsins. Þó er stundum vikið frá þessari reglu,

þannig að ekki er krafist ótvíræðrar sönnunar um orsakatengslin.8 Dæmi um frávik er það sem

nefnt hefur verið sérfræðiábyrgð og sönnunarreglur þeim tengdar. Sérfræðiábyrgð vísar til

skaðabótaábyrgðar sjálfstætt starfandi sérfræðinga og annarra fagmanna sem gera má ríkar

kröfur til, bæði að því er lýtur að meiri þekkingu en almennt gerist og vandaðri vinnu-

brögðum.9 Það reyndi helst á sérfræðiábyrgð vegna læknamistaka fyrir gildistöku laga um

3 Í þessu máli reyndi einnig á áhugaverð álitaefni tengd kröfurétti, en það fellur utan umfjöllunarefnis þessarar

ritgerðar. 4 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 346-347 5 Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur I, bls. 424 6 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 347-348 7 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 353 8 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 354 9 Páll Sigurðsson: Lögfræðiorðabók með skýringum, bls. 378

Page 7: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

6

sjúklingatryggingu nr. 111/2000. Í 1. mgr. 2. gr. þeirra laga kemur fram að skaðabótaábyrgð

er til staðar ef tjón má að „öllum líkindum rekja“ til ákveðinna atvika. Með þessum lögum var

því lögfest ákvæði sem slakar á kröfu um ótvíræða sönnun á orsakatengslum milli háttsemi og

tjóns.10

3 Hugtakið sennileg afleiðing

3.1 Skilgreining

Sennileg afleiðing er það skilyrði í skaðabótarétti að sá sem valdið hefur tjóni með háttsemi

sinni, sem er saknæm eða brýtur gegn víðtækum bótareglum, eigi að bæta tjón sem telst

sennileg afleiðing af háttseminni.11 Tjónvaldur ber því ekki ábyrgð á afleiðingum sem eru

tilviljunarkenndar eða ófyrirsjáanlegar heldur aðeins á afleiðingum sem hann sá eða átti að sjá

fyrir.12 Hér er hægt að taka dæmi eftir lögfræðiprófessorinn og fyrrverandi hæstaréttar-

dómarann Arnljót Björnsson til þess að skýra þetta nánar:

Fótgangandi maður slasast vegna gáleysis annars vegfaranda. Hinn slasaði er fluttur í sjúkrahús,

en ferst þar, er sjúkrahúsið brennur til kaldra kola. Hér má að vísu segja, að umferðarslysið sé

orsök dauðaslyssins, því að maðurinn hefði ekki farist í brunanum, ef umferðarslysið hefði ekki

borið að höndum. Andlát [hins] slasaða telst þó svo tilviljunarkennd afleiðing af gáleysi þess, er

olli umferðarslysinu, að sá síðarnefndi verður ekki talinn bera bótaábyrgð á dauða mannsins.

Hvorki þykir eðlilegt né sanngjarnt, að skaðabótareglur séu svo víðtækar að menn beri ábyrgð á

svo fjarlægum afleiðingum sem þessari.13

Þetta dæmi skýrir einnig vel tilgang skilyrðisins um sennilega afleiðingu sem er að

takmarka umfang skaðabótábyrgðar. Hlutverk reglunnar um sennilega afleiðingu verður því

að móta ystu mörk skaðabótaábyrgðar.14

Reglan um sennilega afleiðingu er hluti af skilgreiningu sakarreglunnar, en hún er

meginregla íslensks réttar um bótagrundvöll. Með bótagrundvelli er, eins og orðið gefur til

kynna, átt við þá reglu, sem við á um skilyrði eða grundvöll skaðabótaábyrgðar hverju sinni.

Sakarreglan er meginregla í þeim skilningi að skaðabótaábyrgð er oftast reist á henni og hún

gildir um bótagrundvöllinn, nema lög mæli á annan veg eða sérstakar ástæður.15 Sakarreglan

hefur almennt verið skilgreind á eftirfarandi hátt: „Maður ber skaðabótaábyrgð á tjóni, sem

hann veldur með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg afleiðing af hegðun

10 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 355 11 Viðar Már Matthíasson: „Um orsakatengsl og reglur um takmörkun á umfangi skaðabótaábyrgðar“, bls. 346 12 Jan Hellner og Svante Johansson: Skadeståndsrätt, bls. 203. og Marcus Radetzki: Orsak och skada, bls. 22-23,

sbr. Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 366 13 Arnljótur Björnsson: Skaðabótaréttur, bls. 88 14 Marcus Radetzki: Orsak och skada, bls. 15, sbr. Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 364 15 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 137-138

Page 8: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

7

hans og raski hagsmunum, sem verndaðir eru með skaðabótareglum. Það er og skilyrði, að

sérstakar huglægar afsökunarástæður eigi ekki við um tjónvald, svo sem æska eða skortur á

andlegri heilbrigði.“16

3.2 Inntak skilyrðisins um sennilega afleiðingu

Oftast er ekki ágreiningur um sennilega afleiðingu í skaðabótamálum. Það er t.a.m. mun

algengara að það reyni á það hvort skilyrðið um orsakatengsl sé uppfyllt. Ástæðan fyrir því,

líkt og rakið er að framan, er sú að álitaefni tengd því hvort skilyrðinu um sennilega

afleiðingu er fullnægt koma aðeins til skoðunar ef afleiðingar saknæmrar háttsemi eru mjög

tilviljunarkenndar eða ófyrirsjáanlegar. Skilyrðið um sennilega afleiðingu er því í eðli sínu

mjög matskennt þar sem meta þarf hvort afleiðingar séu ófyrirsjáanlegar.

Efnisinntak skilyrðisins um sennilega afleiðingu er mjög óljóst og sagði Hjalmar

Karlgren, fyrrverandi hæstaréttardómari í Svíþjóð, að hugtakið væri eitt hið óljósasta á sviði

einkamálaréttar.17 Hins vegar er ljóst að til þess að skilyrðinu um sennilega afleiðingu teljist

fullnægt þarf hætta á því tjóni sem varð að hafa aukist vegna hinnar saknæmu háttsemi.18 Þá

er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort líkindi á því að tjón verði þurfi að hafa aukist mikið.

Yfirleitt eru ekki gerðar miklar kröfur í þessum efnum en þó er ljóst að sérhver lítil aukning á

líkunum uppfyllir ekki skilyrðið.19

4 Mat á sennilegri afleiðingu

4.1 Hlutlægt og huglægt mat

Matið á sennilegri afleiðingu er bæði hlutlægt og huglægt. Það er hlutlægt að því leyti að beitt

er almennu mati til þess að komast að niðurstöðu um það hvort tjón sé líkleg afleiðing

háttsemi. Þó hlýtur að þurfa að taka mið af því hvað sá bótaskyldi sá eða átti að sjá fyrir um

afleiðingar háttsemi sinnar vegna þekkingar sinnar og reynslu.20 Það er hið huglæga mat sem

þarf að fara fram. Því er eðlilegt að gera meiri kröfur til aðila sem hefur mikla þekkingu, á

einhverju sviði, að hann sjái fyrir afleiðingar háttsemi sinnar. Í Hrd. 1977, bls. 646 (gluggaop)

reyndi m.a. á þessar auknu kröfur í ljósi reynslu og þekkingar. Málsatvik voru þau að verið

16 Arnljótur Björnsson: Skaðabótaréttur, bls. 58 og Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 140 17 Hjalmar Karlgren: Skadeståndsrätt, bls. 46, sbr. Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 366 18 Bo von Eyben og Helle Isager: Lærebog i erstatningsret, bls. 225-226, sbr. Viðar Már Matthíasson:

Skaðabótaréttur, bls. 364 19 Jan Hellner og Svante Johansson: Skadeståndsrätt, bls. 204, sbr. Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls.

367 20 Jan Hellner og Svante Johansson: Skadeståndsrätt, bls. 205, sbr. Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls.

369

Page 9: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

8

var að leggja pappa á þak nýbyggingar. Það voru mörg göt á þakinu fyrir þakglugga. Pappinn

var lagður þannig að heilum papparúllum var rúllað út þegar kostur var og því myndaðist

slysahætta þar sem aðeins þakpappi lá yfir gluggaopum. Einn af þeim sem unnu við verkið, Í,

féll niður um gluggaop og slasaðist alvarlega og krafði m.a. vinnuveitanda sinn, H, um

skaðabætur. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur féllust á skaðabótaskyldu H. Í héraðsdómi var

fjallað um verklagið og sagt: „Átti öllum, og þá ekki síst þeim, er stjórnuðu verkinu, að vera

ljós sú hætta, sem við það skapaðist.“ Með þessum orðum er óbeint tekið undir það að taka

megi mið af sérstakri aðstöðu hins bótaskylda, vegna reynslu og þekkingar, við mat á því

hvað telst sennileg afleiðing. Eðlilegt er að þeir sem stjórna svona verki eigi frekar að átta sig

á hættunni sem skapast við hættusamt verklag og þar með á hún ekki að vera jafn

ófyrirsjáanleg í þeirra augum.

4.2 Samspil mats á saknæmi og mats á sennilegri afleiðingu

Í bók sinni Skaðabótaréttur segir Viðar Már Matthíasson: „Þótt [...] ætla mætti, að mat á

sennilegri afleiðingu væri því óháð mati á bótagrundvellinum, t.d. saknæmismatinu, er svo

ekki í raun. Er að líkindum óhjákvæmilegt, að stundum fari þetta mat saman.“21 Þetta er

hugsanlega ekki rétt orðalag í ljósi þess að sennileg afleiðing er, líkt og komið hefur fram fyrr

í ritgerðinni, hluti af skilgreiningunni á sakarreglunni. Því mun mat á sakarreglunni,

bótagrundvellinum, ávallt fela í sér mat á sennilegri afleiðingu þó það sé oftast ekki

ágreiningur um það hvort skilyrðið er uppfyllt í einstökum málum. Það er hins vegar

áhugavert að skoða hvernig matið á saknæmi, skilyrði í sakarreglunni, getur í sumum tilvikum

blandast við matið á sennilegri afleiðingu, einnig skilyrði í sakarreglunni. Eins og Viðar Már

segir er líklega óhjákvæmilegt að stundum fari þetta mat saman.

Saknæmi varðar hina huglæga afstöðu tjónvalds til þeirrar háttsemi sem olli tjóni.22 Ef

háttsemi er framin af ásetningi eða gáleysi þá er hún saknæm. En þótt saknæmi varði huglægt

ástand þá ræðst það oftast af mati á hlutlægum þáttum hvort um saknæma hegðun hafi verið

að ræða.23 Þessir hlutlægu þættir eru t.d. lög sett af Alþingi og reglugerðir settar á grundvelli

þeirra. Taka má sem dæmi fyrirtæki sem brýtur gegn 5. mgr. 50. gr. laga um aðbúnað,

hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 þar sem stendur: „Efni eða efnavara sem

stofnar eða getur stofnað heilsu og öryggi starfsmanna í hættu skal vera í öruggum umbúðum

á vinnustöðum. Hættulegur efnaúrgangur og spilliefni skulu geymd með öruggum hætti á

21 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 367 22 Arnljótur Björnsson: Skaðabótaréttur, bls. 58, sbr. Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 141 23 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 141

Page 10: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

9

vinnustað.“ Ef starfsmaður yrði fyrir tjóni vegna brots á fyrrnefndri lagagrein þá yrði

væntanlega óhjákvæmilegt að matið á sennilegri afleiðingu og matið á saknæmi myndi

skarast. Það að brjóta gegn þessu ákvæði er í sjálfu sér rökstuðningur fyrir því að skilyrðinu

um sennilega afleiðingu sé fullnægt. Hér er m.ö.o. beint samræmi á milli þeirrar háttsemi sem

telst saknæm, brotið gegn lögunum, og hættunnar sem skapast á því að tjón verði, sennileg

afleiðing.

Sem dæmi um dómsmál þar sem mat á saknæmi fer saman við mat á sennilegri afleiðingu

má nefna Hrd. 1991, bls. 2006 (hjólað á vörubifreið). Málsatvik voru þau að ungur drengur,

E, slasaðist þegar hann hjólaði aftan á vörubifreið sem lagt var í íbúðargötu í Mosfellshreppi.

E höfðaði síðan skaðabótamál á hendur G, eiganda bifreiðarinnar. Samkvæmt reglugerð var

bannað að leggja vörubifreiðum í íbúðarhverfum í Mosfellshreppi. G var því talinn hafa brotið

gegn reglugerðinni og var dæmdur skaðabótaskyldur.

Í forsendum héraðsdóms sést vel hvernig matið á sennilegri afleiðingu og matið á

saknæmi rennur saman:

Staðsetning vörubifreiðarinnar í umrætt sinn telst hafa verið til þess fallin að valda vegfarendum

hættu, þótt ekki væri um mikla umferðargötu að ræða. Þykir [G] með þessu hafa brotið gegn

greindu banni rgl. nr. 610/1983, sbr, einnig 1. og 2. mgr. 51. gr. laga nr. 40/1968. Þegar allt

þetta er virt, þykir [G] eiga sök á tjóni [E]

Í héraðsdóminum var því slegið föstu að brotið gegn reglugerðinni, hlutlægur mælikvarði

á saknæmi, hafi verið til þess fallið að valda hættu, hlutlægt mat á sennilegri afleiðingu. Í

kjölfarið var síðan talið að G bæri skaðabótábyrgð á tjóni E. Í forsendum Hæstaréttar sagði:

Svo sem rakið er í héraðsdómi, var óheimilt að láta bifreiðina standa á Lágholti, eftir að lokið

var fermingu hennar. Mátti sjá fyrir sérstaka slysahættu stafa af bifreiðinni þar vegna breiddar

hennar og búnaðar á afturenda vörupallsins. Bar því [G] að færa bifreiðina þá þegar af götunni.

Viðskilnaður hans við bifreiðina var því, eins og á stóð, ólögmætur og saknæmur og veldur því,

að hann ber að lögum fébótaábyrgð á slysi því, sem [E] varð fyrir, og tjóni hans af þess völdum.

(áherslumerkingar höfundar)

Hæstiréttur vísar hér sérstaklega til breiddar bifreiðarinnar og búnaðar á afturenda

vörupalls bifreiðarinnar, en þess ber að geta að búnaðurinn var í dóminum talinn óleyfilegur

þar sem hann var ekki í samræmi við reglugerð. Hér er því sama staða uppi. Það er sýnt fram

á saknæmi, brotið gegn reglugerð, sem leiðir til slysahættu, sennileg afleiðing, og í kjölfarið

er staðfest skaðbótaábyrgð.

Það er einnig hægt að ímynda sér tilvik þar sem aðili hefur ásetning til að brjóta fótlegg

annars manns. Sú staðreynd að hann hafði ásetning til að brjóta fótleginn er nægileg til þess

Page 11: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

10

að telja að tjónið sem þolandinn hlýtur sé sennileg afleiðing af háttseminni. Ásetningur,

huglæg afstaða hins skaðabótaskylda, leiðir til þess að skilyrðinu um sennilega afleiðingu er

fullnægt. Þetta er dæmi um augljóst tilvik þar sem mat á saknæmi er í raun hið sama og mat á

sennilegri afleiðingu.

4.3 Sennileg afleiðing fram að frumtjóni gegn sennilegri afleiðingu frumtjóns

Bent hefur verið á að gerðar eru ríkari kröfur til þess að afleiðing teljist sennileg, þegar um er

að ræða atburðarrásina fram að frumtjóni, heldur en þegar metið er hvað teljist sennileg

afleiðing frumtjónsins.24 Með frumtjóni er átt við tjónið sem verður fyrst og beinlínis við

tjónsatburð. Síðan getur afleitt tjón eða óbeint tjón fylgt í kjölfarið.25 Með afleiddu eða óbeinu

tjóni er átt við tjón sem leiðir af frumtjóni, t.d. ef einstaklingur verður fyrir tekjutapi þar sem

hann getur ekki mætt í vinnu í kjölfar líkamstjóns.26 Því hefur m.ö.o. verið haldið fram að

gerðar séu ríkari kröfur til þess að sannað sé að frumtjónið sé sennileg afleiðing af saknæmri

háttsemi, en minni kröfur til þess að sannað sé hvað séu sennilegar afleiðingar frumtjónsins,

eins og óbeint tjón. Það eru þó ekki allir sammála þessari túlkun. 27 E.t.v. er þó hægt að sjá

ákveðnar vísbendingar í dómaframkvæmd.

4.3.1 Dönsk dómaframkvæmd

Það má vissulega sjá af ákveðnum dómum að gerðar eru mjög vægar kröfur til sönnunar á

sennilegri afleiðingu frá frumtjóni. Í UfR. 1943, bls. 641 (kalkþurrð) var deilt um bótaskyldu

vegna umferðarslyss.28 Kona sem lenti í umferðarslysi ristarbrotnaði og hlaut í kjölfar þess

sjaldgæf óþægindi vegna kalkþurrðar. Niðurstaðan í málinu var sú að talið var að þessi

sjaldgæfu óþægindi og sjúkrakostnaður vegna hans töldust sennileg afleiðing slyssins og var

það tjón því einnig bótaskylt. Hér var því talið að þrátt fyrir að þetta væru sjaldgæf óþægindi,

óbeint tjón, sem leiddu af ristarbrotinu, frumtjón, þá væri þetta sennileg afleiðing af slysinu.

Í þessu samhengi má einnig nefna UfR. 1974, bls. 967 (skóburstun).29 Málsatvik voru þau

að kona, K, lenti í umferðarslysi sem var skaðabótaskylt. Hún hlaut heilaskaða og var

varanleg örorka hennar talin vera 100%. U.þ.b. tveimur og hálfu ári eftir slysið hlaut hún

brunasár við það að kveikja sér í vindlingi er hún var að bursta skó, en við það notaði hún

24 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 368 25 Páll Sigurðsson: Lögfræðiorðabók með skýringum, bls. 151 26 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 57 27 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 368 28 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 368 29 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 365

Page 12: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

11

mjög eldfiman þynni. Stuttu eftir þetta lést hún vegna skaðans af brunanum. Síðar var höfðað

skaðabótamál vegna dauða hennar og var m.a. deilt um það hvort dauði hennar teldist

sennileg afleiðing umferðarslyssins. Eystri Landsréttur taldi að þessar afleiðingar

umferðarslyssins væru ekki ófyrirséðar og dæmdi bætur vegna missis framfæranda. Hér var

því talið að bruninn, óbeint tjón, væri sennileg afleiðing af heilaskaðanum, beint tjón, sem hún

hlaut í umferðarslysi u.þ.b. tveimur og hálfu ári áður. Þessi dómur er mjög umdeilanlegur en

hann sýnir hversu langt dómstólar í Danmörku hafa gengið í að telja óbeint tjón sennilega

afleiðingu af frumtjóni.

4.3.2 Íslensk dómaframkvæmd

Það er eðlilega ekki við jafn marga dóma að styðjast við mat á því hvort gerðar eru vægari

kröfur til sönnunar á sennilegri afleiðingu frá frumtjóni þegar skoðuð er íslensk

dómaframkvæmd í samanburði við danska dómaframkvæmd. Þó má benda á Hrd. 1972, bls.

191 (óðs manns víg) sem gefur til kynna að e.t.v. gildi svipuð sjónarmið hér á landi og í

Danmörku.30 Málsatvik voru þau að GG var að vinna í krana þegar andlega vanheill maður,

GB, skaut nokkrum skotum að honum og samstarfsmönnum hans. Ein byssukúlan fór í

gegnum rúðu á krananum og rétt framhjá GG. GG hlaut engin líkamleg meiðsli en talið var

sannað að þetta hafi valdið honum andlegu tjóni. Hann krafði GB um skaðabætur m.a. fyrir

það að hafa ekkert getað mætt í vinnu næstu þrjá mánuði eftir atburðinn og bætur fyrir níu

mánuði til viðbótar þar sem GG taldi sig ekki geta unnið á vélskóflum eða vélkrönum heldur

aðeins unnið almenna verkamannavinnu, sem væri ekki jafn vel launuð. Það er athyglisvert að

í dómnum er enginn rökstuðningur fyrir því hvers vegna GG taldi sig ekki geta unnið á vélum

í rúmlega ár eftir slysið og hafi yfir höfuð ekki treyst sér til að vinna á krönum eftir þetta. Í

málinu voru lögð fram álit geðlæknis og læknaráðs um andlegt tjón GG. Í síðari áliti

læknaráðs kom eftirfarandi fram: „Læknaráð hefur látið í ljós það álit, að ekki sé

óhjákvæmilegt orsakasamband milli sjúkdóms [GG] og atburðar þess, er um ræðir í málinu.

Þó er hugsanlegt, að atvik, eins og í málinu greinir, geti valdið manni heilsutjóni, sérstaklega

ef persónuleika hans eða geðheilsu er þannig farið, að hann sé viðkvæmur fyrir geðrænum

áverkum.“ Síðan segir í forsendum Hæstaréttar: „Leggja verður til grundvallar þá niðurstöðu

[...] læknis, sem í héraðsdómi er rakin, og álit hinna sérfróðu samdómenda, sem samrýmist

ályktun Læknaráðs frá 30. desember 1971, að veikindi [GG] eftir atburðinn séu sennilega

afleiðing af fyrrgreindu fébótaskyldu atferli [GB]. Á [GG] því rétt á að fá tjón sitt bætt úr

30 Þó má e.t.v. deila um það hve mikið fordæmisgildi þessi dómur hefur í ljósi aldurs og sérstæðra málsatvika.

Page 13: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

12

hendi hans.“ Vekja ber athygli á því að læknaráð sagði aðeins að það væri hugsanlegt að

skotárásin gæti valdið því heilsutjóni sem GG varð fyrir. Þrátt fyrir það notar Hæstiréttur álit

læknaráðs sem rökstuðning fyrir því að veikindi hans hafi verið sennileg afleiðing af háttsemi

hins bótaskylda. Í áliti geðlæknisins var hins vegar enginn rökstuðningur fyrir því hvers vegna

GG gat ekki unnið á vélum eftir skotárásina heldur kom einungis fram að GG hafi neitað að

vinna á vélum, þar sem hann hafi ekki treyst sér til þess. Hæstiréttur féllst hins vegar að fullu

á kröfur um bætur fyrir tekjumissi.

Ofangreindur dómur er dæmi um dómsmál þar sem gerðar eru mjög litlar kröfur til

sönnunar á sennilegri afleiðingu óbeins tjóns. Í Hæstarétti er ekki rökstutt hvernig það getur

talist sennileg afleiðing skotárásarinnar að GG treysti sér ekki til að vinna við vélar í langan

tíma eftir slysið og ekki á krana í fjölda ára eftir atburðinn, heldur er aðeins sagt að „[...]

veikindi [GG] eftir atburðinn séu sennilega afleiðing af fyrrgreindu fébótaskyldu atferli

[GB].“ Það er eðlilegt að búast við andlegu tjóni aðila þegar byssukúlu er skotið nálægt

honum, en það er nánast enginn rökstuðningur fyrir því hvernig það geti talist sennileg

afleiðing atburðarins að GG gat ekki unnið með sömu tækjum og hann hafði unnið áður.

4.4 Þýðing vátrygginga við mat á sennilegri afleiðingu

Það er álitamál hvort að það hafi áhrif á matið á sennilegri afleiðingu þegar aðili sem er

ábyrgðartryggður verður skaðabótaskyldur.31 Það er eðlilegt að velta því fyrir sér þar sem

vátryggingum er ætlað að bæta óvænt og oft ófyrirséð tjón.32 Því getur virst sem hlutverk

ábyrgðartrygginga falli vel að því að greiða bætur fyrir tjón sem telja má að sé á mörkum þess

sem getur talist sennileg afleiðing tjóns, sbr. Rt. 2004, bls. 675 (agúrkuframleiðandi). Í því

máli reyndi á skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem agúrkuframleiðandi varð fyrir vegna gallaðra

bambusprika sem sýktu agúrkuplöntur hans. Agúrkuframleiðandinn fór í skaðabótamál gegn

seljanda bambusprikanna, V, og vátryggingarfélagi seljanda, S. Sýkingin olli miklu tjóni og

var m.a. deilt um það í málinu hvort að takmarka ætti fjárhæð skaðabóta á grundvelli 2. mgr.

70. gr. norsku kaupalaganna sem er samhljóða 2. mgr. 70. gr. lausafjárkaupalaga nr. 50/2000

(hér eftir lkpl.) þar sem segir:

Skaðabætur má lækka ef þær teljast ósanngjarnar fyrir hinn bótaskylda þegar litið er til

fjárhæðar tjónsins í samanburði við það fjártjón sem venjulega verður í sambærilegum tilvikum

31 Ábyrgðartrygging er vátrygging sem bætir tjón, sem hinn vátryggði verður fyrir við það að verða

skaðabótaskyldur gagnvart öðrum aðila, sbr. Páll Sigurðsson: Lögfræðiorðabók með skýringum, bls. 40 32 Jan Hellner og Svante Johansson: Skadeståndsrätt, bls. 204, sbr. Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls.

369

Page 14: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

13

og atvika að öðru leyti.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lkpl. segir m.a. um þetta ákvæði:

Eins og leiða má af texta frumvarpsgreinarinnar getur mildun bótaábyrgðar komið til greina

þegar um er að ræða lítt fyrirsjáanlegar afleiðingar vanefnda á samningsskyldu. Tjón, sem

óbeint má rekja til vanefnda og leiðir að meira eða minna leyti af einstaklingsbundum atvikum

og aðstæðum hjá tjónþola, getur gagnaðili almennt séð ekki gert ráð fyrir og takmarkað. Því er

meiri ástæða en ella til að lækka skaðabætur vegna slíks tjóns en þegar um er að ræða það sem

kalla má venjulegar afleiðingar vanefnda, jafnvel þótt um verulegt tjón sé að ræða.33

(áherslumerkingar höfundar)

Eins og sést þá er þetta ákvæði keimlíkt skilyrðinu um sennilega afleiðingu þar sem

dómstólum er veitt heimild til að lækka skaðabætur ef það er talið ósanngjarnt fyrir hinn

bótaskylda vegna þess hve óvenjulega mikið fjártjón verður. Meirihluti Hæstaréttar Noregs

komst að þeirri niðurstöðu að það bæri ekki að takmarka fjárhæð skaðabóta með eftirtöldum

rökstuðningi: „Siden [V] har en ansvarsforsikring som dekker ansvar av den karakter vi her

står overfor, kan jeg ikke se at det er grunnlag for lemping av ansvaret etter §70 andre ledd,

og dette er heller ikke påberopt.“ Þessi dómur virðist því veita ákveðna vísbendingu um að

vátrygging aðila getur haft þýðingu við mat á því hvort tjón teljist sennileg afleiðing

bótaskyldrar háttsemi skv. 2. mgr. 70. gr. lkpl.

Í 1. mgr. 24. gr. skbl. er að finna reglu sem líkist mjög 2. mgr. 70. gr. lkpl. en þar segir:

Lækka má bótafjárhæð eða fella niður skaðabótaábyrgð ef ábyrgðin yrði hinum bótaskylda svo

þungbær að ósanngjarnt má telja eða álíta verður að öðru leyti skerðingu eða niðurfellingu

sanngjarna vegna mjög óvenjulegra aðstæðna. Þegar metið er hvort ástæða sé til að beita

heimildinni skal líta til þess hve mikið tjónið er, eðlis bótaábyrgðar, aðstæðna tjónvalds,

hagsmuna tjónþola, vátrygginga aðila og annarra atvika. (áherslumerkingar höfundar)

Það gæti því komið til skoðunar í máli þar sem tjón verður óvenjulega mikið, á mörkum

þess að uppfylla skilyrðið um sennilega afleiðingu, að beita heimild 1. mgr. 24. gr. skbl. en

þar er sagt berum orðum að líta skuli til vátrygginga aðila. Reglan skarast því að vissu leyti

við regluna um sennilega afleiðingu og veitir í raun sömu heimild og dómstólar hafa ef talið

er að skilyrðið um sennilega afleiðingu er ekki uppfyllt, þ.e.a.s. að fella niður eða hafna

skaðabótaábyrgð.34

Viðar Már Matthíasson efast um að vátrygging hafi almennt áhrif á mat á sennilegri

afleiðingu og segir: „Telja verður þó vafasamt, að tilvist ábyrgðartrygginga hafi áhrif í þessu

sambandi, því verður a.m.k. ekki fundinn staður í íslenskri dómaframkvæmd svo óyggjandi

33 Alþt. 1999-00, A-deild, bls. 923 34 Viðar Már Matthíasson: „Um orsakatengsl og reglur um takmörkun á umfangi skaðabótaábyrgðar“, bls. 353

Page 15: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

14

sé.“35 Það má fallast á þessi orð varðandi matið á sennilegri afleiðingu sem hluta af

sakarreglunni en það er ljóst að ábyrgðartrygging aðila getur haft áhrif skv. 1. mgr. 24. gr.

skbl. og mögulega einnig skv. 2. mgr. 70. gr. lkpl. En þessi ákvæði eru bæði nátengd

skilyrðinu um sennilega afleiðingu.

4.5 Þýðing þess að tjónþoli er sérstaklega viðkvæmur

Eðlilegt er að velta því fyrir sér hvort það eigi að hafa áhrif við mat á sennilegri afleiðingu

þegar tjónþoli er sérstaklega viðkvæmur. Talið hefur verið að ef tjónþoli hefði getað lifað

eðlilegu lífi þrátt fyrir veikleika, t.d. haft fulla atvinnuþátttöku, þá er almennt litið svo á, að

hann eigi rétt til fullra bóta, þ.e.a.s. að hann eigi að vera eins settur og sá sem væri ekki jafn

viðkvæmur og hann sjálfur.36 Segja má að hinn bótaskyldi þurfi bara að sætta sig við tjónþola

eins og hann er, viðkvæmur eður ei.37 Að þessu leyti er gerð undantekning frá því að matið á

sennilegri afleiðingu sé hlutlægt og huglægt því háttsemi getur valdið tjóni sem er meira en

almennt mat myndi gera ráð fyrir, hlutlægt, eða því sem hinn bótaskyldi sá eða átti að sjá fram

á, huglægt mat.

Lykildómurinn um þetta atriði í íslenskri lögfræði er Hrd. 1972, bls. 191 (óðs manns víg)

sem fjallað var um framar í ritgerðinni. Í málinu reyndi m.a. á það hvort að það ætti að hafa

áhrif á skaðabótaskyldu að GG var sérstaklega viðkvæmur. Í áliti geðlæknis sagði m.a.:

„Fullyrða má, að [GG] hafi tilhneigingu til depressionar og sé því berskjaldaðri fyrir

sálrænum áföllum en þeir, sem ekki hafa slíkar veilur.“ Það lá einnig fyrir að GG hafði fengið

þunglyndisköst fyrir skotárásina og verið undir læknishendi af þeim sökum. Hann hafði einnig

áður dvalist á sjúkrahúsi vegna geðtruflana. Á grundvelli þessara upplýsinga er ljóst að GG

hafi verið sérstaklega viðkvæmur fyrir því áfalli sem svona skotárás er. Þetta hafði þó ekki

áhrif á skaðabótaskyldu GB og var sagt í forsendum Hæstaréttar: „Leggja verður til

grundvallar [...] að veikindi [GG] eftir atburðinn séu sennilega afleiðing af fyrrgreindu

fébótaskyldu atferli [GB]. Á [GG] því rétt á að fá tjón sitt bætt úr hendi hans.“ Það er því ljóst

að í þessu máli hafði þetta engin áhrif á skaðabótaskyldu GB.

Þessi undantekning breytir því þó ekki að tjón verður að teljast sennileg afleiðing og því er

hægt að hugsa sér dæmi þar sem ljóst er að tjón er utan þess sem talist getur sennileg afleiðing

vegna þess að tjónþoli er sérstaklega viðkvæmur. Þegar um líkamstjón er að ræða þarf þó

mikið til að koma svo að skaðabótaábyrgð verði takmörkuð vegna sérstakrar viðkvæmni

35 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 369 36 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 371 37 C.D. Baker: Tort, bls. 169

Page 16: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

15

tjónþola.38

Í þessu sambandi er áhugavert að skoða dóm frá Bandaríkjunum, Vosburg v. Putney, 80

Wis. 523, 50 N.W. 403 (Wis.1891). Málsatvik voru þau að nemandi, P, sparkaði lauslega í

sköflunginn á öðrum nemanda, V, sem sat andspænis honum í skólastofu. V hafði nokkrum

dögum áður meitt sig á sama sköflungi. Sparkið leiddi til þess að V lamaðist á fætinum. Það

var misvísandi álit lækna hvernig þetta spark hafi leitt til tjónsins en talið var á endanum að

orsök tjónsins væri sparkið. Niðurstaða málsins var sú að P þurfti að greiða bætur fyrir tjónið.

Það er ljóst að tjónið sem varð í þessu máli gæti aldrei talist sennileg afleiðing lauslegs sparks

og væri eflaust erfitt að finna mál þar sem afleiðingar væru jafn ófyrirsjáanlegar. Ef sömu eða

svipuð málsatvik myndu eiga sér stað hérlendis hlyti að vera óumdeilt að þessar afleiðingar

yrðu taldar ósennilegar. Tilgangur skilyrðisins um sennilega afleiðingu yrði lítill ef það væru

ekki talin vera einhver takmörk fyrir því að dæma fullar bætur þegar tjón er orðið svo

ófyrirsjáanlegt, vegna viðkvæmni tjónþola, að líklegast aðeins alvitur guð gæti séð fyrir

afleiðingarnar.

4.6 Afskipti þriðja manns veldur tjóni eða eykur tjón

Þótt afskipti þriðja manns af atburðarrás valdi því að tjónþoli verður fyrir meira tjóni eða

verður fyrir tjóni sem hann hefði annars ekki orðið fyrir, leiðir það ekki endilega til þess að

ábyrgð hins bótaskylda falli niður eða verði takmörkuð.39 Það getur þó verið að afskipti þriðja

manns valdi því að tjónið verði ekki talin vera sennileg afleiðing af háttsemi hins bótaskylda.

Í þessum tilvikum þarf að meta heildstætt þátt hins bótaskylda annars vegar og þriðja

mannsins hins vegar í tjóninu sem tjónþolinn verður fyrir.40 Í Hrd. 2000, bls. 265 (317/1999)

(Akranesstelpurnar) reyndi á þetta álitaefni í skaðabótamáli. Málsatvik voru þau að þrjár

stúlkur réðust á stúlku, I, með hrindingum, spörkum, hnefahöggi og kinnhesti. Áhorfendur

voru að atburði þessum og skarst stúlka úr hópi áhorfenda, L, í leikinn og gaf I hnéspark í

höfuðið. Við þetta hlaut I miklar varanlegar afleiðingar. Í þessu skaðabótamáli var því til

úrlausnar hvort að tjón I gæti talist sennileg afleiðing af háttsemi stúlknanna þriggja, þannig

að þær ættu að bera óskipta skaðabótaábyrgð með L, sem sótti ekki dómþing í málinu og hafði

því engar varnir uppi. Héraðsdómari taldi að „orsakasamband í víðasta skilningi“ hafi verið á

milli árásar þriggja stúlknanna og hnésparks L en að tjón I hafi ekki verið sennileg afleiðing

38 Bo von Eyben og Helle Isager: Lærebog i erstatningsret, bls. 232-233 og A. Vinding Kruse: Erstatningsretten,

bls. 161, sbr. Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 371 39 Bo von Eyben og Helle Isager: Lærebog i erstatningsret, bls. 231, sbr. Viðar Már Matthíasson:

Skaðabótaréttur, bls. 370 40 Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur, bls. 370

Page 17: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

16

af árás þeirra og sýknaði þær af bótakröfunni. Héraðsdómarinn taldi því m.ö.o. að hnéspark L

hafi ekki verið sennileg afleiðing af árás þriggja stúlknanna.

Í forsendum Hæstaréttar var vísað til þess að L hefði skorist í leikinn að eigin frumkvæði

án þess að stúlkurnar þrjár hafi hvatt hana eða óskað liðsinnis hennar. Síðan segir:

Líta verður á framferði [L] sem sérstakan verknað þótt telja verði að hugaræsingur í tengslum

við atlögur [stúlknanna þriggja] að [I] hafi átt þátt í að til hans kom. Verður þó ekki á því byggt

að það eitt geti leitt til bótaábyrgðar [stúlknanna þriggja], enda voru viðbrögð [L] langt

umfram það, sem við mátti búast. Verður á það fallist með héraðsdómara að tjón, sem [L] olli

áfrýjanda, geti ekki talist sennileg afleiðing hegðunar stefndu. (áherslumerking höfundar)

Niðurstaða málsins var því sú að bæði héraðsdómur og Hæstiréttur sýknuðu stúlkurnar

þrjár á grundvelli þess að tjón I taldist ekki sennileg afleiðing af háttsemi þeirra. En það má

velta því fyrir sér hvort skaðabótaábyrgð þeirra hafi hér verið takmörkuð óhóflega.

Það er ljóst að hér var um saknæma háttsemi þeirra að ræða, talið varða við 1. mgr. 217.

gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og var gefið til kynna í forsendum Hæstaréttar að

orsakatengsl væru á milli árásar stúlknanna og tjóns I: „Líta verður á framferði [L] sem

sérstakan verknað þótt telja verði að hugaræsingur í tengslum við atlögur [stúlknanna þriggja]

að [I] hafi átt þátt í að til hans kom.“41

Það kom fram í Hrd. 1997, bls. 904., sakamál sem höfðað var gegn L vegna árásarinnar,

að atlagan átti sér stað á þremur mismunandi stöðum og að stelpurnar þrjár hafi í raun elt I til

að geta haldið árásinni áfram. Einnig kom eftirfarandi fram við yfirheyrslu hjá lögreglu:

„Kvaðst [B] meðal annars hafa tekið í hár [I] og reynt að gefa henni „hnéspark", en [I] náð að

víkja sér undan.“ L sagði einnig við lögregluyfirheyrslu að hún hafi sagt: „Passaðu þig, að [B]

geri þetta ekki við þig.“ Þetta gerði hún í sömu andrá og hún gaf hnésparkið. Síðar sagði L við

aðalmeðferð málsins að hún hafi vitað að B hafi gefið eða reynt að gefa I hnéspark fyrr um

nóttina og því hafi hún viðhaft þessi ummæli er hún gaf hnésparkið.

Velta má því fyrir sér hvort það sé ekki sennileg afleiðing þess að m.a. reyna að gefa I

hnéspark að einhver æstur áhorfandi skerist í leikinn og taki það að sér að gera slíkt hið sama.

Í forsendum hæstaréttar var talið að hnéspark L hafi verið „[...] langt umfram það, sem við

mátti búast.“ en með þeim orðum virðist gefið til kynna að árás L hafi verið alvarlegri en árás

stúlknanna þriggja og að það sé ástæðan fyrir því að skilyrðinu um sennilega afleiðingu sé

ekki fullnægt. En það er einkennilegt með hliðsjón af því að B hafði sjálf gert tilraun til þess

að gefa I hnéspark. Einnig má velta því fyrir sér hvernig tekið hefði verið á þessu álitaefni ef

41 Lesa má úr þessum orðum að háttsemi stúlknanna þriggja hafi verið meðorsök í tjóni I. Eins og kom fram í

öðrum kafla þá fullnægir meðorsök skilyrðinu um orsakatengsl.

Page 18: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

17

L hefði aðeins hrint I í stað þess að gefa henni hnéspark og sama tjón hefði átt sér stað. Miðað

við orðalag hæstaréttar þá má álykta að vægari árás en hnéspark, eins og t.d. hrinding, hefði

getað talist sennileg afleiðing háttsemi stúlknanna þriggja. Það hefði verið æskilegt að fá

frekari rökstuðning frá Hæstarétti hvað þetta varðar en það má a.m.k. efast um að hnéspark L

hafi verið algjörlega ófyrirsjáanleg afleiðing árásar stúlknanna þriggja, sérstaklega í ljósi

tilraunar B til þess að gefa I hnéspark.

4.7 Áhrif eðli máls við mat á sennilegri afleiðingu

Eðli máls getur verið sjálfstæð réttarheimild þar sem fundin er regla sem er talin eðlileg út frá

sanngirnissjónarmiðum, réttlætissjónarmiðum og hagkvæmissjónarmiðum. En eðli máls getur

einnig verið sjónarmið við lögskýringu á öðrum réttarheimildum. Þá er átt við það að

lagaákvæði er skýrt svo að það feli í sér sanngjarna, réttláta og hagkvæma reglu.42

Færa má fyrir því rök að eðli máls getur haft áhrif á mat á því hvort tjón teljist sennileg

afleiðing bótaskyldrar háttsemi, sbr. Hrd. 19. janúar 2012 (426/2011) (Norðurál). Málsatvik

voru þau að aðili, Þ, slasaðist við það að koma samstarfskonu sinni, M, til hjálpar en hún lá

föst undir svokallaðri bakskautsklemmu sem hafði fallið á hana, en klemman var u.þ.b. 620

kg. Þ hlaut bakmeiðsli við það að lyfta klemmunni af M svo hún gæti losnað undan henni.

Aðalkrafa Þ var að fá skaðabætur frá vinnuveitandana sínum, N ehf., vegna líkamstjónsins.

Héraðsdómur féllst ekki á skaðabótakröfu Þ og sýknaði N ehf. Hæstiréttur féllst hins vegar á

kröfuna með eftirtöldum rökstuðningi:

[Þ] varð fyrir tjóni sínu er hann kom samstarfsmanni sínum [M] í skyndingu til hjálpar þar sem

hún hafði skorðast undir þungu málmstykki. Telja verður að viðbrögð [Þ] [...] hafi verið eðlileg

við þær aðstæður sem upp voru komnar. Má fyrirfram gera ráð fyrir að starfsmenn komi

samstarfsmönnum, sem verða fyrir slysum, til hjálpar eftir föngum, ekki síst til að aflétta hættu

sem að samstarfsmanni steðjar, eins og að losa hann undan fargi svo sem hér var raunin.

Viðbrögð [Þ] [...] voru líka til þess fallin að draga úr tjóni samstarfsmannsins sem undir

farginu lá og voru þau að því leyti í þágu hagsmuna [N ehf.] sem vinnuveitanda

samstarfsmannsins. Af þessu leiðir að tjónið sem [Þ] varð fyrir, er hann lyfti hinu þunga fargi,

telst til bótaskyldra afleiðinga af þeirri háttsemi sem fyrr var lýst og talin er valda bótaskyldu [N

ehf.] (áherslumerkingar höfundar)

Þó það sé ekki sagt berum orðum má draga þá ályktun af þessum orðum Hæstaréttar að

ákveðin sanngirnissjónarmið liggi til grundvallar niðurstöðu málsins. Hæstiréttur telur að

viðbrögð Þ hafi verið eðlileg og fyrirsjáanleg, þ.e.a.s. að tjónið sem Þ hlaut var sennileg

afleiðing af bótaskyldri háttsemi N ehf. þar sem það „Má fyrirfram gera ráð fyrir að starfs-

menn komi samstarfsmönnum, sem verða fyrir slysum, til hjálpar [...]“. Síðan er í kjölfarið

42 Davíð Þór Björgvinsson: Lögskýringar, bls. 83, sbr. Sigurður Líndal: Um lög og lögfræði I, bls. 382.

Page 19: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

18

sagt að viðbrögð Þ hafi verið: „[...] til þess fallin að draga úr tjóni samstarfsmannsins sem

undir farginu lá og voru þau að því leyti í þágu hagsmuna [N ehf.] [...]“. Síðan er í næstu

setningu staðfest skaðabótaskylda N. ehf. Draga má þá ályktun af þessum dómi að eðlileg

viðbrögð Þ sem voru í þágu hagsmuna N ehf. hafi haft áhrif á matið á sennilegri afleiðingu.

Það hafi því ákveðin sanngirnissjónarmið stutt þá niðurstöðu að telja tjón Þ sennilega

afleiðingu af bótaskyldri háttsemi N ehf.

Eins og rakið var í kafla 4.4 má sjá að í 2. mgr. 70. gr. lkpl. og 1. mgr. 24. gr. skbl. er

vísað til sanngirnismats við takmörkun á skaðabótaábyrgð og skarast þessar reglur að vissu

leyti við skilyrðið um sennilega afleiðingu. Það má því draga þá ályktun að eðli máls geti haft

áhrif á matið á sennilegri afleiðingu í tengslum við þessi lagákvæði.

5 Getur sjálfsvíg talist sennileg afleiðing bótaskyldrar háttsemi?

5.1 Inngangur

Eins og sést af 4. kafla þessarar ritgerðar eru margir þættir sem þarf að skoða við mat á því

hvort að skilyrðinu um sennilega afleiðingu sé fullnægt. Það er ljóst að skilyrðið getur verið

mjög matskennt og oft er erfitt að slá því föstu hvort skilyrðinu sé fullnægt í einstökum

dómsmálum. Það sést þó af dómaframkvæmd á Norðurlöndunum að dómstólar hafa á tíðum

seilst tiltölulega langt í því að telja skilyrðinu um sennilega afleiðingu fullnægt. Áhugavert

álitaefni sem segja má að sé á ystu mörkum sennilegrar afleiðingar er sjálfsvíg sem sennileg

afleiðing bótaskyldrar háttsemi.

Ekki gefst hér tóm til að fjalla um ýmis álitamál sem snúa að sönnun á því að sjálfsvíg

teljist sennileg afleiðing bótaskyldrar háttsemi, eins og t.d. félagsfræðilegar rannsóknir á

áhrifum nauðgunar á sálarlíf tjónþola, heldur verður hér eingöngu reynt að draga fram nokkrar

almennar ályktanir út frá völdum dómum sem telja má að eigi við í tilvikum þar sem deilt er

um það hvort sjálfsvíg hafi verið sennileg afleiðing bótaskyldrar háttsemi.

5.2 Dómaframkvæmd

Það er ekki útilokað að sjálfsvíg í kjölfar tjóns teljist bótaskylt en það er ljóst að erfitt getur

verið að sanna bæði orsakatengsl milli bótaskyldrar háttsemi og sjálfsvígs og að sjálfsvíg sé

sennileg afleiðing háttseminnar. Telja má að oftast verði sjálfvíg ekki talin sennileg afleiðing

bótaskyldrar háttsemi, þ.e.a.s. að almennt er ekki hægt að gera þá kröfu til tjónvalds að hann

sjái fram á það sem mögulega afleiðingu bótaskyldrar háttsemi að tjónþoli taki sitt eigið líf. Á

hinn bóginn má benda á sænskan hæstaréttardóm, NJA 1966, bls. 331, þar sem mjög miklar

Page 20: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

19

kröfur voru gerðar til tjónvalds að þessu leyti. Málsatvik voru þau að B var talinn

skaðabótaskyldur vegna tjóns sem A varð fyrir í umferðarslysi. A fékk alvarleg höfuðmeiðsli

og um tíu mánuðum eftir slysið framdi hann sjálfsvíg. Talið var að B bæri skaðabótaábyrgð á

dauða A og að sjálfsvíg hans væri sennileg afleiðing af þeirri háttsemi sem B var ábyrgur

fyrir, bílslysið.

Í öðrum sænskum hæstaréttardómi, NJA 2007, bls. 891 (sjálfsvíg fanga), reyndi einnig

m.a. á það hvort að sjálfsvíg væri sennileg afleiðing bótaskyldrar háttsemi.43 Málsatvik voru

þau að fangi, B, framdi sjálfsvíg með því að hengja sig með belti inn í fangaklefa. Tveir synir

B kröfðu ríkið um skaðabætur vegna dauða föður síns. Þeir reistu kröfu sína á því að

fangaverðir hefðu ekki séð til þess að belti væri tekið af B þegar hann fór aftur í fangaklefa

eftir að hafa farið þaðan á spítala, en það var talið grunnregla m.a. í þessu fangelsi einmitt

vegna hættu á því að fangi gæti framið sjálfsvíg.

Héraðsdómur Norrköpings vísaði til þess að fangelsisyfirvöld hefðu mátt sjá fyrir hættuna

á sjálfsvígi með vísan til þess að hann hafði tvisvar sinnum áður reynt að fremja sjálfmorð, þó

það hefði gerst fyrir mörgum árum, og það lá fyrir að hann var þunglyndur á þessum tíma.

Síðan segir í forsendum héraðsdómsins: „Då regeln om att livrem icke får innehas av dem

som är intagna i häkte är tillkommen för att livrem är ett föremål som intagna kan använda sig

av för att skada sig, har [B] dödsfall varit en rimlig förväntad konsekvens av försummelsen.“

Héraðsdómurinn komst því að þeirri niðurstöðu að ríkið bæri skaðabótaábyrgð vegna dauða B

og voru sonum hans dæmdar bætur.

Málinu var áfrýjað til áfrýjunardómstóls Göta sem snéri við niðurstöðu héraðsdómsins og

sýknaði ríkið af skaðabótakröfunni á grundvelli þessi að ekki hafi verið orsakatengsl milli

sjálfsvígsins og hinnar saknæmu háttsemi, að hafa ekki komið í veg fyrir að B næði að taka

beltið í fangaklefann. Áfrýjunardómstólinn vísaði til þess að það hafi eimitt verið ásetningur

B til að fremja sjálfsvíg sem leiddi til þess að hann gerði það sem hann gat til að koma í veg

fyrir að beltið væri tekið af honum: „ [...] det har varit avsikten att ta sitt liv som fått honom

att ta hand om livremmen på ett sådant sätt att häktespersonalen inte upptäckte detta [...]“.

Að lokum fór málið fyrir Hæstarétt sem staðfesti niðurstöðu áfrýjunardómstólsins með

eftirtöldum orðum: „I likhet med hovrätten finner HD att utredningen inte visar att

omständigheterna var sådana att staten genom kriminalvården borde ha insett att det fanns en

verklig och omedelbar risk för att [B] skulle begå självmord. Det finns därmed inte skäl att

sanktionera statens försummelse med skadeståndsskyldighet. Hovrättens domslut skall därför

43 Það ber að halda því til haga að í þessu máli komu til skoðunar sérstök sjónarmið m.a. vegna skyldna sem

hvíla á ríkjum vegna alþjóðlegra sáttmála.

Page 21: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

20

fastställas.“ Hér var því talið að skilyrðið um sennilega afleiðingu væri ekki uppfyllt, þ.e.a.s.

að sjálfsvígið væri ekki fyrirsjáanleg afleiðing saknæmu háttseminnar. Það sem renndi stoðum

undir þessa niðurstöðu Hæstaréttar Noregs var m.a. það að fjórum dögum fyrir sjálfsvígið

hafði B sagt við lækni að hann væri ekki í sjálfsvígshugleiðingum. Þá kom fram að hann hafi

áður reynt að taka sitt eigið líf en það var löngu fyrr, u.þ.b. 10 árum áður. Aftur á móti er

margt sem mælir með því að skilyrðinu um sennilega afleiðinu teljist fullnægt. B hafði reynt

að flýja daginn sem hann framdi sjálfsvígið, hann hafði sagt bæði fangavörðum og læknum

frá því að hann væri þunglyndur og vitað var að hann hefði reynt að fremja sjálfsvíg í tvígang

áður. B var einnig sérstaklega þunglyndur á þessum tíma þar sem dóttir kærustu hans hafði

horfið.

Segja má að í þessu máli kristallast það hve örðugt matið á sennilegri afleiðingu getur

verið eins og sést af mismunandi niðurstöðum héraðsdómsins og hinna hærri dómstiga og

mismunandi rökstuðningi allra dómstiganna í málinu.

Hægt er að benda á einn dóm Hæstaréttar Íslands þar sem tekist var á um það hvort að

hinn bótaskyldi bæri skaðabótábyrgð vegna sjálfsvígs annars manns. Í Hrd. 17. janúar 2008

(195/2007) voru málsatvik þau að Á lenti í umferðarslysi 26. febrúar 2000 þegar rútubifreið á

vegum A hf. var ekið í veg fyrir hann, sem leiddi til þess að varanlegur miski hans og örorka

var metin 25%. Hann fékk í kjölfarið greiddar bætur frá Vátryggingarfélagi Íslands hf, V.

Hinn 8. september 2002 framdi Á sjálfsvíg. Eiginkona Á höfðaði skaðabótamál gegn V og A

hf. í kjölfarið þar sem hún krafðist bóta fyrir sig og börn sín m.a. vegna missis framfæranda.

Héraðsdómur hafnaði skaðabótakröfunni með þeim rökum að orsakatengsl á milli

umferðarslyssins og sjálfsvígsins væru ekki sönnuð. Málinu var áfrýjað en Hæstiréttur komst

að sömu niðurstöðu. Það er áhugaverð röksemd sem kemur fram í dómi Hæstaréttar sem er að

meginstefnu sú sama og kom fram í héraðsdómi:

Í mati þessu og þeim læknisfræðilegu gögnum sem þar er vísað til kemur hvergi fram að [Á]

hafi við slysið hlotið áverka á höfði eða miðtaugakerfi sem gætu hafa leitt til þess að andleg

geta hans hafi beðið skaða af. Ekki er ágreiningur um að hann hafi haft mikla verki og síðar

verið haldinn þunglyndi eftir slysið. Það eitt að hann þjáðist af þessum einkennum eftir slysið

getur þó ekki talist sönnun þess að slysið hafi verið orsök sjálfsvígsins. (áherslumerking

höfundar)

Það er einkennilegt að Hæstiréttur virðist afmarka skaða á andlegri heilsu við áverka á

höfði eða miðtaugakerfi, en það varðar frekar sönnun á orsakatengslum og verður því ekki

frekar fjallað um það. Hæstiréttur fjallar hins vegar ekkert um sennilega afleiðingu í málinu. Í

héraðsdómi var hins vegar einfaldlega sagt: „Þegar litið er til heilsufars [Á] almennt árin 1990

Page 22: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

21

til láts hans verður ekki séð að slys það er hann varð fyrir 26. febrúar 2000 sé orsök þess að

hann fyrirfór sér tveimur og hálfu ári seinna hinn 8. september 2002. Þá telur dómari að

sjálfsvíg [Á] sé ekki sennileg afleiðing slyssins [...]“

5.3 Sjónarmið sem draga má af dómaframkvæmd

Það er ekki hægt að draga neinar ályktanir af Hrd. 17. janúar 2008 (195/2007) hvaða

sjónarmið geta komið til skoðunar við mat á því hvort sjálfsvíg teljist sennileg afleiðing

bótaskyldrar háttsemi. Hins vegar er áhugavert að skoða rökstuðning áfrýjunardómstólsins í

máli NJA 2007, bls. 891 (sjálfsvíg fanga). Áfrýjunardómstólinn tekur fram að almennt komi

ekki til skoðunar að láta aðila bera skaðabótaábyrgð vegna sjálfsvígs annars aðila. Það er því

m.ö.o. almennt umfram það sem telja má sennilega afleiðingu bótaskyldrar háttsemi. Síðan

dregur dómstólinn þá ályktun af NJA 1966, bls. 331 að þegar undantekning er gerð frá þeirri

almennu reglu þá sé það þegar hinn skaðabótaskyldi hefur sjálfur haft bein áhrif á það að

tjónþoli framdi sjálfsvíg, en sú var ekki staðan í NJA 2007, bls. 891 (sjálfsvíg fanga), heldur

var þar um að ræða brot gegn reglu sem átti að koma í veg fyrir að aðili gæti framið sjálfsvíg.

Fallast má á að almennt sé það ekki sennileg afleiðing bótaskyldrar háttsemi að aðili

fremur sjálfsvíg, en líkt og fram kom í kafla 4.5 þá á það almennt ekki að hafa áhrif við mat á

sennilegri afleiðingu að tjónþoli sé sérstaklega viðkvæmur. Það er augljóst að sama líkamlega

tjón getur haft mismunandi áhrif á mismunandi einstaklinga. Þannig gæti aðili sem er

sérstaklega andlega viðkvæmur orðið fyrir meira andlegu tjóni en almennt mætti telja

sennilegt. Það er aftur á móti ekki loku fyrir það skotið að aðili geti sannað orsakatengsl t.d. á

milli mjög alvarlegs líkamlegs tjóns og sjálfsvígs, og væri áhugavert að sjá hvernig

Hæstiréttur myndi takast á við matið á sennilegri afleiðingu. Það er erfitt að segja hvernig

Hæstiréttur myndi meta þetta, en eins og Hrd. 17. janúar 2008 (195/2007) og NJA 2007, bls.

891 (sjálfsvíg fanga) sýnir þá er sönnunarstaðan mjög erfið í þessum málum.

Page 23: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

22

6 Niðurstöður

Í þessari ritgerð hefur verið farið yfir mörg álitaefni tengd matinu á sennilegri afleiðingu. Í

öðrum kafla var þó byrjað á því að fjalla stuttlega um það skilyrði skaðabótaréttar að

orsakatengsl þurfa að vera á milli bótaskyldrar háttsemi og tjónsins sem af henni hlýst. Þar

kom fram að meginreglan er sú að orsakatengslin þurfa að vera á milli háttseminnar og alls

þess tjóns, sem tjónþolinn verður fyrir. Einnig kom fram að nægjanlegt er til að fullnægja

skilyrðinu um orsakatengsl að um meðorsök sé að ræða og að meginreglan er sú í

skaðabótarétti að tjónþoli þarf að sanna að orsakatengsl séu á milli saknæmrar háttsemi og

tjóns.

Í þriðja kafla var farið yfir það hvað felst í hugtakinu sennileg afleiðing. Þar kom fram að

tilgangur reglunnar væri að takmarka umfang skaðabótaábyrgðar og að reglan væri hluti af

skilgreiningu sakarreglunnar sem er meginregla íslensks réttar um skaðabótagrundvöll. Þar

kom einnig fram að til þess að skilyrðinu um sennilega afleiðingu teljist fullnægt þá þurfi

hætta á því tjóni sem varð að hafa aukist vegna hinnar saknæmu háttsemi, þó að sérhver lítil

aukning á líkunum uppfylli ekki skilyrðið.

Í fjórða kafla var komið víða við og skoðuð ýmis álitaefni varðandi matið á sennilegri

afleiðingu.

Í kafla 4.1 var fjallað um það að matið á sennilegri afleiðingu er bæði hlutlægt og huglægt.

Það er hlutlægt að því leyti að beitt er almennu mati til þess að komast að niðurstöðu um það

hvort tjón sé líkleg afleiðing háttsemi. Matið er einnig huglægt sem leiðir til þess að gerðar

eru meiri kröfur til aðila sem á frekar að sjá fyrir hættu á tjóni vegna þekkingar sinnar eða

reynslu.

Í kafla 4.2 var fjallað um það hvernig sú staða getur komið upp að matið á sennilegri

afleiðingu verður í raun hið sama og matið á saknæmi.

Í kafla 4.3 var farið yfir það hvort rökrétt væri að álykta að gerðar væru ríkari kröfur til

þess að afleiðing teljist sennileg, þegar um er að ræða atburðarrásina fram að frumtjóni,

heldur en þegar metið er hvað teljist sennileg afleiðing frumtjónsins. Skoðuð var dönsk

dómaframkvæmd og voru tveir dómar reifaðir sem veita ákveðna vísbendingu í þá átt að þetta

eigi e.t.v. við rök að styðjast. Síðan var farið yfir íslenskan dóm, Hrd. 1972, bls. 191 (óðs

manns víg), þar sem einnig voru gerðar mjög litlar kröfur til sönnunar á óbeinu tjóni. Dregin

var sú ályktun af þeim dómi að e.t.v. gildi svipuð sjónarmið hér á landi og í Danmörku til

sönnunar á óbeinu tjóni. Þess ber þó að geta að þetta er aðeins einn dómur og verður því ekki

haldið fram að þetta sé óumdeilanlegt.

Page 24: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

23

Í kafla 4.4 var farið yfir þýðingu vátrygginga við mat á sennilegri afleiðingu. Skoðaður

var dómur Rt. 2004, bls. 675 (agúrkuframleiðandi) þar sem vátrygging aðila hafði áhrif á

matið á því hvort beita ætti heimild norsku kaupalaganna sem er samhljóða 2. mgr. 70. gr.

lkpl. Þá var einnig tekið fram að 1. mgr. 24. gr. skbl. veitir dómstólum heimild til þess að fella

niður skaðabótaábyrgð og er þar sérstaklega tekið fram að líta skuli m.a. til vátrygginga aðila.

Þessi regla skarast á við regluna um sennilega afleiðingu og veitir dómstólum í raun sömu

heimild og þeir hafa ef þeir telja að skilyrðið um sennilega afleiðingu sé ekki uppfyllt.

Í kafla 4.5 var tekið til skoðunar hvort að það ætti að hafa áhrif á skaðabótaskyldu ef

tjónþoli er sérstaklega viðkvæmur. Niðurstaðan var sú að almennt ætti það ekki að hafa áhrif á

skaðabótaskyldu, sbr. Hrd. 1972, bls. 191 (óðs manns víg), en að það gæti þó gert það í

sérstökum tilfellum.

Í kafla 4.6 var farið yfir Hrd. 2000, bls. 265 (317/1999) (Akranesstelpurnar) í tengslum

við þýðingu þess að þriðji maður veldur því að tjónþoli verður fyrir meira tjóni eða verður

fyrir tjóni sem hann hefði annars ekki orðið fyrir. Færð voru rök fyrir því að e.t.v. hafi

skaðabótaábyrgð verið takmörkuð óhóflega í málinu á grundvelli sennilegrar afleiðingar.

Í kafla 4.7 var tekið til skoðunar hvort eðli máls gæti haft áhrif við mat á sennilegri

afleiðingu. Með hliðsjón af Hrd. 19. janúar 2012 (426/2011) (Norðurál) var talið að svo væri.

Í kafla 5 var að lokum komist að þeirri niðurstöðu að sjálfsvíg getur talist sennileg

afleiðing bótaskyldrar háttsemi. Farið var yfir tvo sænska dóma þar sem reyndi á þetta

álitaefni og voru dregnar ákveðnar ályktanir um sjónarmið sem koma til skoðunar við mat á

sjálfsvígi sem sennilegri afleiðingu bótaskyldrar háttsemi. Það er óvíst hvernig tekið væri á

þessu fyrir íslenskum dómstólum en ljóst er að sönnunarstaðan er mjög erfið í þessum málum.

Page 25: Arnar Halldórsson Umsjónarkennari: Tómas Hrafn Sveinsson

24

HEIMILDASKRÁ

A. Vinding Kruse: Erstatningsretten. 5. útgáfa. Kaupmannahöfn 1989.

Alþingistíðindi.

Arnljótur Björnsson: Skaðabótaréttur. Kennslubók fyrir byrjendur. 1. útgáfa. Reykjavík

1986.

Arnljótur Björnsson: Skaðabótaréttur. Kennslubók fyrir byrjendur. 2. útgáfa. Reykjavík

1999.

Bo von Eyben og Helle Isager: Lærebog i erstatningsret. 5. útgáfa. Kaupmannahöfn 2003.

C.D. Baker: Tort. 5. útgáfa. London 1991.

Davíð Þór Björgvinsson: Lögskýringar. Reykjavík 1995.

Hjalmar Karlgren: Skadeståndsrätt. 5. útgáfa. Stokkhólmur 1972.

Jan Hellner og Svante Johansson: Skadeståndsrätt. 6. útgáfa. Stokkhólmur 2002.

Marcus Radetzki: Orsak och skada. Stokkhólmur 1998.

Páll Sigurðsson ritstjóri: Lögfræðiorðabók með skýringum. Reykjavík 2008.

Sigurður Líndal: Um lög og lögfræði I. Grundvöllur laga – réttarheimildir. 2. útgáfa.

Reykjavík 2010.

Viðar Már Matthíasson: Skaðabótaréttur. Reykjavík 2005.

Viðar Már Matthíasson: „Um orsakatengsl og reglur um takmörkun á umfangi

skaðabótaábyrgðar“. Tímarit lögfræðinga, 4. hefti 2002, bls. 311-356.

Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur I. Efndir

kröfu. Reykjavík 2009.